95. blogg

Enn um blogg og þess háttar.

 

Harpa Hreinsdóttir kommentar enn og aftur á mína síðustu bloggfærslu og af því að ég hef margra ára reynslu af blogglestri þá veit ég að komment eiga það til að fara framhjá manni.

Þess vegna ætla ég að reyna að afrita færslu hennar hér orðrétta, þó ég sé í nokkrum vafa um hvernig Moggabloggsguðirnir taka slíku.

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Sæmundur: Ef þú vilt fá fleiri lesendur eða fleiri komment þá verðurðu að gefa hverri færslu lýsandi fyrirsögn. Sé fyrirsögnin áhugaverð sést hún á rss-listum og menn smella yfir á bloggið. Númer færslu er hvorki áhugavert né lýsandi.

(Svo má auðvitað nota öll ódýru trikkin hans Bols Bolssonar ;)

P.s. Ég hef þá einföldu stefnu í lífinu að andmæla hressilega hverjum þeim sem viðrar fordóma eða bull um geðsjúkdóma - í augnablikinu er það færsla og kommentakerfi einhverrar Önnu, http://www.anna.is/weblog/2007/08/hugarafl.php

Náttúrlega er ég ekki geðlæknismenntuð en ég er óvenju skynsamur geðsjúklingur :) og orðin hundleið á fólki sem heldur að það sé hægt að kjafta sig út úr alvöru þunglyndi og kvíða eða drekka ómælt te, eta remedíur, láta strjúka sér um höfuðkúpu eða prjóna / föndra sig út úr ástandinu. Af hverju hefur enginn stungið upp á því að sykursjúkir saumuðu út, í staðinn fyrir insúlingjöf, eða að púsluspil væru almennt notuð til lækka blóðþrýsting, í stað lyfja?

Harpa (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 10:16

 - - - - - - - - - - -

Svo er þetta líka fín aðferð til að komast ódýrt frá bloggi dagsins!!! Verst ef Harpa tekur það illa upp að ég skuli nota komment hennar hér á þennan hátt.

Það verðskuldar þó meira en stuttaralegt svar svo ég hugsa að allt þetta blogg verði einhvers konar viðbrögð við því.

Varðandi byrjunina gæti ég svosem reynt að vera nasty og sagt að mér þætti rss-trikkið ekkert merkilegra en bola-trikkið.

Og hver segir að ég vilji umfram allt fá fleiri lesendur og fleiri komment? Kannski hef ég einhvern tíma kvartað undan kommentaleysi en það er meira svona almennur væll og til þess að fylla bloggsíðurnar. Mér er slétt sama hvort það eru margir eða fáir sem lesa þetta blogg. Ég veit að það eru einhverjir sem gera það og það dugar mér alveg. Aðallega er ég að þessu til að þjálfa skrifvöðvana, hvar sem þeir nú eru. Svo finnst mér eiginlega eins og ég sé að tala við þá sem ég veit eða held að lesi bloggið mitt reglulega. Harpa á nú á hættu að bætast í þann hóp.

Það er bara mín sérviska að merkja bloggin mín með færslunúmeri og ef það hentar illa rss-straumum sem eru á sveimi í netheimum, þá verður bara að hafa það. Ég skil samt vel að það geti hentað þeim sem lesa mikið af bloggum að geta í sjónhendingu séð um hvað tiltekin blogg fjalla.

Ég er svona almennt og yfirleitt á móti fyrirsögnum og því meir sem þær eru lengri. Það er eitt af undanlegheitum Moggabloggsins að þar virðast óralangar fyrirsagnir vera leið til vinsælda. Þeim til hjálpar sem lesa bloggið mitt að staðaldri er ég þó tekinn upp á því að setja stundum einskonar undirfyrirsögn í upphaf bloggsins.

Ég veit vel að númer bloggfærslna eru hvorki áhugaverð né lýsandi. Það hentar eflaust sumum að hafa fyrirsögnina sem líkasta einhvers konar fréttahelsti, en ég er bara ekki á neinn hátt að reyna að draga saman það sem ég vildi sagt hafa.

Ég hef lengi lesið bloggið hennar Hörpu og hugsa að í gegnum tíðina hafi hún menntað mig svolítið í geðlæknisfræðum þó mér þyki sumt annað sem hún skrifar skemmtilegra. Satt að segja finnst mér hálfleiðinlegt að okkur skuli hafa orðið sundurorða út af jafn ómerkilegum hlut og grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur, sem ég hef ekki einu sinni lesið.

Ég hef þá einföldu stefnu í lífinu að gera jafnan ráð fyrir því að fólk sé gáfaðra en það virðist vera. Einu sinni hélt ég að engir eða a.m.k. mjög fáir væru gáfaðri en ég. Það held ég ekki lengur.

Þú, Harpa vilt andmæla hressilega öllum þeim sem viðra fordóma og bull um geðsjúkdóma. Það er alveg ágætt. Mér finnst hinsvegar að rétt sé að fara með gát þó fólk sé ekki sammála manni. Auðvitað getur þurft að taka djúpt í árinni svo eftir sé tekið og hreinskilin og hressandi ummæli geta komið af stað áhugverðum skoðanaskiptum, en þau geta líka fælt þá frá sem síst skyldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband