2995 - Oft er mínum innri strák

Ég held , svei mér, að fésbókin sé í andarslitrunum. Kannski eru aðdáendur hennar samt nægilega margir til þess að hún geti starfað eitthvað áfram. Aftur á móti hlýtur fjölgunin samt að stöðvast núna. Sé ekki betur en þeir séu að gjörbreyta öllu, bara til þess að breyta. Yfileitt kann slíkt ekki góðri lukku að stýra. Hef ekki farið þangað oft að undanförnu, og ekki eykst áhugi minn við þetta. Það er samt skaði ef hún er að missa tökin, vegna þess að ekki er því að neita að hún hefur, á undanförnum árum, stórlega aukið áhuga almennings á internetinu. Sem samskiptamiðill er hún einnig óviðjafnanleg.

Ekki veit ég af hverju það er, en núna hljómar í sífelli fyrir mínum innri eyrum vísan:

Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og drottinn.

Kannski er það vegna þess að Tinna og Bjarni ásamt Áslaugu voru eitthvað að fjölyrða um trúmál í gærkvöldi og þar að auki tefldum við Bjarni eins skák sem Tinna skrifaði niður og endurskapaði á skáborðinu á eftir. Auðvitað tapaði ég þessari skák, en vel getur verið að þetta sé fyrsta skákin sem Tinna skrifar niður. Helena er í heimsókn. Benni og Angela komu með hana í gær og núna seinni partinn förum við til Hafnarfjarðar með hana. Meðal annars þessvegna komu Bjarni og Tinna líka í heimsókn í gærkvöldi. Skömmu áður fórum við með Helenu þangað, meðal annars til að sjá rauða húsið.

Annars var ég réttáðan að semja svolítið sögukríli. Kannski ég setji það bara hérna svo ég þurfi ekki að hafa af því áhyggjur meira. Þeir sem ekki vilja lesa þessar smá- eða örsögur, sem ég er öðru hvoru að demba yfir lesendur mína geta semsagt bara hætt hér.

Bókasafnið.

Það var undarlegt með þetta bókasafn. Þar var hægt að gera hvað sem maður vildi. Jafnvel að vera í fýlu. Enginn tók eftir því. Það með var orðið alveg marklaust að vera í fýlu. Einnig var hægt að hafa hátt þar. Maður gat öskrað eins og mann lysti. Enginn tók mark á því. Þar með var orðið alveg marklaust að öskra. Sömuleiðið var hægt að hlæja eins og vitleysingur. Enginn vildi fá að vita að hverju maður væri að hlæja. Það með var vitatilgangslaust að hlæja. Já, Þetta var stóreinkennilegt bókasafn. Þar voru engar bækur. Hvernig vissi maður þá að þetta var bókasafn? Nú, það stóð skrifað með stórum stöfum fyrir ofan innganginn. Þessvegna fór Jósep þar inn. Það olli honum að vísu nokkrum vonbrigðum að engar bækur var neinsstaðar að sjá. Hann einsetti sér að spurja um þetta við fyrsta tækifæri. Gallinn var bara sá að hann sá hvergi nokkurn mann sem líklegur væri til að vera starfsmaður þarna. Samt var þarna talsverður slæðingur af fólki. Allir virtust vera að leita að bókum eins og hann.

Þegar hann var orðinn úrkula vonar um að finna nokkrar bækur rakst hann skyndilega á litla bókahillu úti í horni. Í henni voru talsvert margar bækur. Hann fór og skoðaði þær. Svo undarlega vildi til að þarna var einmitt að finna þær bækur sem hann langaði mest til að lesa. Svo hann fór að lesa. Las og las þangað til ekki komst meira fyrir í heilanum á honum. Hann var nefnilega með einskonar ljósmyndaminni. Hann var að vísu með svolítið takmarkað pláss. Hann mundi út í hörgul hvað hann hafði lesið og á hvaða blaðsíðu þar var. Þurfi semsagt að setja það sem hann hafði lesið úr skammtímaminninu í langtímaminnið. Sá diskur hafði ótakmarkað pláss en ekki var hægt að setja úr skammtímaminniu á hann nema daginn eftir.

Hann fór nú að leita að útganginum en fann hann hvergi. Allt í einu birtist hurð sem virtist liggja að útganginum. Hann fór rakleiðis þangað og út um hurðina. Nú var hann staddur á engi. Það virtist vera endalaust og ná í allar áttir. Hann leit á bakvið sig og sá enga byggingu eins hann bjóst við að bókasafnið hlyti að vera í. Ekkert var þar að sjá nema endalaust engi. Þó grasið væri vel sprottið var hvergi nokkra skepnu að sjá. Heldur engar vélar til að slá engið. Hann ákvað nú að fara í þá átt sem honum þótti líklegast að byggð væri að finna. Hann gekk lengi lengi og koma að lokum að girðigu sem virtist vera umhverfis engið. En hinum megin við girðinguna virtist engið halda áfram út í það óendanlega. Hvernig gat staðið á þessu? Einhvern tilgang hlaut girðingin að hafa. Hann gekk nú lengi dags meðfram girðingunni en sá hvergi fyrir endann á henni eða að húna beygði nokkurntíma. Að lokum var hann orðinn svo þreyttur í fótunum að hann komst ekki lengra. Þá lagðist hann niður og fór að sofa.

Þegar hann vaknaði var allt með sömu ummerkjum og fyrr. Meira að segja hafði sólin ekki fært sig merkjanlega úr stað. Samt var hann allur endurnærður og til í að fara að ganga aftur meðfram girðingunni. Þá kom honum skyndilega í hug að sólin hafði ekki fært sig neitt úr stað á göngunni löngu daginn áður. Eða var kannski alltaf sami dagurinn þarna? Í því vaknaði hann og mundi allan drauminn en gat ekki með nokkru móti ráðið hann og var alveg búinn að gleyma hvað stóð í bókunum í litlu hillunni. Hann ákvað því í skyndi að gleyma draumnum með öllu sem fyrst. Þess vegna get ég ekki haldið áfram með söguna.

IMG 5546Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Títt við páfann teflir skák,
talsvert er þar streðið,
ekkert Sæma er hálfkák,
enn eitt fellur peðið.

Þorsteinn Briem, 28.8.2020 kl. 13:07

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini teflir stundum við
stóra páfann sjálfan.
Er hann Guðs við gullið hlið
glennir á sér bjálfann.

Sæmundur Bjarnason, 28.8.2020 kl. 13:37

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Margt er hér nú ferlegt flopp,
frjálshyggjunnar karla,
ekkert hjá þeim kemst á kopp,
kostulegt það harla.

Þorsteinn Briem, 28.8.2020 kl. 13:40

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Engu ræður Óli Björn,
úti hann á túni,
stafkarlinn þar steytir görn,
stútungskarlinn lúni.

Þorsteinn Briem, 28.8.2020 kl. 13:42

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gaman að sjá að þú ert ennþá lifandi, Sæmi minn! cool

Þorsteinn Briem, 28.8.2020 kl. 13:44

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini hérna stundar flopp
og stundum fer á koppinn.
Alltaf reynir húkka hopp
til heljar er nú sloppinn.

Sæmundur Bjarnason, 28.8.2020 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband