244. - Æ, ég veit ekki hvaða fyrirsögn ég á að setja á þetta

Lauk áðan við að lesa bókina „Skipið" eftir Stefán Mána.

Hún er nokkuð spennandi, byrjar ansi bratt, en undir lokin er eins og höfundurinn sé orðinn leiður á henni og drífí sig í að láta hana enda. Eftir því sem nær dregur lokum bókarinnar verður atburðarásin ósennilegri og ýktari og undir lokin er manni eiginlega orðið alveg sama um hvernig þetta fer allt saman. Lengi vel er atburðarásin þó spennandi og raunveruleg. Bókin er líka óneitanlega vel skrifuð.

Sigurður Þór Guðjónsson bloggar nú sem aldrei fyrr. Hann er einn af mínum uppáhaldsbloggurum hvort sem hann bloggar mikið eða lítið. Ég hef þó lítinn áhuga á veðurpælingum hans og tónlistarskrifin heilla mig ekki heldur. Þetta með tónlistarskrifin stafar ugglaust eingöngu af því að ég er með öllu hæfileikalaus sjálfur á því sviði. Með dálitlum ýkjum má eiginlega segja að mér finnist öll tónlist bara vera hávaði.

Það er alveg óþarfi að vera að strekkja við að hafa hverja færslu af ákveðinni lengd. Oftast reyni ég þó að hafa hverja færslu svona eina Word-blaðsíðu eða svo, en auðvitað er það engin nauðsyn. Þær mega vel vera styttri. Hins vegar nenni ég ekki að blogga oft á dag eins og sumir gera. Þá finnst mér betra að vaða úr einu í annað í sama blogginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta var bara ágæt fyrirsögn en færslan í styttra lagi. En það er fínt að þú vaðir úr einu í annað, það gerir bloggið þitt fjölbreytt og mjög skemmtilegt aflestrar og öðruvísi en hjá flestum.

Nú er illt í efni - Sigurður að spá í að hætta að blogga út af auglýsingunni á bloggsíðunum. Það líst mér illa á þó að ég taki undir pirring allra vegna þessarar auglýsingar. En ég er búin að blokka hana hjá mér svo ég þarf ekki að sjá hana.

Lára Hanna Einarsdóttir, 9.2.2008 kl. 16:10

2 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Samkvæmt blog.is eru auglýsingarnar ekki inni á bloggsíðunum, heldur við hliðina á þeim. Þess vegna getur hver og einn blokkað þær út hjá sér. Að öðru leyti sé ég nú ekki að allur munur sé á hvort þær eru á síðunum eða til hliðar.            

Hallmundur Kristinsson, 9.2.2008 kl. 20:50

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú kannt ekki gott að meta Sæmundur með veðrið. En músik er bara bölvaður hávaði! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.2.2008 kl. 00:36

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Sigurður ég kann alveg að meta gott veður og mér finnst alls ekki vitlausara að pæla í statistik um veðrið en annarri statistik.

Eins og þér þá hundleiðist mér snjór og af sömu ástæðum. Hinsvegar man ég vel hvað það var gaman að ærslast í snjónum í gamla daga. Undarlegt að manni skyldi aldrei verða kalt.

Sæmundur Bjarnason, 10.2.2008 kl. 02:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband