8.3.2008 | 00:46
272. - Um Netútgáfuna
Þetta er erindi sem ég flutti á bókavarðaráðstefnu á Selfossi í fyrra eða hittiðfyrra og birti á blogginu mínu í nokkrum hlutum fyrir mörgun mánuðum:
Þó margir virðist álíta að það sé tiltölulega nýtilkomið að bækur séu gefnar út á Netinu, fer því fjarri að svo sé.
Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með, er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarlega mikið.
Eins og mörgum er kunnugt gefur Gutenberg út bækur, sem ekki er lengur virkur höfundarréttur á, í tölvutæku formi á Netinu og eru þær tiltækar hverjum sem er án endurgjalds. Margir leggja þar hönd á plóg og eru tugir ef ekki hundruð bóka á ensku og ýmsum öðrum tungumálum gefin út í hverjum mánuði.
Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá Bandamannasögu inn á tölvuna sína. Það gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware leikjaforrit og ýmislegt þessháttar.
Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Hafdís Rósa Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.
Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar. (www.snerpa.is/net)
Á árunum 1994 til 1996 var unnið að undirbúningi Netútgáfunnar og var það einkum dóttir mín Hafdís Rósa sem það gerði. Hún átti einnig hugmyndina að nafninu. Upphaflega ætluðum við okkur að koma Netútgáfunni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem var eitt af allra fyrstu Internetfyrirtækjum landsins. En um þetta leyti var skipulagi þess fyrirtækis breytt og ákveðið að það yrði eingöngu fyrir skóla landsins.
12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.
Þegar Netútgáfan hóf starfsemi áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, 5 fornaldarsögur Norðurlanda, ýmis fornkvæði, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og einar 8 þjóðsögur.
Ég man að 16. nóvember (á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar) árið áður en Netútgáfan hóf starfsemi sína var heilmikið húllumhæ og stofnað til svokallaðs dags íslenskrar tungu. Það munaði ekki miklu að við værum tilbúin með að starta Netútgáfunni þá, en það tókst ekki alveg.
Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, gáfum við út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við Hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda íslendingasagna og ýmissa fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi telja.
Það var um haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei neinn annan styrk en þann sem fólginn var í þeim ókeypis aðgangi að Netinu sem Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur og veitir enn.
Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur á óvart að rithöfundar virtust ekki hafa áhuga á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar. Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að löngu útgefnum verkum orðinn harla lítils virði.
Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á eða hefur af einhverjum ástæðum aldrei verið nýttur. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert var mundi það eflaust auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó, eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.
Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemina. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.
Þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga.
Netútgáfan var að mörgu leyti einstakt framtak á sínum tíma og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.
Margt hefur þó gerst í sambandi við bóka- og tímaritaútgáfu á Netinu, en flest er það tengt vísindum og fræðum. Varahlutalistar og allt þess háttar er eiginlega alfarið komið á Netið líka, en bókaútgáfa fyrir almenning hefur alls ekki færst þangað.
Margar tilraunir hafa verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því. Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga.
Einnig er það óneitanlega svo, að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.
Þegar við vorum að hefja starfsemi Netútgáfunnar var það ofarlega í huga margra að bækur og bóklestur væri heldur á undanhaldi. Netið mundi að miklu leyti taka yfir hlutverk bókanna og fólk mundi sækja sínar bækur og tímarit í sívaxandi mæli af Netinu.
Svo hefur þó alls ekki farið, bókin heldur svo sannarlega velli. Oft hefur það verið svo að menn hafa illa séð fyrir hvert tækninýjugar stefna. T.d. álitu sumir símann ekki vera merkilega uppfinningu á sínum tíma.
Ég held að bókin (og blöðin) haldi einkum velli vegna þess að prentað mál hefur beinan og milliliðalausan aðgang að lesendum. Allir aðrir miðlar þurfa að einhverju marki að leita á náðir tækninnar og þar eru sífellt að koma fram nýjungar sem á stundum gera það sem eldra er úrelt.
Bókaútgáfa fer vaxandi hér á Íslandi og þó dýrt sé að prenta bækur fer tækninni í því efni sífellt fram og prentvélarnar verða stöðugt fullkomnari. Nú er svo komið að vélar þurfa ekki annað en tölvuskrá með handriti bókarinnar til að geta búið til bækur.
Þetta er kallað "print on demand" eða "publish on demand" og hefur rutt sér nokkuð til rúms í Bandaríkjunum og víðar undanfarin ár.
Það eru einkum lítil útgáfufyrirtæki sem nýta sér þessa þróun og svo höfundar sem vilja af einhverjum ástæðum gefa út bækur sínar sjálfir, hvort sem það er af einhvers konar metnaði, eða þá að þeir telja sig einfaldlega geta haft meiri tekjur af skrifum sínum með þessu móti.
Kosturinn við þessa aðferð er sá að það er ekkert sem heitir startgjald og bækurnar sem gerðar eru með þessari aðferð kosta jafnmikið í prentun hvort sem prentuð eru tvö eintök eða tvö þúsund, eða jafnvel tvö hundruð þúsund.
Fyrirtæki í Bandaríkjunum bjóða t.d. höfundum að prenta fyrir þá bækur fyrir 500 dollara eða svo. Þá fær höfundurinn svona 50 bækur sjálfur og 30 % af útsöluverði bókarinnar í sinn hlut og allskonar þjónustu og aðstoð frá fyrirtækinu, auk þess sem verkið tekur ekki langan tíma.
Niðurhal á efni af Netinu mun án efa aukast á næstu árum hvað snertir tónlist, sjónvarpsefni og kvikmyndir. Væntanlega ná höfundar slíks efnis og dreifendur samkomulagi um fyrirkomulag sem verður neytendum til hagsbóta. Ég er sannfærður um að þeir sem sækja sér slíkt efni yfir Netið vilja fremur nota löglegt efni en ólöglegt.
Ein ástæða fyrir því að efni eins og kvikmyndir og tónlist á greiða leið að neytendum um Netið er eflaust sú að þar fær fólk efnið á líku formi og það er vant, það er að segja þess verður ekki neytt nema tæknin komi til aðstoðar.
Um bækur gegnir allt öðru máli, þær hafa fylgt manninum um aldir og munu gera lengi enn. Auðvitað er það samt svo að í raun eru bækur samsettar úr textaskrá sem hefur að geyma efni það sem er í bókinni og síðan tækinu til að koma efninu á framfæri sem er bókin sjálf.
Á sama hátt eru kvikmyndir og tónlist bara skrár sem hafa inni að halda upplýsingar um hvernig koma eigi efninu til skila. Af hverju hefur bókin fest sig svona í sessi að henni verður varla hnikað þaðan? Því er erfitt að svara en þó hefur mjög mikið af efni sem er tæknilegs eða vísindalegs eðlis að mestu hætt að koma út á bókum og blöðum en farið í þess stað á Netið.
Kannski munu bækurnar einhvern tíma verða úreltar en örugglega ekki nærri strax. Uppflettibækur og ýmsar handbækur munu þó eflaust eiga erfitt með að keppa við Netið, en bækur til skemmtunar, barnabækur og þær bækur sem kalla má prentgripi, munu eflaust halda gildi sínu enn um sinn.
Athugasemdir
Ég á líka afmæli 16 nóv.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 8.3.2008 kl. 15:41
Netútgáfan er frábær og ég hef mikið notað hana. Man eftir henni fyrst fyrir um 10 árum. Þegar ég var í Leiðsöguskóla Íslands var oft bent á hana og slóðin tiltekin í ýmsum námskeiðum sem síða þar sem afla mátti heimilda.
Ég hef alltaf vonað að starfinu yrði haldið áfram og bætt við efnið, hver svo sem myndi gera það. En er sú ályktun mín rétt að álit þitt á höfundarrétti sé komin frá vinnu við Netútgáfuna? Það myndi skýra ýmislegt og auka skilning minn.
Lára Hanna Einarsdóttir, 9.3.2008 kl. 10:21
Já, Lára Hanna ég kynnti mér höfundarréttarmál talsvert á þeim árum sem útgáfan hjá Netútgáfunni stóð sem hæst. Ég hef líka fylgst með ýmsu af því sem Salvör Gissurardóttir hefur ritað um þau mál og skoðanir mínar fara að mörgu leyti saman við hennar.
Á is.wikisource.org sýnist mér að sé unnið að svipuðum málum og við gerðum á Netútgáfunni en auðvitað með alltöðrum hætti.
Sæmundur Bjarnason, 9.3.2008 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.