158. blogg

Nú er því takmarki að verða náð að blogga eitthvað á hverjum degi í heilan mánuð.

Heimskulegt takmark svosem, ekki neita ég því. Ég get samt vel skilið að þeir sem eru búnir að bæta mér á bloggrúntinn hjá sér á annað borð, vilji gjarnan að ég skrifi sem oftast. Það mundi ég vilja í þeirra sporum.

Mér finnst Gulli Þórðar löggu hafa dúmmað sig svolítið með því að lýsa yfir stuðningi við rauðvínsfrumvarpið. Hann hefði átt að gera sér grein fyrir því að eftir að hann var gerður að heilbrigðisráðherra þyrfti hann að passa sig mjög vel. Það getur varla verið að það verði honum til framdráttar pólitískt að gera þetta. Sé hann í hjarta sínu svo vel frjálshyggju-prógrammeraður að honum finnist rétt að þetta frumvarp nái fram að ganga hefði hann a.m.k. átt að hafa vit á að þegja.

Einu sinni tíðkaðist í Kína að skrifa fréttir og annað á veggspjöld sem síðan voru hengd upp á Torgi hins Himneska Friðar. Bloggið er dálítið líkt þessu. Þannig ímynda ég mér að minnsta kosti hlutina. Ég læt mig jafnvel dreyma um að þeir sem lesa mitt veggspjald staldri svolítið við og hugsi kannski eitthvað á þá leið að þetta sé nú bara nokkuð vel sagt, en strunsi ekki bara framhjá og gjói hornauga á spjaldið svona í forbifarten.

Einhvers konar orðaþulur eða vísur rata mjög oft í bloggið hjá mér um þessar mundir. Þetta datt mér í hug þegar ég skrifaði byrjunina á þessu bloggi:

Ég fer um borð

og borða um borð

fyrst borðað er um borð

á annað borð.

Ekki veit ég hvaðan þetta er komið en þetta líkist dálitið annarri þulu sem mamma kenndi mér á sínum tíma:

Ef sumir væru við suma

eins og sumir  eru við suma

þegar sumir eru frá.

Væru sumir betri við suma

en sumir eru við suma

þegar sumir eru hjá.

Auk þess vil ég gjarnan vekja athygli á bloggi Hallmundar Kristinssonar hann er frábær hagyrðingur. Slóðin er: hallkri.blog.is

Líka má auðvitað minna á Má Högnason þó ég efist mikið um að hann sé til. Ég held að Gísli Ásgeirsson þýðandi yrki fyrir hann þessar íðilfögru limrur sem Már birtir reglulega á bloggi sínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallmundur Kristinsson

Það er mér sönn ánægja að kvitta fyrir innlitið,Sæmundur. Þú ert í hópi þriggja bestu bloggvina minna, sem þýðir að ég fylgist með öllum þínum færslum. Þakka vinsamleg orð í minn garð. Bendi á að ég blogga einnig á Vísi, að vísu að mestu sömu færslur, en þó ekki alfarið. Það er bein tenging frá Moggabloggi mínu yfir á hitt. Það er raunar athyglisverður munur á þessum tveim vettvöngum. Á Moggabloggi skrifa menn en lesa ekki en á Vísi lesa menn en skrifa minna. Hins vegar koma þó mun fleiri athugasemdir af Mogga.

Hallmundur Kristinsson, 31.10.2007 kl. 00:02

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir það. Mig minnir að þú hafir á sínum tíma mælt með mér við inngöngu á leirlistann svonefnda. Ég geri ráð fyrir að hann sé enn við lýði, en ég hætti að fylgjast með honum fyrir svona hálfu öðru ári.

Þar var margt góðra hagyrðinga en mér fannst vera orðið of mikið skrifað á hann undir það síðasta og þar að auki fékk ég nýtt netfang og nennti ekki að ganga þannig frá málum að ég héldi áfram að fá sendingar þaðan.

Sæmundur Bjarnason, 31.10.2007 kl. 13:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband