228. - Um Evrópusambandið og inngöngu í það - Fischer

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur í Kaupmannahöfn heldur úti bloggsíðu hér á Moggablogginu sem hann kallar „PostDoc Kaupmannahafnarpóstur."

Eftir að Bobby Fischer lést um daginn hefur hann hvað eftir annað bloggað um hann með ýmsum rangfærslum og útúrsnúningum.

Í dag birti hann mynd af leiði Fischers með árásum sínum á hann í pistli sem hann kallar: „Spurningar til Flóabandalagsins"

Ég leyfði mér að setja eftirfarandi komment við þá grein:

Skelfing ertu upptekinn af Fischer. Manni dettur ósjálfrátt í hug hvort önnur skrif þín séu jafn vitleg.

Þessu svaraði Vilhjálmur síðar í dag (í gær) með illindum einum og einnig öðrum athugasemdum. Áhugavert er að hann er ekki í neinum vafa um hvernig beri að skilja orð mín og bendir það til þess að hann viti vel af hvaða hvötum hann skrifar um Fischer eins og hann gerir.

Það er ekki rétt að ég sé að túlka það sem Vilhjálmur skrifar og bendi ég því þeim, sem ef til vill hafa áhuga á þessu málefni, á að skoða blogg hans og kynna sér þetta.

Árið 1972 fór ég í fyrsta sinn á æfinni til útlanda. Við fórum með Gullfossi til Írlands, Hollands, Þýskalands, Danmerkur og Færeyja. Í Danmörku var þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í Evrópusambandið dagana sem við dvöldum í Kaupmannahöfn.

Um svipað leyti og Danir létu verða að þessu gengu Englendingar og Írar einnig í Evrópusambandið. Málefni þess voru talsvert ofarlega í umræðunni um þetta leyti. Allar götur síðan þetta var hef ég verið þeirrar skoðunar að ekki væri nema tímaspursmál hvenær Íslendingar gengju í Evrópusambandið. Ég hefði þó ekki getað búist við að þeim tækist svo lengi að standa utan þess sem raun hefur á orðið.

Bæði er það vegna þess að þróun Evrópusambandsins hefur orðið með talsvert öðrum hætti en flestir bjuggust við og Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa óttast mjög þjóðernislegan metnað margra Íslendinga. Grýlan um sjávarútveginn hefur líka reynst andstæðingum aðildar mjög vel. Einkum vegna þess að sjávarútvegsstefna bandalagsins hefur verið í miklu skötulíki. Það stafar einkum af því að sjávarútvegur er í heildina ekki mjög mikilvægur fyrir bandalagið og hefur oftast verið látinn fylgja landbúnaðinum og útúr því hafa stundum komið skondnir hlutir.

Ég er enn þeirrar skoðunar að Ísland muni á endanum ganga í Evrópusambandið. Rétta tækifærið var strax eftir að Norðmenn ákváðu að gera það ekki að sinni. Þá hefði verið hægt að ná hagstæðum samningum að mörgu leyti.

Núna er það ekki eins hagstætt og tekur áreiðanlega talsverðan tíma. Kostirnir við inngöngu eru margir en þó er sú ástæða mikilvægust að það er í raun söguleg nauðsyn fyrir okkur að ganga í bandalagið. Visst hagræði getur einnig verið af því að standa utan við það eins lengi og mögulegt er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæmundur minn, og bloggvinur, best er fyrir lesendur þína að skoða það sem ég hef skrifað um Bobba. Segðu mér svo hvaða rangfærslur ég fer með. Myndin af leiði Fischers birtist á vefsíðu Morgunblaðsins. Ekki hef ég tekið hana. Mér var ekki boðið í útförina. Ég svaraði athugasemd þinni á þennan hátt

"Sæmundur, ef þér líkar ekki skrif mín, vertu þá ekkert að lesa þau, en eitthvað rámar mig í að einhver Sæmundur Bjarnason hafi óskað eftir að verða bloggvinur minn. Þá er bara að fjarlægja mig ef þér líkar ekki párið og passa þig að álpast ekki inn til mín aftur."

Svo getur fólk dæmt um hve mikið fól ég er:

http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/417833/

http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/419457/

http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/421228/

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.1.2008 kl. 13:46

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Vilhjálmur!

Ég veit að við erum ósammála um margt. Samt hef ég oft mjög gaman af að lesa þín skrif. Ég var talsverður aðdáandi Fischers og fyrirgaf honum gjarnan undarlegar skoðanir um ýmsa hluti. Ég held að hann hafi alveg gert ráð fyrir að margir hefðu sitthvað að athuga við þær og margir gerðu það.

Mér finnst óviðeigandi að vera að elta ólar við ýmislegt sem hann hefur sagt í gegnum tíðina fyrstu dagana eftir að hann deyr. Það er einkum það sem ég hef við þín skrif að athuga. Myndbirting þín fannst mér einnig óviðeigandi í því samhengi sem hún var.

Bloggvinskapnum vil ég að við höldum áfram og því fer fjarri að mér finnist að ég þurfi að vera sammála öllu sem bloggvinir mínir skrifa.

Sæmundur Bjarnason, 23.1.2008 kl. 15:19

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Leiðinlegt hvað sumir geta verið viðkvæmir fyrir ólíkum skoðunum. Ekki hvarflar að mér að fyrtast við þig þótt þú sért ósammála mér. En svo ertu líka stundum sammála sem er líka bara fínt.

Ég hef stöku sinnum álpast inn á síðu Vilhjálms en hef ekki haft gaman af skrifum hans svona á heildina litið, þótt stöku sinnum hafi ég greint eitthvað gott, og er þar ekki sammála þér.

Fischer var óumdeilanlega skáksnillingur og hann ber að virða fyrir það. Aðrir þættir í persónu hans sem sneru út á við finnst mér ekki að mér komi við og aldrei hefur mér dottið í hug að dæma hann fyrir þá. Garðar Sverrisson er mér að svo góðu kunnur og það, að tekist hafi mikil vinátta með honum og Fischer nægir til að sannfæra mig um að Fischer hafi verið góð manneskja.

Lára Hanna Einarsdóttir, 23.1.2008 kl. 15:50

4 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég er afar viðkvæmur fyrir skoðunum, og þykir vænt um að þú, Sæmundur, sért áfram bloggvinur minn. Menn verða seint sammála, og það er í lagi ef menn fara ekki að berja hvern annan. En orðabarningur hefur aldrei skaðað hetjur. Nú ef maður fær nóg af hreinum dónaskap, eins og ég hef vissulega uppskorið með ögrandi færslum, þá getur maður alltaf lokað á dónana.

Svo langar mig að segja frá því að ég reyndi mikið að ná tali af Fischer árið 1972 og fór oft niður að Laugardalshöll til að sjá hann. Hins vegar var ég svo heppinn að Spassky og Dr. Euwe stilltu sér upp með mér og föður mínum til myndatöku við hótel Sögu. Einhvers staðar á ég þá mynd. Spassky var minn maður árið 1972.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 23.1.2008 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband