279. - Nú held ég að vorið sé komið, svei mér þá. Líklega er bara Páskahretið eftir

Veðrið í dag er búið að vera mjög gott. Kannski vorið sé bara að koma.

Áslaug birtir prýðilega vorvísu á sínu bloggi  og mynd líka. Hún er reyndar oft að birta myndir, vísur og ýmislegt annað þar.

Mér er það þvert um geð að vera sammála Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni. Ég ber samt heilmikla virðingu fyrir Salvöru systur hans og einkum þó þegar kemur að höfunarréttarmálum. Ég get ekki annað en verið sammála Hannesi í höfundarréttarströgglinu við Auði Laxness og börn. Hvernig er hægt að skrifa ævisögu rithöfundar án þess að vitna í hann? Nákvæmlega hvernig átti að vitna í bækur hans lá ekki fyrir þegar Hannes skrifaði bækurnar.

Samt get ég alveg viðurkennt að Hannes hefði getað farið miklu varlegar í sakirnar. En svoleiðis eftirágáfur eru heldur lítils virði. Í prinsippinu er ég á móti höfundarréttarlögum af öllu tagi, en viðurkenni þó að eins og vestræn þjóðfélög eru uppbyggð er óhjákvæmilegt annað en að höfundar hafi talsverðan rétt. Hinsvegar finnst mér réttur þeirra óþarflega rúmur nú á tímum þessarar allsherjar Netvæðingar og auk þess óhóflega langur.

Hverjum kom það til góða á sínum tíma, öðrum en voldugum útgáfufyrirtækjum, að lengja höfundarrétt úr 50 í 70 ár eftir dauða höfundar, eins og gert var árið 1997? Mér fannst sú gerð með öllu út í loftið og flestar aðrar breytingar sem gerðar hafa verið undanfarið á höfundarréttarlögum hafa eingöngu verið til bölvunar.

Mamma var fremur grannvaxin. Einhvern tíma voru annaðhvort Hulda á Mel eða Gudda á Sunnuhvoli að spyrja hana hvernig hún færi eiginlega að því að halda sér svona grannri. Þá sagði mamma og ég man mjög vel eftir því: "Þetta er ósköp einfalt. Ég fæ mér bara alltaf heldur minna en mig langar í." Þetta mætti vel kalla gamalt megrunarráð.

Af eihverjum ástæðum var nokkuð algengt í mínu ungdæmi að kveikja þyrfti á kertum. Við systkinin höfðum mjög gaman af því. Mest var þó gaman að fikta í kertunum. Láta næstum slökkna á þeim og ýmislegt í þeim dúr. Mamma sagði stundum við okkur: "Þið skuluð ekki vera að kvelja eldinn. Hann gæti átt eftir að ná sér niðri á ykkur." Vax máttum við ekki borða því þá mundum við hætta að stækka.

Mamma sagði alltaf "kvittering" en ekki kvittun. Líka sagði hún stundum: "Mig stansar á....." Orð eins og "mævængja" og "stígstappa" voru henni líka töm á tungu. Þessu gerðum við Ingibjörg óspart grín að og töldum þetta vitleysu hina mestu. Þetta var á þeim tíma þegar við þóttumst vera afskaplega gáfuð. Miklu gáfaðri en foreldrar okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband