118. blogg

 Það er dálítið töff að blogga daglega, en hentar mér ekki alveg.

Mér finnst best að blogga bara þegar ég nenni og þegar ég er í vinnunni nenni ég frekar. Þegar ég er ekki í vinnunni er í rauninni miklu meira að gera. Skrítið, en svona er þetta.

Sendum pakka af stað til Bjarna Bahamafara í gær. Fórum svo og keyptum eitt stykki uppþvottavél. Nú er bara að fjarlægja gömlu drusluna og tengja þá nýju. Ætli Benni sjái ekki um það. Lífur af nýslátruðu freistar.

Já og ég eignaðist tvo nýja bloggvini í gær. Tvær vaskar konur af Snæfellsnesinu. Gíslínu í Dal og Kristjönu, ja ég reikna með að hún sé frá Stakkhamri, eða Úlpubergi eins og það hét hjá mér einhvern tíma þegar ég var að búa til bæjanafnaþraut. Man eftir fáeinum slíkum nöfnum:

Strákatalfæri

Efri Stofur

Lúxustangi

Ránfuglsnes

Akranesharpan er að atast í Bjarna Harðarsyni vegna kindanna hundrað og eitthvað sem drukknuðu um daginn. Ég trúi Bjarna alveg með það að erfitt sé að ráða við þetta. Þegar ein kind ákveður að gera einhverja vitleysu er eins víst að fjöldi annarra elti hana í ófæruna.

Ef það er dyrplageri að smala fé þá er það ekki síður dyrplageri í mínum huga að veiða fisk bara til að sleppa honum aftur.  Þannig skilst mér að laxveiðimenn hagi sér og þyki fínt. Sömuleiðis þykir mjög fínt að elta litlar kúlur út um víðan völl og kalla það útivist. Það skaðar þó engan, en gríðarlegt pláss þarf undir þetta og jafnvel er ætlast til að ríkið taki þátt í kostnaði við það.

Fiskar finna ekki til af því þeir eru með kalt blóð segja veiðimenn eflaust en ég veit ekki hvernig þeir vita það. Mér finnst að fiskarnir ættu að njóta vafans.

Guðni fann fyrir skemmstu allmargar milljónir króna og ákvað að réttast væri að reisa reiðhallir út um allt fyrir þær. Það finnst mér illa farið með peninga. Vel hefði mátt nýta þá í eitthvað skynsamlegra.

Við mennirnir höfum ákveðið að við séum æðsta dýrategund jarðarinnar. Mér finnst að með því höfum við axlað þá skyldu að kvelja ekki eða drepa dýr að óþörfu. Grænmetisætur mundu eflaust telja óþarfa að drepa nokkurt spendýr. Slíkt er þó umdeilanlegt. Afar léleg orkunýting er samt að rækta fyrst gras og láta svo grasbíta gera það að fæðu sem okkur þóknast að éta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Gunnarsson

Grænlendingar setja handlegginn ofaní vatni og láta hann verða jafnheitan því, svo taka þeir utanum sporðinn á laxinum. Ef tekið er utan um sporðinn með 30°C heitri hönd skynjar fiskurinn það eins og við skynjum bruna.

Gestur Gunnarsson , 18.9.2007 kl. 16:56

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Úlpuberg !    Þú þarft að þýða hin bæjarnöfnin.... Arnarnes, þykist ég vita....en svo er ég mát.

Anna Einarsdóttir, 18.9.2007 kl. 17:24

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það sem ég var með í huga var:

Strákatalfæri = Sveinatunga

Efri Stofur = Loftsalir

Lúxustangi = Munaðarnes

Ránfuglanes = Haukatunga

Sæmundur Bjarnason, 19.9.2007 kl. 14:31

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Nú er ég farin að skilja Úlpuberg, þetta olli mér smá vangaveltum, en þessi var bara nokkuð góður. Hélt kannski að við systurnar hefðum alltaf verið í svo ljótum úlpum þegar við komum í búiðna

Kristjana Bjarnadóttir, 19.9.2007 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband