93. blogg

Á Reykjum

 

Ég nefndi það fyrir nokkru að ég hefði þekkt bæði Bjössa fjósamann og Concordiu sem léku aðalhlutverk í miklu drama sem átti sér stað á Reykjum í Ölfusi á sjötta áratug síðustu aldar.

Á unglingsárum vann ég um tíma í garðyrkjustöðinni þar. Ætli ég hafi ekki verið þar samtals í svona tvö sumur og einn vetur, ég man það ekki nákvæmlega, en margs er að minnast frá þessum árum.

Verið var að byggja stóra húsið þegar ég var þar fyrst. Stóra húsið var 2000 fermetra gróðurhús sem á þeim árum þótti gríðarlega stórt. Venjuleg gróðurhús voru þá gjarnan svona 2 - 300 fermetrar. Stundum voru þau að vísu sambyggð og gátu þá náð yfir nokkuð stóran flöt samtals, en stóra húsið á Reykjum var í laginu eins og venjulegt gróðurhús. Sperrur allar voru úr járni en ekki tré eins og venjulegast var. Þegar ég hóf vinnu þarna vorum við að hamast við að glerja þetta flæmi. Tjöruefni var notað sem kítti og við vorum í sérstökum göllum við verkið sem fljótlega urðu útataðir í tjöru og hefðu líklega getað staðið sjálfir ef á það hefði reynt. Gott veður var þetta sumar, sólskin og hiti og ég man að það var kvöl og pína að þurfa alltaf að vera að fara í þessa grútskítugu tjörugalla. Lárus sonur Kristjáns í Reykjafossi jafnaldri minn var með mér í þessari vinnu. Einnig Guðmundur Ingvarsson sem seinna giftist Sigrúnu Helgadóttur. Lárus var jafnan kallaður Lalli. Eitt sinn sagði Guðmundur að það væri auglýst niðri í Hvergerði sýning á kvikmynd sem héti Tjöru-Lalli. Þetta var ekki alveg út í bláinn hjá honum því myndin var kölluð í íslenskri þýðingu Fjörulalli. Þarna skiptir máli hvort ll hljóðið er raddað eða óraddað sem kallað er. Eða eins og segir í vísunni alþekktu: Skólapiltar fara á fjöll / og faðma heimasætur. / Ungar stúlkur elska böll / einkanlega um nætur.

Auk vinnunnar við stóra húsið vann ég eitthvað við heyskap á Reykjabúinu þetta sumar. Þar var ekki mikilli tækni fyrir að fara og þó einn traktor væri til á svæðinu var mikið treyst á hesta. Ég man að ég var látinn vera á svokallaðri rakstrarvél sem hestur var spenntur fyrir. Þegar ég var kominn upp á sæmilegt lag með að raka heyinu í garða með því að lyfta rakstrargreiðunni á réttum stöðum þóttist ég sannarlega maður með mönnum og fór að blístra hástöfum. Þá brá svo við að hesturinn snarstoppaði og fékkst ekki til þess að fara af stað aftur. Með lagni tókst mér þó á endanum að koma honum af stað og fór aftur að blístra en þá snarstoppaði hann að nýju. Loksins skildi ég samhengi hlutanna og að hesturinn hafði vanist því að stansa alltaf ef blístrað var.

Jónas Jónsson frá Hriflu átti sumarbústað skammt frá garðyrkjuskólanum sem kallaður var Fífilbrekka. Þangað var ég sendur með hestinn og rakstrarvélina til að raka saman heyi á lóðinni. Til að komast inn á lóðina þurfti að fara í gegnum hlið sem var örlitlu breiðara en rakstrarvélin. Fyrir einhverja óskiljanlega heppni tókst mér bæði við komu og brottför að koma rakstrarvélinni þarna í gegn án þess að sæi á hliðstólpunum. Þegar ég fór man ég að Jónas var útivið og hafði orð á því hvað ég hefði góð tök á hestinum.

Það voru skemmtilegir karlar þeir Unnsteinn skólastjóri á Reykjum og Hriflu-Jónas. Jónas ævinlega í flókainniskónum sínum á Volkswagen bjöllunni (R-29) og Unnsteinn á Villysjeppanum sínum. Fjaðrirnar bílstjóramegin á jeppanum voru svo slitnar að hann hallaðist mikið til vinstri. Einu sinni keyrðu þeir saman Unnsteinn og Jónas skammt frá Hótelinu því hvorugur vildi gefa eftir enda báðir sjálfstæðir með afbrigðum.

Einhvern tíma var það þegar Hörður Sigurðsson var fjósamaður á Reykjum að ég hjálpaði honum við að halda belju. Hann stjórnaði náttúrulega aðgerðum en ég var látinn halda í beljuna. Nautið var fremur svaðalegt og mér stóð hálfgerður stuggur af því. En uppá beljuna fór það og þegar Hörður ákvað að nóg væri komið var ég látinn teyma beljuna í burtu. Það var svo ekki fyrr en nokkru seinna sem ég uppgötvaði brundtaum niður eftir allri hægri buxnaskálminni.

Einhvern tíma vann ég líka við það ásamt Herði og Val Einarssyni að slátra hesti og var það gert í Byggingunni sem svo var kölluð. Byggingin var bara venjulegt hús með geymslum og þess háttar niðri en kaffistofu og ýmsu fleiru á efri hæðinni og einnig rannsóknarstofu sem Axel Magnússon hafði. Það var Valur sem skaut hestinn með riffli og ég man  að mér kom á óvart hve fljótt hesturinn hrundi niður þegar skotið reið af. Ekki eins og jafnan var í kvikmyndum að bæði menn og skepnur voru lengi að drepast eftir að hafa orðið fyrir skoti. Síðan þurfti að gera að hestinum og hluta skrokkinn í sundur. Lúga var í loftinu fyrir ofan staðinn þar sem hesturinn var felldur og með talíuverki var skrokkurinn hífður þar upp þegar búið var að flá hann og taka innan úr honum. Skömmu eftir að búið var að lyfta skrokknum brotnuðu spýturnar sem héldu honum uppi og bútur af þeim lenti í Val og meiddi hann svo hann hafði á orði að nú væri hesturinn að hefna sín. Úlpuræfill sem ég var í við þetta verk varð útataður í fitu og þegar hún þránaði kom svo vond lykt af úlpunni að ég varð að henda henni.

 

Allir eru að blogga um blogg / bloggið marga kvelur. / Barnaland og bloggið Mogg / býsna mikið selur.   (Líklega auglýsingar - eða hvað?) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband