11.3.2008 | 05:08
275. - Enn um Breiðavíkurmálið. Ennig svolítið um skák og vísnagerð
Mikið hefur verið rætt og ritað um Breiðavíkurmálið og það er auðvitað að bera í bakkafullan lækinn hjá mér að ætla að bæta einhverju við þá umræðu. Fyrst þegar ég heyrði um þetta heimili, sem var á meðan það enn starfaði, hélt ég að það væri í Breiðuvík á Snæfellsnesi.
Ég las líka á sínum tíma bókina "Stattu þig, strákur", sem fjallaði um Sævar Ciesielski og þar var meðal annars rætt við hann um veru hans á Breiðuvíkurheimilinu. Ég man vel eftir að mér fannst hann lýsa ástandinu þar þannig að annaðhvort væri hann að ýkja þetta stórlega eða athugun á þessu máli væri í réttum farvegi. Það hlyti höfundur bókarinnar að hafa gengið úr skugga um. Að jafnvel þeir sem vissu vel hvernig ástandið hafði verið og vissu líka að engin ástæða var til að draga orð Sævars í efa hafi þó kosið að gera ekki neitt, datt mér aldrei í hug.
Boris Spassky segist vera svartsýnn á framtíð skákarinnar. Það er fyllsta ástæða til að hlusta þegar þessi spekingur lætur í sér heyra. Ég gæti vel trúað að skákeinvígi verði aldrei framar í heimsfréttunum eins og gerðist í einvígi þeirra Fischers og Spasslys árið 1972, en samt er fyllsta ástæða til að hvetja krakka til að leggja stund á skák.
Skákin er miklu hollari en margt það sem ruglar krakka í ríminu nú á þessum síðustu og verstu tímum. Heilbrigður metnaður er hollur og þó sumir fáist ekki til að viðurkenna það, þá er enginn efi í mínum huga að skákin er íþrótt og sem slík miklu hollari en margar líkamlegar íþróttir sem þó beinast mjög að andlega sviðinu. Þarna á ég auðvitað við austulenskar bardagaíþróttir sem ganga undir ýmsum nöfnum og mörgum finnst afar fínt að stunda.
Líkamlegar íþróttir eru að sjálfsögðu líka hollar og ekkert sem mælir á móti því að stunda bæði skák og aðrar íþróttir. Í flokkaíþróttum lærir fólk að taka tillit til annarra. Skákin er hins verar hin dæmigerða einstaklingsíþrótt. Þar er engum öðrum hægt um að kenna og velgengni einstaklingsins honum einum að þakka.
Eftirfarandi vísu sá ég fyrst í gestabók í skála Skátafélags Hveragerðis í Klambragili, sem þá var reyndar alltaf sagður standa innst í Reykjadal. Áreiðanlega eru meira en 50 ár síðan þetta var. Rétt er að taka fram að á þeim tíma sem vísan var ort hefur Teresía Guðmundsdóttir verið veðurstofustjóri. Ég held þó að hún hafi ekki verið það lengur þegar ég sá vísuna fyrst.
Harðna tekur tíðarfar
Teresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.
Þarna held ég að höfundurinn hafi verið að leika sér með hina tvöföldu merkingu orðsins tittlingur. Ég man að mér þótti þessi vísa afar vel gerð á sínum tíma og hugsanlega hefur hún með öðru orsakað áhuga minn á vísum og vísnagerrð. Annað sem hefur haft áhrif á það er að á sínum tíma átti ég fremur auðvelt með að læra bragfræðina sem troðið var í okkur í íslenskutímunum í skólanum.
Eftirfarandi orð eru að ég held úr einhverri þjóðsögu eða þess háttar. Þarna held ég að orðið tittlingur eigi bara við smáfugl og ekkert annað. Þarna finnst mér höfundurinn einungis vera að leika sér að rími og því sem ég vil kalla hálfrím. Ekki man ég hvar ég sá þennan samsetning fyrst en það kann að hafa verið í einhverri skólabók. Síðustu línunni bætti ég nú bara við af því mér fannst hún eiga ágætlega heima þarna.
Karl og kerling
riðu á Alþing.
Fundu tittling,
stungu í vettling.
Og svo sneru þau sér í hring.
Athugasemdir
Sæmundur!, Fyrri vísan er eftir Egil heitinn Jónasson og í handriti hans er hún svona: Tökin herðir tíðarfar/theresía spáir byl/hver sem tittlings verður var/veiti honum skjól og yl. - Ástæðan var sú, að þegar við vorum strákar, Sæmundur, þá voru veðurfregnir á undan hádegisfréttum á RÚV (sem var eina stöðin í þann tíð) og eftir að vetraði, var jafnan tilkynning frá sólskríkjusjóðnum líka: "Nú er hart í ári hjá smáfuglunum og er því fólk til sjávar og sveita minnt á að gefa þeim". Svo kom stórhríðarspá og þá orti Egill vísuna. Kaffi eða te, Sæmundur?
Ellismellur 11.3.2008 kl. 06:56
Já, ég man vel eftir heilagleika hádegisfréttanna. Þegar Geysir fórst á Bárðarbungu máttum við krakkarnir varla anda meðan fréttir voru lesanar. Svarið við spurningunni í lokin er já, eins og ég hef áður sagt. Hún bendir líka til þess að þú hafir verið á Bifröst.
Ellismellur ern og vís,
eitt sinn var hjá Gvendi.
En hans komment öll sem prís
ætla ég að lendi.
Sæmundur Bjarnason, 11.3.2008 kl. 14:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.