242. - Marklitlir spádómar á útvarpi Sögu, Bjarni á Bóli og fleira

Hlustaði í gær á brot úr þætti á útvarpi Sögu. Þar var einhver kvenmaður að spá í spil. Hún lagði einhver spil á borð skildist mér (fyrir) þá sem hringdu inn og skellti sér svo í það sem á ensku er kallað "cold reading" og þóttist sjá allan fjandann fyrir, en brást í raun bara við því sem innhringjandi sagði og hvernig hann sagði það. Ég held að þessi þáttur sé reglulega á þessari stöð og mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig fólk getur tekið svona lagað alvarlega. Þetta er jafnvel vitlausara en stjörnuspeki og er þá langt til jafnað.

Svo var það maðurinn sem alltaf tók með sér handsprengju þegar hann fór í flugvél. Einhver spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann gerði það. "Jú, sjáðu til. Samkvæmt skýrslum er það næstum óhugsandi að tveir menn með handsprengjur fari um borð í sömu flugvélina."

Bjarni á Bóli var pabbi Eiríks á hótelinu. Hann var með dálítinn búskap í húsi skammt frá hótelinu. Beljurnar hans voru reknar niður í móa hjá réttunum á hverjum morgni og heim aftur á kvöldin. Okkur krökkunum þótti talsvert sport að taka þátt í þeim rekstri. Ein íþrótt sem við stunduðum var að þegar belja lyfti upp halanum og ætlaði greinilega að fara að skíta, þá var hendin sett undir rassgatið á henni og svo þegar skíturinn kom þá var íþróttin sú að kippa hendinni undan drellinum rétt áður en hann skall á henni. Stundum tókst það ekki og íþróttamaðurinn varð aðeins of seinn. Það var ekki mjög geðslegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband