318. - BRE, frisk, Salvör, höfundarréttarmál og fleira. Já, ég þarf alltaf að skrifa um svo margt

Ég sé að Bjarni Rúnar Einarsson er búinn að skrá sig á Moggabloggið. Ástæðan er eftirfarandi svo notuð séu hans eigin orð: Þá er ég kominn með blog.is síðu og get tekið þátt í lokuðum bloggheimi MBL.

Aðallega býst ég við að þetta sé gagnlegt til að gera athugasemdir við tilteknar fréttir og taka þátt í umræðu hér; það er ekki séns að ég fari að skrifa lengri pistla á vef sem er ekki undir mínu eigin léni... 

Bjarni er einn af þeim bloggurum sem ég hef lengi fylgst með. Þó hef ég ekki skoðað bloggið hans nýlega, enda haft mikið að gera hér á Moggablogginu bæði við lestur og annað.

Síðast þegar ég vissi vann Bjarni hjá Friðriki Skúlasyni (frisk.blog.is) og hann er einhver besti forritari fyrir utan Friðrik sem ég veit um. Þar að auki er hann prýðilega ritfær eins og Friðrik er raunar líka.

Bjarni hefur valið að hafa síðu sína á Moggablogginu með hvítum stöfum á svörtum grunni, sem er afleit hugmynd. Ef Moggabloggið er lokaður bloggheimur eins og Bjarni heldur fram þá eru einkalén það ekki síður. En hvað um það. Bjarni hefur áhuga á höfundarréttarmálum og það hef ég líka.

Friðrik Skúlason hefur nokkrum sinnum látið til sín heyra þegar málefni torrent.is og svipaðra samtaka hefur borið á góma. Einhvern tíma var ég á öðru máli en hann um höfundarréttarmál og Lára Hanna vinkona mín tók það óstinnt upp.

Sannleikurinn er sá að ég er talsvert hallur undir sjónarmið Salvarar Gissurardóttur í þessum málum. Þegar ég vann að því fyrir fleiri árum, en mig langar til að muna, að koma Netútgáfunni á fót þá kynntist ég höfundarréttarmálum dálítið, að því leyti sem þau snerta ritað mál.

Ég geri mér þó fulla grein fyrir því að framtíðin liggur ekki í rituðu máli, heldur hljóði og mynd og höfundarréttarmál eru á margan hátt flóknari þar.

Ástæða þess að Bjarni Rúnar lætur ljós sitt skína á Moggablogginu er nýleg grein á mbl.is um forritið Videntifier og möguleika þess.

Salvör Gissurardóttir ræðir líka um þetta forrit á bloggi sínu. Mér blandast ekki hugur um að þessi mál skipta miklu máli, þó þau veki ekki eins mikla athygli í ati dagsins eins og Árni eyjajarl og óðir trukkabílstjórar.

Ég mun sannarlega reyna að fylgjast með umræðum sem kunna að skapast um þessi mál.

Já, og svo er Sigurður Þór víst hættur að blogga einu sinni enn. Svei mér þá.

Ég á farsíma eins og fleiri. Samkvæmt ráðleggingum frá mér vitrara fólki í símamálum er ég með svokallað "frelsi" frá Og Vodafon. Ég fæ sjaldan hringingar frá óviðkomandi og sjaldan hringingar yfirleitt, en þykir nauðsynlegt að vera með farsíma. Upp á síðkastið hafa mér öðru hvoru borist SMS frá einhverjum sem kallar sig siminn.is með auglýsingum um tónleika á NASA. Þó ekki væri nema vegna þessa átroðnings er öruggt að ég mun aldrei fara á tónleika á NASA. Hvernig ætli standi eiginlega á þessu? Mér finnst að maður eigi að geta verið í friði fyrir auglýsingum ef maður hefur ekki beðið um þær og er ekki að nýta sér neina ókeypis þjónustu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Rúnar Einarsson

Halló Sæmi!  Þakka fögur orð í minn garð. Svona til að uppfæra þig um hvar ég er og hvað ég er að gera; ég er kominn til Google á Írlandi og vinn þar við að reka Bigtable gangagrunna eins og er.

Varðandi blog.is: ég kalla þetta lokaðan heim, því til að taka þátt í umræðunni hér þarf ég að nota kerfið þeirra. Þeir nota ekkert af þeim opnu stöðlum sem eru til staðar til að bjóða upp á samskonar virkni á mili vefsvæða, þeir vilja að allir séu hér á þeirra síðum.

Hvað ef mig langar líka að taka þátt í umræðu á DV.is?  Og einhverjum erlendum síðum?  Er eðlilegt að ætlast til þess að maður sé með eitt blogg fyrir hvern fjölmiðil sem maður skrifar um, og að skrif manns séu á víð og dreif um alla netheima?  Mér finnst það frekar asnalegt. :-)

Að skrifa á mínu eigin léni þýðir að ég hef stjórn yfir hvaða kerfi ég nota og hvar ég hýsi skrifin mín. Það hefur gegnum árin (bráðum áratugur!) farið það mikil vinna í þessi skrif að mér finnst þetta sjálfstæði mjög dýrmætt.

Það segir sitt um undirliggjandi hvatir blog.is að það býður upp á "innlestur" færslna úr öðru bloggi... en enga greiða leið til að flytja gögn í hina áttina. Hvernig á maður að ná skrifum sínum út úr moggablogginu aftur ef maður ákveður að flytja sig eitthvert annað?  Í fljótu bragði sýnist mér það ekki vera raunhæft fyrir aðra en forritara. Þeir bjóða fólki að kaupa sig undan auglýsingum. Mikið eru þeir góðir. Af hvejru bjóða þeir ekki duglegum bloggurum hlut í auglýsingatekjum?

Af hverju inniheldur RSS straumurinn þeirra ekki vísanir á fréttirnar sem menn blogga um?  Af hverju bjóða þeir ekki upp á OpenID staðfestingu fyrir komment?  Af hverju getur maður ekki notað trackback til að gera athugasemdir við fréttir og blogg af öðrum síðum útí heimi?  Og svo framvegis.  Sumt á kannski bara eftir að útfæra, en ég er svo nojaður að mig grunar að þeir sleppi sumu viljandi, því þeir vilja halda þessu lokuðu og "eiga" eins stóran hluta af íslensku vefumræðunni og þeir geta.  Það pirrar mig.

Loks, úr skilmálum blog.is:

"Jafnframt áskilur Morgunblaðið sér rétt til að loka síðu notanda, að hluta til eða í heild, án þess að notandi eða þriðji aðili öðlist skaðabótarétt."

Svona ákvæði eru ástæðan fyrir að ég vil hafa val um hvar ég hýsi skrif mín.

Bjarni Rúnar Einarsson, 28.4.2008 kl. 15:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Bjarni fyrir tilskrifið og jákvæða og málefnalega gagnrýni á Moggabloggið. Mér finnst einmitt oft hafa skort á að gagnrýni á það sé málefnaleg. Það má eflaust margt að því finna sem þeir Moggabloggsmenn gera, en eitt verður ekki af þeim skafið. Þeir hafa breytti blogglandslaginu á Íslandi. Þeir voru á réttum stað á réttum tíma. (frá þeirra sjónarmiði a.m.k.) Langstærsti hluti bloggara hér held ég að hafi lítinn áhuga á tæknimálum og bloggi hér mest af því að aðrir gera það og svo er mjög auðvelt að byrja. Líka er þjónustan og upptíminn með því besta sem gerist, sýnist mér.

Sæmundur Bjarnason, 28.4.2008 kl. 19:52

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einu sinni, einu sinni enn ...

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.4.2008 kl. 01:00

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Meðal annarra orð: Finnst mér bloggið almennt vera eitthvað annað en sorapyttur?

Sigurður Þór Guðjónsson, 30.4.2008 kl. 19:50

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sorapyttur? Kannski. Aðallega þó ruslakista. Smám saman lærir maður að leita og þá er ýmislegt að finna þar.

Sæmundur Bjarnason, 30.4.2008 kl. 20:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband