261. - DV, lofthræðsla og skordýr

Hvernig skyldi vera best að byrja á þessu bloggi.

Það þarf helst að vera eitthvað krassandi svo það vekji athygli. Mér dettur bara ekkert í hug, svo ég reyni að byrja ekki fyrr en í miðju bloggi hvernig sem það gengur.

Undarlegt er það með DV að þar skuli áhersla lögð á að dagsetningin sé með svo miklu lúsaletri að helst ekki sé hægt að lesa hana. Ég nenni ómögulega að lesa DV á hverjum degi en föstudagsblaðið er þó að minnsta kosti oftast þess virði að fletta því. Einfaldast væri að skoða bara dagsetninguna en það er stjórnendum blaðsins greinilega illa við að gert sé. Beats me why.

Með árunum hefur lofthræðsla mín ágerst. Nú get ég helst ekki litið fram af háum svölum án þess að fá verk í hnén. Áður fyrr man ég eftir að ég átti ekki í neinum vandræðum með að horfa fram af háum stöðum. Eitt sinn fórum við nokkur saman upp í sjónvarpsturn í Rotterdam. Einhvers konar lyfta var í kringum nálina efst og hægt að sitja þar með hnén við glerrúðu og þaðan voru þrjú eða eða fjögur hundruð metrar niður á jörð. Ekki var mjög mikið að gera hjá lyftustjóranum þegar þetta var og þegar við komum niður bauð hann okkur að fara aðra ferð án aukagjalds. Ég hneykslaði víst einhverja af samferðamönnum mínu með því að hafa mikinn áhuga á tilboðinu. Ekki varð úr aukaferðinni.

Mér verður líka sífellt verr og verr við kóngulær og skordýr öll eftir þvi sem tímar líða. Ég segi ekki að ég hafi étið þau í gamla daga en mér fannst mjög lítið mál að taka þau upp með puttunum. Nú get ég varla komið nálægt svona kvikindum nema með því að leggja fyrst bréf yfir þau. Feitar og frekar hunangsflugudrottningar sem mikið er af á vissum tíma á vorin eru alltaf dálítið erfiðar. Þær sækja öðrum kvikindum frekar í húsaskjól og ólmast og láta öllum illum látum undir bréfinu og ekki vil ég fyrir neinn mun meiða greyin því þær eru svo stórar. Lítil dýr eins og kóngulær og þessháttar sem ekkert heyrist í, hika ég hinsvegar ekkert við að kremja í bréfinu og fleygja í klósettið.

Geitungar eru eitt vandamálið enn. Einu sinni henti ég einhverju óvart í ruslatunnuna og þurfti að fara og ná í það aftur. Þegar ég lyfti lokinu á tunnunni var brjálaður geitungur ofan í henni svo ég flýtti mér að skella lokinu á aftur. Síðan var ég nokkra stund að safna kjarki til að kíka ofan í tunnuna á ný, en þar var allt við það sama. Ég gerði síðan nokkrar tilraunir til að komast að því sem var í tunnunni og stóð töluverða stund við hana, en að lokum tókst mér að hrifsa það til mín sem ég ætlaði að ná í án þess að geitungsfjandinn kæmist upp úr.

Ég býð ekki í það hvað fólk sem hugsanlega hefur horft á mig úr nærliggjandi húsum hefur haldið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Fjallar þetta ekki bara um kunnáttu. Eftir því sem maður verður eldri gerir maður sér meira grein fyrir afleiðingunum. +

Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.2.2008 kl. 09:58

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég hugsa að það megi lesa ýmislegt í skordýrafóbíur fólks. Þetta með að passa að drepa ekki býflugurnar en kremja kóngulærnar er ef til vill einkennilegt.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2008 kl. 15:24

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég varð lofthrædd 24 ára, þegar sonur minn fæddist og ég hef alltaf tengt lofthræðsluna við þann atburð. Svo reiknaði ég með að þegar afkvæmið væri orðið fullorðið og sjáfbjarga myndi þessi fjári rjátlast af mér. Það er öðru nær!

Ég hefði gjarnan viljað sjá þig við ruslatunnuna... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 26.2.2008 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband