223. - Hugleiðingar um bloggskrif og fleira

Enn er ég að hugsa um ættarmót Gvendarkotsættarinnar.

Ég heyrði minnst á að gaman væri að eiga á einum stað á Netinu samantekt um öll ættarmót sem þessi fræga ætt hefur staðið fyrir. Jafnvel mætti hugsa sér að fleiri gætu átt þar innhlaup. Mér finnst þetta prýðileg hugmynd. Þarna gætu líka verið myndir og ýmislegt annað, sem ættinni tengist. Varpa þessu bara svona fram. Þetta mætti ræða á ættarmótinu í sumar.

Alveg er ég að verða óstöðvandi í vaðlinum. Ekki er ég fyrr búinn að setja síðustu bloggfærslu á sinn stað en ég er byrjaður á þeirri næstu. Svona á það að vera. Ekkert að stoppa. Halda bara áfram fram í rauðan dauðann. Það er ágætt að leggja einhver drög að næstu færslu strax og sú síðasta er farin á vit feðra sinna. Úps, þetta var nú heldur hátíðlegt hjá mér. Jæja, kannski áar hennar séu á Moggablogginu. Og kannski þurrka ég þetta allt út. Kannski, kannski.

Svo líður og bíður. Tunglið gengur undir. Sólin kemur upp. Nennir samt ekki að vera á lofti nema stutta stund. Kvöldsett verður, ekki snjóar mjög mikið, kalt þó. Og nú er nýtt kvöld hafið og ég bíð þess að klukkan verði tólf á miðnætti svo ég geti klárað þessi skrif og skellt þeim á bloggsetrið.

Allt hefur sinn tíma. Líka bloggskrif. Best gengur mér að festa orð á blað þegar allt er á fullu. Fréttir í sjónvarpinu. Nóg að lesa. Bók sem bíður. Allt á ferð og flugi. Svo þegar um hægist þá er ég gjarnan orðinn þreyttur og syfjaður.

Þetta með að skrifa er einskonar árátta. Það er bæði hvíld og áskorun. Hvíld frá amstri dagsins og ávallt áskorun um að gera aðeins betur. Þegar maður verður orðinn ánægður með það sem maður skrifar er áreiðanlega stutt í endalokin.

Ef lesendur mínir væru fjölmargir gæti það orðið óbærileg pressa. Pressa um að gera sífellt betur en ég raunverulega get. Frá því sjónarmiði séð er ég ánægður með að ekki skuli fleiri lesa þessi skrif mín en þó er. Eiginlega get ég leyft mér allan fjárann. Þessi hópur sem ég þarf að geðjast með skrifum mínum er hvort eð er svo lítill. Og þó í honum fækkaði þá yrðu samt alltaf einhverjir eftir, held ég.

Sagt er að Lilli klifurmús hafi farið fram á húsleit hjá hæstarétti. Úrskurði um það verður líklega áfrýjað, en óvíst er hvert. Fíknó er í starholunum með að krefjast húsleitar hjá forsætisráðherra í tilefni af skipun Þorsteins. Ekki er ljóst hversvegna.

Hvað er það sem hoppar og skoppar um Heljarbrú, með mannabein í maganum og gettu nú? Þetta þótti ágæt gáta í eina tíð, en eins og allir sjá er þarna um skip að ræða. Finna má því stað í goðafræði að brúin til Heljar sé hafið og hitt er svosem augljóst. Gátur af þessu tagi þóttu ágæt dægrastytting hér áður fyrr, en nú þykir svonalagað ekki merkilegt. Ýmislegt af þessu tagi geri ég ráð fyrir að ég gæti rifjað upp, en hvort það er einhvers virði er annað mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

I'm your biggest fan... Ég les allar færslur þínar. Ég efast um að það minki eitthvað af heimsóknum hérna.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.1.2008 kl. 09:08

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ef ég væri ekki sannfærð um að Gunnar Helgi sé mikill kraftakarl myndi ég skora á hann í sjómann til að hnekkja fyrstu setningunni hjá honum. En sá vægir sem vitið hefur meira   (eða aumari vöðva bætti ég nú oft við í den) og læt mér lynda varaformannsstaðan í aðdáendaklúbbnum.

Svona er maður nú skynsamur stundum.

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 21:47

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

En finnst þér nýja myndin af honum ekki flott?

Sæmundur Bjarnason, 18.1.2008 kl. 23:01

4 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

hahahahaha hvað ertu að segja Sæmundur? Finnst þér ég ekki vera flottur?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.1.2008 kl. 23:10

5 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

... Lára: Við breytum bara fyrstu orðunum í We are...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 18.1.2008 kl. 23:11

6 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Jú, mér finnst nú skemmtilegra að hafa hann "live", ef svo má að orði komast. Mig var farið að gruna að hin myndin væri kannski helst til gömul til að mark væri á henni takandi. Gunnar Helgi var fallegt barn sem varð greinilega myndarmaður. Enda frændi þinn.

Samþykkt, Gunnar Helgi! Og ...s á eftir fan. Þá er það afgreitt. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 18.1.2008 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband