237. - Sjón, framboðsmál, Laugavegskofar og Pirate Bay

Þegar krakkarnir mínir voru á fyrsta ári tók ég eftir því að á tímabili sem stóð í nokkra daga voru þau mjög gjörn á að halla undir flatt.

Á þessum tíma hafði ég einmitt nýlega lesið að augað virkaði að ýmsu leyti eins og myndavél og kastaði mynd af því sem fyrir framan það væri öfugri á eitthvað sem tengdist heilanum. Ég þóttist reikna það út að einmitt þegar krakkarnir hölluðu sem mest undir flatt þá væri heilinn að æfa sig í að snúa myndinni við.

Kannski var þetta rétt hjá mér og kannski ekki. Sjónin hefur líka ótrúlega mikið með jafnvægirsskynið að gera. Einkum vex hlutverk hennar að þessu leyti þegar fólk eldist. Ætli ég hafi ekki verið orðinn rúmlega fimmtugur þegar ég las einhvers staðar að það væri merki um að fólk væri farið að eldast, ef það gæti ekki staðið á einum fæti með lokuð augun.

Ég mátti náttúrulega til með að prófa þetta og komst að því að það er ótrúlega erfitt að halda jafnvæginu við þessar aðstæður.

Mér dettur alltaf í hug vélbyssa þegar ég heyri í Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Kannski eru það meðmæli með henni. Hún hefur að minnsta kosti kraftinn og ákveðnina fram yfir Gísla Martein sem ef til vill er ekki annað en brosmildur glókollur.

Ég er þegar farinn að velta fyrir mér framboðslista Sjálfstæðisflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum. Líklega ætlar Hanna Birna sér efsta sætið. Auðveldast verður fyrir hana að losna við Villa gamla úr slagnum. Gísli Marteinn og Kjartan Magnússon gætu orðið ögn erfiðari, en varla mikil fyrirstaða samt. Aðrir koma varla til greina.

Sagt var frá því í fréttum í kvöld, og Ólafur borgarsjóri borinn fyrir þeirri speki, að kaupin á Laugavegskofunum hafi verið borginni mjög hagstæð vegna þess að eigendur kofanna hafi viljað fá mun meira fyrir þá í fyrstu en að lokum samdist um. Ekki held ég að Ólafur sé svo þunnur að hafa sett þetta svona fram. Líklegra þykir mér að fjölmiðlamönnum þyki sæma að afflytja hans mál sem mest. Það breytir þó ekki því að mér finnst alltof mikið hafa verið greitt fyrir þessi kofaræksni og vel geti verið að með þessu sé gefið fordæmi sem verði afar dýrt á endanum.

Þeir Pirate Bay menn í Svíþjóð hafa nú verið kærðir fyrir ólöglega dreifingu á höfundarréttarvörðu efni. Fróðlegt verður að vita hvað kemur útúr því máli. Höfundarréttarmál sem tengjast Netinu eru alltaf forvitnileg. Eigendur hugverka eru þó sífellt að vitkast og selja efni sitt nú á mun sanngjarnara verði en áður var. Betur má þó ef duga skal og á endanum verður þetta líklega þannig að höfundarréttargreiðslur verða ekki hærri en svo á Netinu að öllum finnist þær sanngjarnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég heyrði þetta með að loka augunum og standa á öðrum fæti fyrir ekki svo ýkja löngu síðan... eitthvað finnst mér að komið hafi við sögu að prófa þetta í sturtu, en það gæti verið misminni. Ég hef ekki prófað þetta ennþá en trúi vel að þetta sé erfitt.

Hlustaðu á þetta hér. Þarna segir Ólafur sjálfur að verðið hafið verið verulega lægra en eigendur hefðu viljað fá.

Ertu búinn að kíkja á síðuna hjá Villa Ásgeirs? Hann var að gera sniðuga tilraun með að bjóða stuttmyndina sína á Netinu. Ef þú ferð nokkrar færslur aftur í tímann og byrjar þar að lesa geturðu fylgst með ferlinu. Ég er búin að hlaða myndinni niður og millifæra greiðslu á reikninginn hans. Hef ekki haft tækifæri til að horfa á myndina ennþá, en það kemur að því.

Var að hætta að vinna, góða nótt... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 1.2.2008 kl. 02:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband