375. - Að vera álitinn tölvunörd og svolítið um bækur og sundkennslu

Í Grímsnesdvölinni las ég nokkrar bækur. Ein þeirra heitir Leikir og störf og er eftir Þórarinn Helgason. Gefin út af Almenna bókafélaginu 1976.

Þórarinn er fæddur og uppalinn í Landbrotinu snemma á síðustu öld. Í þessari bók segir hann frá uppvexti sínum og æsku og þó mörgum finnnist áreiðanlega að þarna sé verið að segja frá ósköp lítilvægum og ómerkilegum hlutum er bókin ótrúlega grípandi.

Ein eftirminnilegasta frásögnin þarna er af sundkennslu sem höfundurinn fékk ásamt fleirum eitt vorið og fór fram í æði misjöfnum veðrum. Kennt var í skítkaldri laug sem myndaðist við það að sett var fyrirstaða í læk. Ekki gátu menn synt lengi í hvert sinn vegna kulda. Hlupu þeir því um og tuskuðust þess á milli til að halda á sér hita. Höfðu líka aðgang að húsnæði sem bauð upp á aðstöðu til einhverskonar leikfimiæfinga. Einn af þeim hraustustu fór þó eitt sinn á einskonar eftirskjálftastig og varð máttlaus og þvoglumæltur. Hann var borinn og dreginn á næsta bæ og varð sífellt máttlausari og meira útúr heiminum á leiðinni. Þar var hann settur ofan í þurrt rúm ásamt heitum vatnsflöskum og allir bjuggust við að hann mundi einfaldlega deyja. Bókarhöfundur lýsir því síðan vel þegar sjúklingurinn fékk allt í einu öflugra skjálftakast en hann hafði áður séð. Þá fyrst fóru menn að eygja von.

Það er erfitt að vera álitinn nörd, en vera það alls ekki. Samt eru það að mörgu leyti mín örlög. Í dentid var nóg að kunna sitt DOS og segja að Makkar væru fyrir fávita. Tölvuheimurinn er orðinn svolítið flóknari núna en margt af því sem kallað er tölvuþekking er bara að kunna á einhver ákveðin forrit og í raun og veru eru stýrikerfi bara forrit. Windows er til dæmis stýrikerfi sem á sínum tíma tók við af DOS-inu.

Af því að ég lærði talsvert í DOS-i á sínum tíma fór ekki hjá því að ég væri álitinn vita heilmikið um tölvur. Ég hef reynt að viðhalda þessari villu, en það verður sífellt erfiðara. Eiginlega veit ég afar lítið um tölvur þó ég geti kraflað mig framúr ýmsu.

Ég á oft verst með að átta mig á hvernig netforritarar hugsa. Stundum lendi ég í einhverju á Vefnum sem á greinilega að vera sáraeinfalt en mér finnst hundflókið. Ég hugga mig við að það sé bara vegna þess að ég hugsa öðruvísi en aðrir. Hinn möguleikinn, sem er að ég sé bara svona vitlaus, er ekki nógu góður fyrir mig.

Ekki dugir að afneita tölvum og láta eins og þær séu ekki til. Netið er á margan hátt nýr heimur en í kjötheimum verðum við samt að lifa lífi okkar. Netlífið er bara gervilíf. Samt er það mikils virði og það er sífellt að verða mikilvægara. Þó Netið nýti sér bara tvö af skilningarvitunum fimm er furða hve mikið er hægt að gera þar. Aðallega gerist það með því að afneita hinum þremur skilningarvitunum og mikilvægi þeirra en líka með því að líkja eftir þeim.

Hér eru fáeinar myndir til viðbótar úr Grímsnesinu og nágrenni:

IMG 1330Það er dálítið svindl í þessari mynd. Þetta er bara líkan af bæ.

IMG 1356Þetta er verslun á Sólheimum.

IMG 1382Þarna er verið að leika sér á Laugarvatni.

IMG 1439Þessi mynd er tekin við Kerið í Grímsnesinu.

IMG 1446Hér má sjá eina af afleiðingum jarðskjálftans í maí. Þetta er stærðar bjarg sem hrunið hefur úr Ingólfsfjalli skammt frá Tannastöðum.

IMG 1459Hafið við Stokkseyri. Þessi mynd minnir óneitanlega á málverk.

IMG 1481Blóm eitt lítið og lasið.

IMG 1499Þetta er fossinn Faxi í Tungufljóti.IMG 1560

Við nýja hverasvæðið hjá Reykjum í Ölfusi. Já, jörðin er heit. Þarna gæti komið upp hver von bráðar. Þeir koma víst og fara eftir því sem þeim sýnist þessa dagana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Innlitskvitt...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 30.6.2008 kl. 10:23

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þú varst nú tölvugúrúinn okkar hérna í den, Sæmi minn - nörd eða ekki nörd. Þú gast leyst öll vandamál sem upp komu og haggaðist ekki þótt við hin værum að fara yfirum af stressi.

Það var gott að eiga þig að og ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tíma komið fyrir að þú gætir ekki leyst málin.

 

Lára Hanna Einarsdóttir, 30.6.2008 kl. 10:31

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Lára Hanna. Þú ert alltaf í því að örva mig til dáða hér á Moggablogginu. Ég man alltaf hvað Valtýr Björn var einu sinni æstur þegar hann átti að fara í útsendingu eftir örfáar mínútur og einn af prenturunum okkar var með einhver leiðindi við hann.

Sæmundur Bjarnason, 30.6.2008 kl. 11:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband