3007 - Kartöflugarðar og önnur fyrirtæki

Að minnsta kosti tveir Þorsteinar lesa bloggið mitt að staðaldri. Kommenta oft á það sem ég skrifa. Báðir eru þeim miklir sérfræðingar, en það er ég ekki. Ég er gamalmenni. Komst á sínum tíma lengst á fræðasviðinu fyrir ríflega hálfri öld með því að komast á Samvinnuskólann að Bifröst árið 1959. Við útskrift þaðan var ég í slöku meðallagi hvað einkunnir snerti.

Steini Briem segist hafa unnið á Morgunblaðinu og verið næturvörður í Seðlabankanum. Hann bloggar ekki sjálfur núorðið á Moggablogginu en lætur ljós sitt skína víða annarsstaðar. Hefur mikið yndi af fyrirsögnum og feitletrunum. Fjármál eru hans ær og kýr. Hinn Þorsteinninn er Siglaugsson og er ef til vill tiltölulega nýútskrifaður lögfræðingur. Að því er ég best veit hefur hann fyrir ekki löngu hafið Moggablogg eitt mikið og á örugglega framtíð fyrir sér sem slíkur. Veit ýmislegt en hljómar stundum eins og kennslubók í hagfræði.

Þó ég hafi horn í síðu fésbókarinnar er ekki þar með sagt að ég kenni henni um allt sem aflaga fer í samskiptum fólks. Ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill gjarnan tosa landinu í átt til Bandaríkja Norður-Ameríku, en ég og aðrir vinstri menn viljum gjarnan að landið þokist meira í átt til Evrópu og Norðurlandanna sérstaklega og þar með í átt til ESB. Auðvitað er þetta ekki einfalt mál og margar hliðar á því. Vextir Seðlabankans og það hvort eitt pínulítið flugfélag lifir eða deyr eru smámál í stóra samhenginu. Allt er komið undir þróuninni.

Í bloggi um daginn sagði ég eitthvað á þá leið að hlutabréf væru ímynduð verðmæti. Við það stend ég og geri ekki þann greinarmun á kartöflugörðum og öðrum fyrirtækjum sem Þorsteinn Siglaugsson vill gera. Hlutabréf geta sem best verið einskonar afurð. Meirafíflskenninguna vil ég standa við. Minnir að ég hafi fyrst heyrt um hana í einhverju sem haft var eftir Margeiri Péturssyni. Engin furða er þó ekki fallist allir á það að hlutabréfamarkaðurinn sé nútíma vestræn útgáfa af keðjubréfum. Þessi skoðun er nefnilega talsvert róttæk og ég eigna mér hana allsekki. Blessuð keðjubréfin tröllriðu nefnilega einu sinni Íslenskum veruleika.

IMG 5492Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Meirafíflskenningin á svo sannarlega oft við. Eitt fyrsta dæmið um hana sem ég man eftir var þegar Ármann Reynisson fékk fullt af fólki til að fjárfesta í fyrirtæki sínu Ávöxtun. Það var hálfgert keðjubréfasvindl ef ég fer rétt með. Svo man ég eftir því kringum aldamótin þegar þúsundir hættu sparifé sínu og tóku jafnvel lán til að kaupa bréf í fyrstu útgáfunni af Íslenskri erfðagreiningu. Það fóru margir flatt á því. En eigandinn græddi.

Þorsteinn Siglaugsson, 15.9.2020 kl. 09:27

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta er alveg rétt. Ég man eftir þessu. Sigurður Berndsen (eða Siggi Berings, eins og mamma og pabbi kölluðu hann) var einn af þeim fyrstu sem ég man eftir. Okurlánarar voru þeir kallaðir í eina tíð. Kunnu bara á kerfið.

Sæmundur Bjarnason, 15.9.2020 kl. 11:00

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Undirritaður var öryggisvörður í Seðlabankanum, blaðamaður á Mogganum og margt fleira fyrir þrítugt en er talsvert eldri núna, elsku kallinn minn. cool

Fyrir mörlensk gamalmenni skiptir yfirleitt harla litlu máli hvaða vexti fólk þarf að greiða hér á Klakanum.

Fyrir yngri Íslendinga skipta vextir hér hins vegar gríðarlega miklu máli og fjölmargir þeirra kjósa aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna mun lægri vaxta hér með aðildinni. cool

Menn geta að sjálfsögðu grætt eða tapað á hlutabréfakaupum en hafi einhverjir keypt evrur fyrir 100 milljónir mörlenskra króna um síðustu áramót og selt þær aftur núna hafa þeir grætt á því um 20 milljónir króna.

Og undirritaður keypti evrur í byrjun mars síðastliðins, því augljóst var, hugsanlega einnig fyrir Samvinnuskólagengna menn með lélegar einkunnir, að gengi mörlensku krónunnar myndi falla gríðarlega vegna Covid-19.

Jafn augljóst er að vextir munu hækka mikið hér Klakanum og þar með afborganir af til að mynda húsnæðislánum, eins og Seðlabankinn hefur varað við. cool

En sumir eru með nefið í kartöflugörðunum svo skín í rassboruna og öllum er að sjálfsögðu frjálst að tapa tugmilljónum króna, til að mynda vegna húsnæðislána, ef þeir endilega vilja. cool

Þorsteinn Briem, 15.9.2020 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband