8.9.2020 | 12:05
3003 - Þetta er um hana Guðrúnu
Ekki var þetta sögubindindi langvarandi. Nú þegar er ég búinn að semja sögu sem ég er að hugsa um að nota til að lengja þetta blogg. Kannski fer ég aftur í sögubindindi en það getur verið svolítið erfitt að venja sig af ósiðum. Kannski er það ekki neinn sérstakur ósiður að skrifa sögur, þó þær endi svolítið skringilega. Kannski gæti ég skrifað eitthvað um heimsstjórnmál núna til að þurfa ekki að treysta eingöngu á sögurnar.
Ekki finnst mér hægrið sýna mikla skynsemi í því að höfða svona mikið til föðurlandsástarinnar eins og gert er. Hún er að sjálfsögðu allra góðra gjalda verð svo lengi sem hún skaðar ekki aðra. Nútíma stjórnmál hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að framfarir í tækni og verkkunnáttu verða því aðeins umtalsverðar að allar þjóðir leggi sitt að mörkum. Engin þjóð má skera sig úr og stefna að einangrum. Hvorki stór eða smá. Auðvitað er þetta takmark langt í burtu en það þýðir ekki að afsakanlegt sé að stefna að einhverju öðru. Þetta er það takmark sem Trump bandaríkjaforseti berst ákveðið gegn og það er hans veikleiki umfram annað. Enginn vafi er á því að unga fólkið stefnir í þessa átt, hvort sem það veit af því eða ekki. Og þessi stefna mun sigra að lokum.
Nú er komið að sögustundinni. Best að sækja þessa sögu sem ég samdi í gær og setja hana hér:
Nú er það orðið slæmt. Ég get ekki samið fleiri sögur. Andinn kemur ekki yfir mig. Hvert skyldi hann hafa farið? Ekki má hann vera að því að koma við hérna.
Ómögulegt er að hafa þessi skrif með öllu andlaus svo sennilega verð ég bara að láta sem andinn hafi komið yfir mig.
Guðrún gekk og gekk. Á endanum komst hún ekki lengra fyrir þreytu. Settist því á bekk, sem svo vel vildi til að var þarna staddur. Ekki var hún farin að hugsa fyrir því hvernig hún kæmist til baka. Ef hún hvíldi sig nógu rösklega hlyti hún samt að hafa það af. Eiginlega ætlaði hún alls ekki að ganga svona langt, en átti erfitt með að stoppa því hún var saltvond útí manninn sinn. Hann ætlaði enn einu sinni í veiðiferð. Og ekki átti hún á fá að fara með frekar en venjulega. Þessar blessarar veiðiferðir voru orðnar ansi margar. Ætli þetta verði ekki sú fjórða á þessu sumri. Hún hafði einmitt ætlað að fá hann með sér í heimsókn til foreldra sinna um þessa helgi. Nú var það fyrir bí. Allt útaf þessari andskotans veiðiferð.
Nú var fimmtudagur og krakkarnir, sem voru orðin næstum uppkomin, voru á leiðinni á einhverja útiskemmtun. Það hefði semsagt verið upplagt að skreppa austur á Hornafjörð núna um þessa helgi. Aldrei gat hún farið neitt útaf þessum sífelldu veiðiferðum hjá Hróðmari.
Þó hún ætti bágt með að fyrirgefa honum allar þessar veiðferðir fann hún samt vel að hún var pínulítið ósanngjörn. Hann langaði vitanlega til að sleppa fram af sér beislinu og satt að segja gat hún vel unnt honum þess. Sjálf hafði hún ekki viljað fara í berjatínslu um síðustu helgi þó hann hefði ámálgað það við hana. Það var bara svo margt sem hún átti ógert þá. Hafði hamast öll kvöld í þessari viku til að hafa ekki svona mikið að gera um þessa helgi. Svo þegar hann hafði sagt að Hannes hefði hringt og sagst geta reddað dögum í laxveiði hefði hann slegið til og ætlaði nú í enn eina veiðiferð, þá hafði hún ekki getað á sér setið og farið að rífast við hann. Sagði sem satt var að hann væri alltaf í veiðiferðum og hún gæti aldrei farið neitt.
Svo hafði hún rokið út og sagst ætla út að ganga smávegis.
Á bakaleiðinni villtist hún og vissi ekki fyrr til en hún var komin alla leið til Hornarfjarðar. Úr því hún var komin svona langt ákvað hún að heimsækja foreldra sína. Þau voru að sjálfsögðu ekki heima og bíllinn ekki heldur svo sennilega höfðu þau farið út að keyra. Af því hún var öllum hnútum kunnug á heimilinu hafði hún lítið fyrir því að komast inn. Settist inn í stofu og lét fara vel um sig. Sofnaði í sófanum og vaknaði við það að Hannes var að reyna að vekja hana. Hún leit í kringum sig og sá að hún var á Hornafirði og sagði því við Hannes:
- Hvernig í ósköpunum fórst þú að því að komast hingað?
- Nú, ég bara elti þig.
- Af því bara.
- Gekk ég alla þessa leið?
- Já, og stoppaðir hvergi.
- Ég er svo aldeilist hissa.
Og þannig atvikaðist það að Guðrún gekk alla leið til Hornafjarðar. Hvar hún byrjaði fylgir ekki sögunni.
Athugasemdir
Hvað varð um Hróðmar?
Þorsteinn Siglaugsson, 8.9.2020 kl. 12:21
Veit það ekki.
Sæmundur Bjarnason, 9.9.2020 kl. 09:55
Ég hélt endilega að það hefði verið Hróðmar sem vakti hana en ekki Hannes. Var núna rétt áðan að lesa þessa sögu aftur. Sé líka að af einhverjum ástæðum hefur eitt tilsvarið úr örleikritinu í lokin fallið niður. Minnir endilega að það hafi átt að vera: "Af hverju?".
Sæmundur Bjarnason, 11.9.2020 kl. 06:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.