234. - 123.is, vísur, lappar og geðveiki

Áslaug bloggar þessa dagana eins og henni væri borgað fyrir það á 123.is/asben og birtir meira að segja skoðanakönnun þar um það hver verði næsti borgarstjóri. Auðvitað má búast við því að hann birtist okkur fyrr en varir. Mest bloggar hún um stjórnmálaástandið enda er það skrautlegt um þessar mundir. Hún hefur líka sitt alter ego, þar sem er páfagaukuinn Papparass og hún er lík Agli Helgasyni að því leyti að hún segist aldrei blogga. Mest er umfjöllunin í formi vísna sem vesalings páfagauknum er kennt  um að hafa gert.

Hún er nú búin að nota sér træal períóðuna á Corel draw-inu og getur ekki teiknað meira í bili. Þess vegna hefur hún snúið sér að vísnagerð og þvíumlíku.

Hún bloggar í bundnu máli

á bak við sinn Papparass.

Því hann er úr stinnu stáli

og styrkist við sérhvert smass.

Lappi einn eða Laptop tölva kom hingað á heimilið fyrir meira en viku. Ég fékk hann að láni hjá dóttur minni. En af því að hann vildi ekki þýðast  þráðlausa kerfið okkar og þar með tengjast Internetinu var hann ósköp lítið notaður. Ástæðan skilst mér að hafi verið sú að hann var stilltur á fasta IP-tölu. Núna um helgina var þessu kippt í lag og við það gerði ég mér ljósara en áður að í raun er tölva svotil gagnslaus ef hún getur ekki tengst Internetinu.

Mér finnst heldur önugt að nota kropp-músina á lappanum í samanburði við venjulegar mýs, en eflaust má venjast því með tímanum. Auðvitað er gott að vera laus við allt snúruvesen og geta farið hvert sem er með tölvuna.

Hlustaði á Ólaf F. Magnússon í gær í Mannamálinu hjá Simma. Mér finnst hann nokkuð sannfærandi í málflutningi sínum, en þó held ég að hann geri mörgum óleik með augljósum fordómum varðandi veikindi sín.

Nær væri fyrir hann að tala hreint út um þau, en vera að þessum feluleik.

Ég man vel hve vinsæl kvikmyndin Gaukshreiðrið var á sínum tíma. Ég hélt því reyndar alltaf fram að sú mynd væri fyrst og fremst gamanmynd, en af því að gert væri grín að geðsjúklingum mætti ekki nefna það.

Þessi mynd var sannarlega barn síns tíma og mér finnst Ólafur F. Magnússon vera fastur í þeim tíma með því að neita að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og tala sífellt grátandi um ofsóknir og einelti. Já, mér fannst Spaugstofuþátturinn alls ekkert verri en aðrir slíkir, jafnvel betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Æ hvað ég er eitthvað sammála þér núna, Sæmi.

Annars er ekkert mál að labba um með tölvu með mús og músarmottu. Það geri ég alltaf því ég get bara alls ekki vanið mig á það sem þú kallar kropp-mús. Ég er allt of gjörn á ósjálfráðar hreyfingar fingranna til að geta höndlað þetta.

Gaukshreiðrið var vissulega gamanmynd - með grafalvarlegum undirtón. Klassík.

Lára Hanna Einarsdóttir, 29.1.2008 kl. 00:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég blogga ekki neitt!  En ef mér væri borgað fyrir það er aldrei að vita nema ég myndi bulla eitthvað. 

Sæmundur Bjarnason, 29.1.2008 kl. 07:24

3 identicon

Ég endurtek, og nú undir réttu nafni.  Ég blogga ekki neitt, nema

ég fái borgað fyrir það.  En fyrst ég er nú byrjuð á athugasemdunum, þá ætla ég að láta mína skoðun á Ólafi F.Magnússyni borgarstjóra Reykjavíkur flakka hér:

Ég hélt að hann væri hugsjónamaður sem vildi láta gott af sér leiða með veru sinni í pólitík. Mér finnst það ekki lengur. Hann er" kafbátur."Þú veist aldrei hvar hann kemur úr kafi næst.  Hann ætti endilega að ganga aftur í Sjálfstæðisflokkinn, þar á hann heima. Hann segist ætla að sanna sig með verkum sínum sem borgarstjóri.  Þá þarf hann að hafa hraðann á, því hann verður ekki lengi í því embætti.  Það er ég sannfærð um.  Stólinn er eftirsóttur.  Það er verst hvað hann er dýr.

asben 29.1.2008 kl. 08:40

4 identicon

Hahaha  Þú ert góð í því að villa á þér heimildum og blogga ekki nema í nafni annarra. Busted!

Hafdís Rósa 29.1.2008 kl. 21:59

5 identicon

Já ég skammast min fyrir þetta. Ég var ekki alveg að átta mig á því ég er með hálfgerða leynisíðu,og fel mig eins og aumingi á bak við páfagauk úr pappa.

En því verður ekki breytt úr þessu að ég hef persónugert þennan páfagauk,hann er kominn til að vera.  Þetta er bara svona!

asben 29.1.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband