9.3.2008 | 00:13
273. - Netútsending rofin áður en "Gettu betur" lýkur - óþolandi. Einnig um kristniboð í Kína og málflutning Vilhjálms Arnar um Ísrael
Um daginn var "Gettu betur" viðureign milli Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla. Af því að ég var að vinna gat ég ekki fylgst með viðureigninni í sjónvarpinu, en þátturinn var sendur beint út á Netinu svo ég gat fylgst með honum þar.
Þessi þáttur var nokkuð spennandi og undir lokin voru úrslitin komin undir því hvernig liðin svöruðu síðustu spurningunni. Þá var það sem útsendingin á Netinu rofnaði og kom ekki aftur.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona lagað kemur fyrir. Ég hef líka bloggað um það áður. Svo virðist vera sem fyrirfram ráðgerður tími sé settur inn í tölvuna sem sendir þetta á Netið. Þegar sá tími er liðinn lýkur útsendingunni þar. Enginn virðist fylgjast með hvort útsendingin fari fram yfir áætlaðan tíma og að þetta sé í lagi. Þeir sjónvarpsmenn ættu að skammast sín fyrir þetta og þá vantar bara viljann til að gera þetta almennilega.
Sú eina og sanna Björk okkar stríddi Kínverjunum um daginn eftirminnilega með því að minnast á sjálfstæði Tíbet. Gott hjá henni. Einmitt núna um þessar mundir þegar allir virðast skíthræddir við Kínverja og óttast veldi þeirra.
Hannes Jóhannsson sem var eitt sinn tæknistjóri á Stöð 2 sagði mér tvær sögur frá Kína sem falla mér ekki úr minni. Hannes er eins og margir vita sonur Jóhanns Hannessonar sem lengi var trúboði í Kína. Hannes er fæddur í Hong Kong ef ég man rétt.
Móðir hans hafði snúið kínverskri konu sem vann hjá henni til kristinnar trúar. Sú kínverska var ákveðin í að kasta sinni fyrri trú, en það var eitt mál tengt þessu sem var til mikilla vandræða. Hvað átti hún að gera við stytturnar af gömlu guðunum? Trúarlegur viðsnúningur hennar var nú ekki sterkari en svo að hún gat alls ekki hugsað sér að henda þeim í ruslið. Slíkt væri mikil óvirðing við guðina. Ekki gat hún heldur beðið aðra fjölskyldumeðlimi sína að sjá um guðina og stytturnar. Það var alltof hættulegt. Guðirnir gætu snúist öndverðir við slíku og farið að gera mönnum ýmsan miska.
Þetta var mikið og torleyst vandamál og hún trúði móður Hannesar fyrir því að hún sæi eiginlega enga leið útúr þessu og myndi líklega neyðast til að hætta við að taka kristna trú.
Þá var það sem mamma Hannesar fékk skyndilega hugdettu:
"Þú getur bara gefið mér stytturnar," sagði hún.
Þetta fannst þeirri kínversku slík snilldarhugmynd að hún tók gleði sína að fullu aftur. Ef einhver gæti tjónkað við guðina sem bjuggu í styttunum hlyti það að vera eininkona sjálfs trúboðans. Málið var einfaldlega leyst og allir tóku gleði sína á ný.
Hin sagan sem Hannes sagði mér var öllu dapurlegri. Háskólagenginn fjölskylduvinur þeirra bjó skammt frá þeim. Þetta var á dögum menningarbyltingarinnar svonefndu og skyndilega fréttist það einn daginn að þessi fjölskylduvinur hefði verið handtekinn og færður fyrir byltingardómstól sem settur var saman í skyndingu.
Þau hjónin íslensku gerðu allt sem þau gátu til að fá rauðu varðliðana til að láta manninn lausan. Höfðu samband við þau yfirvöld sem þeim gat til hugar komið að hefðu mögulega áhrif í þessu efni og gerðu í stuttu máli sagt allt sem þeim datt í hug að gæti bjargað manninum úr klóm varðliðanna. Þegar dagur var að kveldi kominn kom þó í ljós að þetta var allt unnið fyrir gýg. Maðurinn hafði verið dæmdur til dauða og tekinn af lífi án minnstu tafar.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar á bloggsíðu sína pistil sem hann kallar Íslenskir öfgabloggarar" og á þar greinilega ekki við sjálfan sig. Í mínum huga er Vilhjálmur sjálfur þó ekkert annað en ótíndur öfgamaður sem notar hvert tækifæri sem hann getur til að réttlæta allar gerðir Ísraelsstjórnar. Ég hef samt engan sérstakan áhuga á að rökræða um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs sem margir hafa þó reynt að gera. Öfgamenn finnast bæði meðal Palestínumanna og Ísraelsmanna.
Þeim sem gjarnan vilja kynna sér hvernig öfgamenn hugsa get ég bara bent á að lesa blogg Vilhjálms. Vilhjálmur réðist heiftarlega að Bobby Fischer eftir að hann lést, af þeirri ástæðu einni að Fischer hafði talað illa um Gyðinga. Fischer var reyndar í ummælum sínum álíka öfgafullur og einstrengislegur og Vilhjálmur. Á yngri árum hafði Fischer þó mörg fleiri áhugamál en Gyðingahatrið, en Vilhjálmur virðist um fátt annað hugsa en Gyðinga og Ísrael.
Athugasemdir
Ótrúlega hallærislegt að slökkva á netútsendingunni. Vona að þetta verði lagað. Góð færsla!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 9.3.2008 kl. 01:01
Þú hefur sannarlega rétt fyrir þér ... þetta er ekki í fyrsta skipti sem netsjónvarpið hjá þeim klikkar á síðustu metrunum. Það er alveg ótrúlegt að þetta sjónvarp sem allir landsmenn eru neyddir til að borga áskrift af skuli ekki veita betri þjónustu en þetta. Og það er ekki eins og þeim hafi ekki verið bent margoft á þetta ... það virðist einfaldlega ekki vera vilji til þess að hafa þetta í lagi.
Skamm, skamm, RÚV!
Skúli Freyr Br., 9.3.2008 kl. 08:13
Ég hef oft lent í þessu með RÚV á netinu því ég hlusta og horfi mikið þar. Til dæmis kom þetta fyrir hvað eftir annað með Útsvar, rétt á lokametrunum. Það hlýtur að vera einfalt mál að kippa þessu í lag.
Góðar sögurnar frá Kína og þetta vissi ég ekki um Hannes og hans fólk. Veistu hvar hann er núna?
Kíkti á bloggsíðu Vilhjálms. Það hef ég aldrei gert og ætla ekki að gera aftur.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.3.2008 kl. 10:18
Nei, ég veit ekki hvað Hannes gerir núna. Það var margt skemmtilegt sem gerðist á Stöð 2 í gamla daga.
Það er sumt áhugavert sem Vilhjálmur skrifar um, en pólitíkin ruglar hann ansi oft í ríminu.
Sæmundur Bjarnason, 9.3.2008 kl. 11:20
ég hef oft farið á síðunna hans Vilhjálms og þegar hann er kominn í rökþrot þá gerir hann í því að lítilækka viðmælandann.. frekar aumur persónuleiki finnst mér.
Óskar Þorkelsson, 9.3.2008 kl. 12:45
Hmm... spurning hvort þetta rugl sé eitthvað sem loðir við nafnið "Vilhjálmur" ha :)
DoctorE 9.3.2008 kl. 13:20
Hannes vinnur á RÚV. En hann hefur ekki sagt mér frá þessu með Kína...
Lana Kolbrún Eddudóttir 9.3.2008 kl. 16:15
"Útsendingarstjórnun" á netinu. Tek undir þetta. Ég stenst ekki reiðari þegar ég kemst ekki að sjónvarpinu til að sjá fréttirnar en ætla að horfa á þær í tölvunni. Þegar veðurfréttirnar byrja skal ávalt slökkt á þeim og þó Veðrið sé eitt af merktum dagskráratriðum í beinni, þá er ómögulegt að sjá það fyrr en eftir dúk og disk. Hef gert nokkrar aths. við þetta og fékk að lokum skýringu sem sagði mér ekkert, en um leið tekið fram að unnið væri að lagfæringu, sem ekki hefur séð dagsins ljós nú nokkrum mánuðum síðar. Vona að Eyjólfur hressist.
Kristinn Kjartansson 9.3.2008 kl. 20:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.