22.10.2020 | 21:31
3020 - Fóturinn
Sé að ég hef í síðasta bloggi ruglað saman Kirgistan og Kasakstan. Það er engin furða. Í mínum huga hafa þessi tvö lönd ásamt Úsbekistan og Túrkmenistan sameiginlega hingað til borið heitið Langíburtistan og var ég þó sæmilegur í landafræði í dentíð, sérstaklega í höfuðborgum. Þegar ég var í skóla voru þessi lönd, ásamt mörgum fleiri bara héruð í Svovétríkjunum sálugu. Nútildax koma þessi ríki Rússlandi lítið við. Löndin sem urðu til við fall Júgóslavíu á ég miklu betra með að muna eftir, enda komu þau flest við sögu þegar ég fékkst við frímerkjasöfnun.
Satt að segja var ég tilbúinn að setja sögu í endann á síðasta bloggi. Var meira að segja búinn að gefa henni nafn. Fóturinn átti hún að heita. Gleymdi að bæta henni við. Kannski ég geri það bara seinna. Annars eru þessar örsögur, sem ég kalla svo, heldur ómerkilegar. Sérstaklega þessar históríur um andann sem á að koma yfir mig. Það er tómur uppspuni. Ég lýg því samt ekkert að þegar ég byrja á sögunum er ég oftast nær ekki með neina sérstaka hugmynd í huga, bara læt það ráðast í hvaða átt sagan fer. Það er ósköp þægilegt að skrifa þannig. Þegar ég blogga reyni ég að vanda mig sem mest og er oft búinn að ákveða fyrirfram hvað ég ætla að skrifa um. Sem betur fer skrifa ég og hugsa fremur hægt. Samt er ég sískrifandi eða sílesandi. Allur hávaði fer í taugarnar á mér. Ef ég hef engan áhuga á því sem verið er að tala um truflar það mig að þurfa að hlusta á það. Einkennilegt er samt að þetta á síður við um önnur tungumál en íslensku þó ég kannski skilji þau nokkuð vel. Eiginlega skil ég bara Norðurlandamál og ensku. Í frönsku og ítölsku skil ég ekki baun, en í þýsku er ég skárri. Einu sinni kunni ég að telja upp að 10 á finnsku en lítið meir.
Varðandi Tromparann er það að segja að greinilegt er að hann mun tapa í þetta sinn og er það hálfgerður aumingjaskapur því yfirleitt tapa sitjandi forsetar ekki. Árið 2016 vildi svo vel til fyrir hann að óánægjufylgið fór eiginlega allt til hans og Republikanar sættu sig sæmilega við hann þó gallaður væri. Þann flokk hefur hann greinilega eyðilagt að miklu leyti. Leiðtogar Demókrata sáu sitt óvænna þegar allt leit út fyrir sigur Sanders í prófkjörinu því Bandaríkjamenn eru ekki nærri eins vinstrisinnaðir og hann, en Harris gæti þó sveigt þá svolítið til vinstri ef Biden verður bara eitt kjörtímabil. Það á ég að vísu eftir að sjá.
Hér kemur sagan sem ég ætlaði að birta með síðasta bloggi. Hér má semsagt hætta.
Fóturinn.
Eftir því sem árin liðu varð Már smátt og smátt lélegri í fætinum. Einu sinni spilaði hann fótbolta. Þá var fóturinn alveg í lagi, en nú þegar hann var að nálgast sjötugt þá var fóturinn allur úr lagi genginn og sífellt að angra hann. Þetta var hægri fóturinn. Ekki nóg með að hann væri aðeins styttri en sá vinstri, heldur var hann sífellt að fá allskonar slæmsku, verki, sár, bjúg og allan fjandann í hann. Ekki kom Má til hugar að leita læknis útaf þessu. Frekar reyndi hann að harka af sér og láta sem ekkert væri. Konan hans, hún Sesselja, vissi ekki einu sinni af þessu. Aldrei kvartaði hann. Börnin hans sem fyrir löngu voru flogin úr hreiðrinu höfðu áreiðanlega enga hugmynd um þetta. Sennilega hefði þeim verið alveg sama þó þau hefðu vitað af þessu. Í mesta lagi ráðlagt honum að fara til læknis. Eða þá bara að fá sér staf.
Áður en langt um liði yrði hann víst að hætta að vinna. Hvað þá tæki við vissi hann ekki. Ekki þýddi víst að reikna með löngum gönguferðum. Fóturinn sá fyrir því. Ætti hann kannski að dusta rykið af frímerkjasafninu og fara aftur að sinna því. Frímerkjasöfnun naut ekki nærri eins mikillar virðingar og áður fyrr. Fyrir það fyrsta voru menn svotil hættir að nota frímerki og farnir að nota tölvupóst meira og meira. Hann gæti svosem farið að stunda bókasafnið, eða flækst um á Internetinu og reynt að finna eitthvað interessant þar. Það þyrmi bókstaflega yfir Má þegar honum varð hugsað til allra þeirra vonbrigða sem tölvur og allt þetta nýmóðins drasl hafði valdið honum í gegnum tíðina.
Vinnan, já. Skyldi nokkurn þurfa til að taka við af honum. Væri ekki upplagt að endurhugsa svolítið verkferlana í fyrirtækinu eins og skipulagsfræðingurinn hafði sagt um daginn. Sennilega yrði það tölvuskratti sem kæmi í staðinn fyrir hans framlag til fyrirtækisins, þegar hann hætti. Eflaust yrði honum skipað að hætta þegar hann yrði sjötugur eins og er í tísku núna. Gott ef það var ekki ákvæði um þetta í nýjustu samningunum. Már hryllti sig allan og versnaði til muna í fætinum við það. Ekki vissi tölvan allt sem hann vissi. Kannski þurfti þess heldur ekki. Tölvan gæti sem best skrifað reikninga fyrir öllu mögulegu. Með tímanum mætti svo útskýra fyrir henni hvar allt væri og svo framvegis.
Már tók af sér vinstri fótinn og henti honum. Eiginlega var honum alveg sama þó hann yrði mun haltari fyrir vikið. Sagði svo við Jónas:
Mér er fjandans sama um þessa löpp, ég vil bara halda áfram að skrifa nótur og vil enga helvítis tölvu til að hjálpa mér við að skrifa reikningana!!.
Aumingja Jónas fór alveg í kleinu og stundi upp eftir vandræðalega þögn.
Ég var ekkert að tala um neina tölvu, ætlaði bara að vita hvort þú vissir hvað þessi karburator á að kosta. Hum, hvernig fórstu eiginlega að því að taka af þér löppina? Þetta var sko enginn gervifótur. Ég er svo aldeilis hissa.
Þá var það sem Már gerði sér grein fyrir því að hann hafði fundið upp alveg nýja læknisaðferð. Kannski gæti enginn gert þetta nema hann. Að taka af sér heilan útlim án þess að svo mikið sem blóðdropi sæist. Eða nokkur sérstakur sársauki fyndist. Nú var hann ekki lengur í vafa um hvað hann ætti að gera eftir að hann yrði sjötugur.
Auðvitað hefði verið betra fyrir hann að henda hægri fætinum, en hann mátti ekkert vera að því að hugsa um slíka smámuni. Nú lá honum á að komast í tölvuna sína.
Einhver mynd.
Athugasemdir
Jamm.
Þorsteinn Siglaugsson, 22.10.2020 kl. 22:55
Mikið verður trúðsins tap,
Trump af stalli fallinn,
stórkostlegt það stjörnuhrap,
Star Wars ljóti kallinn.
Þorsteinn Briem, 23.10.2020 kl. 11:22
Trúðurinn hann tapar senn
tilgangslaust er gallið.
Stundum tapa státnir menn
stórkostlegt er fallið.
Sæmundur Bjarnason, 23.10.2020 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.