2999 - Afsökun

Greinilega er ég alveg dottinn í þetta sögustúss og með öllu hættur að blogga á venjulegan hátt. A.m.k. í bili. Þetta er það sem ég afrekaði í dag:   

Nú sest ég við tölvuna og bíð bara eftir þvi að andinn komi yfir mig. Já, svona einfalt er þetta. Að mörgu leyti hef ég verið að búa mig undir þetta alla ævi. Einu sinni, í nokkuð langan tíma reyndar, skrifaði í smásmugulega dagbók. Þannig lærði ég að skrifa það sem ég hugsa. Alla mína hunds og kattartíð hef ég lesið mikið. Þannig hef ég kynnst mörgu, þó lífsreynslan sé kannski ekkert ákaflega mikil. Nú er ég að verða áttræður svo það er ekki seinna vænna fyrir mig að láta rithöfundarhæfileika mína blómstra. Auk þess er ég farinn að hugsa svo hægt að ég er næstum eins fljótur að skrifa eins og að hugsa. Fingrasetningu á ritvél lærði ég á sínum tíma að Bifröst og ég hef ekki gleymt henni ennþá. Held jafnvel að hún sé betri en tveggjaputta aðferðin sem mikið er notuð. Hver segir að maður þurfi að skrifa svo og svo margar bækur til þess að geta kallað sig rithöfund. Kannski er alveg nóg að blogga svona þrjú þúsund sinnum. Það hef ég gert og kannski er það afrek út af fyrir sig.

En hvað sem öðru líður þá þarf ég að láta þessa afsökun fyrir því að skrifa sögur en blogga ekki á venjulegan hátt endast í svosem eina blaðsíðu í wordinu. Þá er ég einlega sloppinn fyrir horn, því segja má að það sé svona sæmilegt blogg. Allt sem er styttra er eiginlega bara ágrip og ef um eitthvað lengra er að ræða getur það sennilega kallast smásaga eða jafnvel skáldsaga. Ég er orðinn svo vanur að skrifa í styttra lagi að þetta ætti ekki að verða mér ofviða. Venjulega þegar ég blogga minnist ég á ýmislegt en nú er ég semsagt hættur því og farinn að skrifa sögur, sem ég vil helst kalla örsögur.

Hver er munurinn á örsögu og smásögu? Þetta er athyglisverð spurning og ég ætla að reyna að svara henni. Fyrir það fyrsta er örsagan yfileitt, eins og nafnið bendir til, mun styttri en smásagan. Þetta er þó ekki alveg undantekningalaust, því auðvitað geta smásögur verið stuttar og örsögur langar. Þetta er samt venjulega svona. Í öðru lagi finnst mér að... Takið eftir að ég segi finnst mér, því allsekki er víst að allir séu mér sammála um þetta. Mér finnst nefnilega að í örsögum þurfi að vera eitthvað verulega óvænt. Það getur verið að hún sé mjög stutt eða mjög löng. Einnig má skipta frá veruleika í draumaheim eða handanheim hvenær sem er og láta venjuleg lögmál lönd og leið. Vitanlega má gera það sama í smásögum en mér finnst að þær geti sem best verið (og séu oftast) náttúrulegar (naturalískar) frá upphafi til enda en að það geti örsögur ekki verið. Í þriðja lagi finnst mér að höfundurinn eigi alfarið að ráða því hvort hann skrifar örsögu eða smásögu og öðrum komi það ekkert við hvora tegundina um er að ræða. Í fjórða og síðasta lagi ættu svo allir að éta skít. Hann er nefnilega hollur.

IMG 5536Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Einkum hér nú um ég hnýt,
að alveg sönn sé saga,
allir mikinn éti skít,
uppá Skipaskaga.

Þorsteinn Briem, 2.9.2020 kl. 12:21

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini étur Skagaskít.
Skýrist sýn við þetta.
Athuga ég alltaf hlýt.
"Er nú Steini að detta?"

Sæmundur Bjarnason, 2.9.2020 kl. 13:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband