378. - Víkverji og ummæli hans um moggabloggið

Lára Hanna skrifaði Víkverja Morgunblaðsins bréf vegna skrifa hans um blogg. Hún birtir bæði grein Víkverja og bréf sitt á blogginu sínu. Mig langar að lýsa hér í stuttu máli hvernig ég held að hlutirnir gangi fyrir sig á Morgunblaðinu.

Moggabloggið var fundið upp vegna þess að tölvumennirnir á Mogganum höfðu ekki sérstaklega mikið að gera og auk þess er gott fyrir auglýsingasölu að umferð um tölvulén moggans sé sem allra mest.

Byrjendur í blaðamennsku eru látnir þýða og skrifa fréttir og setja síðan á mbl.is. Ekki er að sjá að það sem þeir láta þar sé neitt lesið yfir. Bloggarar sjá um að gera athugasemdir við fúskið sem óneitanlega sést þar ansi oft.

Aðeins nokkuð reyndir blaðamenn fá að skrifa pistla undir nafninu Víkverji. Pistillinn sem Lára Hanna vitnar til er ágætlega skrifaður og til þess ætlaður að æsa bloggara upp og líka til að ala á fordómum í fólki gagnvart bloggi. Líklega til að fólk kaupi frekar Moggaræfilinn en lesi ókeypis blogg. Auðvitað er hann skrifaður í gríni en samt á þann hátt að vel er hægt að taka hann alvarlega. Sumir munu gera það.

Lára Hanna sér grínið og ákveður að ganga bara lengra í vitleysunni. Með því að birta bréf Láru Hönnu athugasemdalaust gerir Víkverji dagsins tvennt. Hann sýnir Láru Hönnu og öðrum sem fatta grínið að hann skilur þetta alveg líka. Með því að fella niður hluta af undirskrift hennar heldur hann áfram að hlaða undir fordómana í garð bloggsins. Það er nefnilega mögulegt fyrir ókunnuga að halda að Lára Hanna sé að tala í alvöru.

Það sem sjónvarpsfréttir hafa framyfir útvarpið er að fréttamenn geta myndskreytt fréttir samkvæmt hugmyndaflugi sínu. Stundum er myndefnið í boði annarra en yfirleitt ekki merkilegt ef grannt er skoðað.

Ég minnist þess að þegar ég vann uppi á Stöð 2 sagði Marínó Ólafsson hljóðmeistari mér einu sinni að athyglisvert væri að þegar upptökuhópar færu til að taka upp fréttir væri það jafnan svo að myndin skipti í raun engu máli þó mest væri eftir henni tekið. Ef hljóðið væri gallað væri fréttaupptakan hins vegar ónýt.

Eitt sinn þegar Balkanstríðin stóðu sem hæst voru fréttir af flóttafólki í sjónvarpinu á hverju kvöldi. Eitt sinn sneri tökumaður nokkur vél sinni öfugt smástund svo hýenupakkið sem sá um að koma fréttunum til okkar sófa-kartaflnanna blasti við í nokkrar sekúndur. Þessi mynd er mér ofar í minni en allir þeir útbelgdu svöngu magar sem ýtt hefur verið að okkur á skjánum undanfarin ár.

Eftirminnilegasta fréttaskotið frá ísbjarnarveiðunum hjá Hrauni á Skaga er í mínum huga þegar mynd var tekin af öllu liðinu sem safnast hafði þarna saman. Daninn sem fenginn var til landsins hefur eflaust verið sérfræðingur í einhverju. Líklega samt ekki í því að fanga ísbirni. Þá fannst mér nú Benedikt Henry vera skynsamlegri í sjónvarpsfréttunum um daginn.

Í lokin eru svo fjórar ljósmyndir.

IMG 1574Þetta er nýjasta Krónubúðin. Hún er skammt frá Smáratorgi og er nokkuð flott. Á flestan hátt tekur hún fram Bónus búðinni sem er rétt hjá. Veit samt ekki með verðin. Líklega væri best að spyrja okur-Gunna um þau. Þarna var ég staddur þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir um daginn og fann hann ekki.

IMG 1585Þetta er sólarlagsmynd frá Reykjavík. Tekin í gær eða fyrradag. Ef vel er að gáð má sjá saklausa ljósastaura innan um grenitrén.

IMG 1591Svífa yfir Esjunni... - eldrauður himinn og kannski einhver sólroðin ský líka.

IMG 1594Þetta held ég að sé Gullregn. Þó veit ég það svosem ekki. Mér finnst þetta bara fallegt tré. Það stendur við Auðbrekkuna í Kópavogi og er auðvitað haft á bak við hús eins venjan er með svonalagað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Innlitskvitt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.7.2008 kl. 08:51

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Fallegar myndir

Jónína Dúadóttir, 3.7.2008 kl. 09:44

3 identicon

Góðar myndir hjá þér. Það er orðið ansi mikið auðveldara að vinna myndir með stafrænum vélum nútímans en þegar við vorum í mykraherbergisdundinu í Bifröst í uralten zeit. En það var samt meira gaman þá!

Kaffi eða te, Sæmundur?

Ellismellur 3.7.2008 kl. 14:18

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Jú Sæmundur..... neðsta myndin er af Gullregni.  Ég man hvað Steini Jóru var stoltur af Gullregninu sínu í garðinum á Kjartansgötunni.  Hann sagði að það væru bara tvö svona tré í Borgarnesi, á þeim tíma. 

Anna Einarsdóttir, 3.7.2008 kl. 16:48

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mín skoðun er sú að Víkverji hafi reyndar ekki verið að grínast! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2008 kl. 17:29

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Ellismellur. Ég man vel eftir að það voru tveir ljósmyndaklúbbar á Bifröst í eldgamla daga. Þeir hétu Foto og Fókus. Ég hafði fengist lítillega við framköllun á myndum áður en ég kom í skólann þar og það dugði mér til að vera kallaður formaður í öðrum þeirra. Kári Jónasar var formaður í hinum ef ég man rétt.

Sæmundur Bjarnason, 3.7.2008 kl. 18:03

7 Smámynd: www.zordis.com

Afbragðs myndir hjá þér! 

www.zordis.com, 3.7.2008 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband