165. blogg

Nú er ég orðinn svo forfallinn bloggisti að mér finnst dagurinn hálfónýtur ef ég blogga ekki neitt.

Öðru hvoru poppa upp í huga mér orð eða vísuhelmingar sem láta mig ekki í friði. Koma alltaf aftur og aftur og mér finnst að ég ráði litlu um hvað þetta er. Núna hljóma til dæmis sífellt fyrir eyrum mér vísuorðin: "Kögur og Horn og Heljarvík, huga minn seiða löngum."

Ég er nokkuð viss um að þetta er úr kvæðinu Áföngum eftir Jón Helgason. Heljarvík er sennilega það sama og Hælavík.

Hér er mynd sem sýnir Kögrið. Húsið hægra megin á myndinni er skálinn sem við gistum í þegar við vorum í Fljótavík í sumar. Mér tókst ekki að klífa Kögrið þegar tilraun var gerð til þess eitt kvöldið.

 

 

 

 

 

 

 

 

Í gærkvöldi (sunnudag) tók ég mig til og horfði bæði á Kiljuna frá því á miðvikudaginn, viðtal Evu Maríu við Guðlaugu Þorsteinsdóttur og þar að auki Silfur Egils.

Silfrið fannst mér síst af þessu. Þar er bara þetta venjulega stjórnmálaþras. Þessir menn sem í því standa eru eflaust sannfærðir sjálfir um að þau mál séu mikilvægari en önnur, en mér finnst alls ekki svo vera. Margt af þessu er endemis þras sem engu máli skiptir.

Ágúst Borgþór Sverrisson var í Kiljunni og stóð sig ágætlega. Verið er að gefa út skáldsögu eftir hann. Ég held að það sé hans fyrsta skáldsaga. Hingað til hafa einkum komið smásögur frá honum.

Hann vann um tíma uppi á Stöð 2 þegar ég var þar og ég kynntist honum svolítið. Þegar hann fór svo að blogga fyrir allmörgum árum þá var hann lengi einn af mínum uppáhaldsbloggurum. Ég veit ekki hversvegna ég hætti að mestu að lesa bloggið hans, en líklega er það Moggablogginu að kenna. Nú er ég að hugsa um að fara aftur að lesa bloggið hans. Hann er ágætur bloggari þó hann skrifi um þessar mundir á Vísisblogginu en ekki hjá Mogganum.

Bjössi bróðir sendi mér allmargar gamlar myndir um daginn og vel getur verið að ég setji eitthvað af þeim hér á bloggið, til þess hef ég leyfi hans.

Hér er t.d. mynd sem er greinilega tekin eftir að búið er að byggja nýja húsið við Hveramörkina. Krakkarnir þeirra Árna og Öllu Möggu hafa þarna verið í heimsókn hjá okkur. Á þessari mynd eru eftir því sem ég best fæ séð, talið frá vinstri: Björgvin, Margrét Árnadóttir (kölluð Gréta) Eysteinn (Denni) Gunnarsson (held ég) Bergþóra Árnadóttir (frægur vísnasöngvari seinna meir) Vignir og Jón Sverrir bróðir þeirra Margrétar og Bergþóru.

 

 

Og hér er svo ansi krúttleg mynd af þeim Bjögga og Bergþóru.

 

 

 

 

 

 

 

Áslaug pantaði aðgang að 123.is í dag og prófaði meira að segja að setja inn nokkrar myndir. Hún fær að hafa þetta ókeypis í 30 daga en svo þarf hún að borga 3000 krónur á ári að mig minnir. Urlið er 123.is/asben og svo er rétt að minna á að hjá Bjössa er það 123.is/blafell og hjá Bjarna 123.is/lampshadow. Búinn að linka á síðuna hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta gæti alveg verið faðir minn (Denni)
rábært! Gaman að sjá gamlar myndir

Gunnar Helgi Eysteinsson, 6.11.2007 kl. 17:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér varð einmitt hugsað til þín þegar ég setti þessa mynd inn. Mér sýnist þetta vera Denni en systkini mín vita þetta hugsanlega betur. Ég læt þig vita ef eitthvað annað kemur í ljós.

Sæmundur Bjarnason, 6.11.2007 kl. 18:26

3 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

En sæt mynd af mömmu aka Bergþóru... er að setja saman lífsbók hennar... fæ kannski þessa mynd í bókina...

 Rosalega gaman að rekast á þessar myndir svona í morgunsárið...

Með björtum kveðjum

Birigtta Bergþórudóttir 

Birgitta Jónsdóttir, 7.11.2007 kl. 08:50

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Birgitta, það er alveg sjálfsagt af minni hálfu að þú notir þessar myndir. Ég fékk þær hjá Bjössa bróður mínum og í því sem hann sendi mér voru bara tvær myndir af Bergþóru.

Þú gætir haft samband við Bjössa (123.is/blafell) og spurt hann hvort hann viti um fleiri myndir.

Sæmundur Bjarnason, 7.11.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband