8.11.2007 | 01:05
167. blogg
Hann á nú eftir að tefla tvær skákir og hefur aðeins misst niður hálfan vinning. Sá sem næstur honum kemur hefur tapað niður einum og hálfum vinningi. Þeir tefla saman í síðstu umferð, sem verður væntanlega tefld næstkomandi sunnudag í The Government house.(sjá mynd) Mér skilst að þar búi ríkisstjórinn og þetta séu einskonar Bessastaðir þeirra Bahamabúa. Svo gæti farið að Ken Gibson, andstæðingur hans þá, verði að vinna hann til að komast upp að hliðinni á honum í vinningum talið.
Annars vonast ég til að Bjarni bloggi eitthvað um þetta sjálfur á næstunni. Kannski verður það nokkuð sögulegt ef hann vinnur og verður Skákmeistari Bahamaeyja, því ekki er algengt að Íslendingar vinni meistaramót í einstaklingsgreinum í öðrum löndum.
Dóttir Bergþóru Árnadóttur kommentaði á bloggið mitt útaf myndunum sem ég setti þar af Bergþóru. Birgitta Jónsdóttir (Bergþórudóttir) heitir hún og bloggar sjálf heilmikið. Ég hef séð þetta blogg en sjaldan lesið það. Kannski verður breyting þar á. Mig minnir að hún fáist við einhverja listsköpun og sé framarlega í hópi þeirra sem mótmæltu á sínum tíma Kárahnjúkavirkjun og mótmæla enn stjóriðjustefnunni svokölluðu.
Subaruinn hefur verið með hálfgerð leiðindi undanfarna daga. Hitar sig öðru hvoru og sýpur vatn. Líklega lekur hann vatni en ég held ekki að það sé alvarlegt, en mun eflaust láta athuga það betur í næstu viku.
Áslaug er ekkert búin að setja af nýjum myndum á setrið sitt. (sjá hér til hliðar) Hún hefur mestan áhuga á að setja þar myndir af listaverkum sínum, bæði málverkum, glerverkum og leir. Bjarni tók á sínum tíma heilmargar myndir af slíku, en ég veit ekki hvar þær eru. Þyrfti að spyrja Bjarna um það.
Skrítið að berjast fyrir því að áfengi og bjór verði selt í matvöruverslunum. Mér finnst Sigurður Kári æsa sig í stuð þegar talað er um þetta. Hvers vegna í ósköpunum reynir maðurinn ekki að beina kröftum sínum í aðrar áttir. Kröftum sem greinilega eru talsverðir. Margt og mikið hefur verið ritað og rætt um þetta mál, en mér finnst einn vinkill þess ekki hafa hlotið mikla umfjöllun.
Ef Sigurður Kári og hans meðreiðarsveinar gera þetta allt í nafni frelsisins sjálfs, hvers vegna í ósköpunum setja þeir markið við eitthvert tiltekið styrkleikamagn? Af hverju ekki að leyfa öllum að selja allskyns áfengi? Væri það ekki mesta frelsið? Nei, tilgangurinn með þessu er augljóslega að ryðja auðvaldinu brautina. Þetta hefur ekkert með frelsi að gera. Bara að koma höggi á einkasölu ríkisins á þessum fíkniefnum.
Eflaust telja þeir vínvinir það betur til fylgis fallið að tala bara um léttvín og bjór í þetta skipti, en eftir að ÁTVR verður farið á hausinn munu matvöruverslanir áreiðanlega bjóðast til að sjá um sölu sterkra drykkja líka. Jafnvel verður frelsið með tímanum svo mikið að sérstakar vínbúðir í einkaeigu munu spretta upp í þéttbýlinu. Landsbyggðin má fara í rassgat.
Talsvert hefur verið rætt um mannréttindamál og tjáningarfrelsi á Netinu og annars staðar. Núna síðast hefur vefsíðan skapari.com verið mikið á milli tannanna á fólki. Efnið á þessari síðu er svo sannarlega þrungið kynþáttahatri og fordómum. En það er þess virði að horfa framan í óvininn og læra að þekkja hann.
Það er auðvelt að vera stuðningsmaður mannréttinda og tjáningarfrelsis þegar um er að ræða góða og fallega fólkið. Þegar komið er að þeim sem maður hefur andstyggð á, þá vandast málið. Ég reyni samt ávallt að láta menn njóta vafans jafnvel þó mér sé illa við þá. Þar reyni ég að taka mér Salvöru Gissurardóttur til fyrirmyndar, en hún bloggar oft um þessi mál af skynsamlegu viti finnst mér.
Hér koma svo í lokin nokkrar gamlar myndir. Á þessari erum við bræðurnir ég og Vignir. Vissulega er skelfing að sjá útganginn á okkur, en ég gæti best trúað að svona höfum við verið til fara dagsdaglega. Á öðrum myndum hafi verið reynt að færa okkur í eitthvað í áttina að spariklæðnaði.
Á þessari mynd eru menn ólíkt reffilegri enda tekin allnokkru seinna. Hér er það Vignir sem stendur lengst til vinstri, þá kemur Ásgeir Jónsson og síðan Siggi bróðir hans. Sigga virðist nú hálfleiðast þetta tilstand en Ásgeir er eins og hann hafi gleypt herðatré. Myndin er líklega tekin fyrir utan bílskúr Jóns Guðmundssonar pabba þeirra Ásgeirs og Sigga. Ég held reyndar að hann hafi aldrei átt bíl.
Þetta er myndin þar sem Áslaug hangir í trénu. Nú, jæja eða kannski er hún að klifra. Ég efast um að svona myndarlegt tré hafi fyrirfundist í Hveragerði á þessum tíma svo vel gæti verið að þessi mynd sé tekin einhvers staðar allt annars staðar. T.d. í Vaglaskógi. Nei, bara svona hugmynd.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.