2993 - Maurar

Las í Fréttablaðinu áðan um árekstur þeirra skákmannanna Guðmundar Kjartanssonar og Héðins Steingrímssonar. Ekki virðist vera neitt um þetta mál á mbl.is og þessvegna er kannski ekki ástæða til að fjalla um það hér á Moggablogginu. Það er samt umhugsarvert að þetta er það sem vandaðir (sic) fjölmiðlar hafa mestan áhuga á núorðið í sambandi við skákina. Ekki er fyrir það að synja að almenningur tekur mikið mark á því sem stendur í blöðum eins og Fréttablaðinu og Morgunblaðinu. Skákin hefur að miklu leyti vikið úr fréttum á kostnað vinsælli íþrótta. Ef íþróttum eru gerð einhver skil í sjónvarpi koma blöðin á eftir. T.d. var NBA alls ekkert þekkt hér á landi fyrr en Stöð 2 fór að sýna leiki þaðan. Svipað má segja um Formúlu eitt og vafalaust fleiri íþróttagreinar.

Enginn vafi er á því að skák nýtur talsverðra vinsælda hér á landi. Einkum er það frá gamalli tíð, þegar Íslendingar stóðu sig vel í þeirri íþrótt. Vegna deilna og þess háttar í skákheiminum og vegna þess að ekki hefur verið gætt að því að gera skákina sjónvarpsvæna hefur hún þokað mikið úr almennum fréttum og færst yfir á Netið. Þetta verður síðan til þess að peningar (sem því miður stjórna flestu) hafa horfið úr skákinni. Sú tíð, að Slater ,auðmaðurinn breski, bjóðist til að tvöfalda verðlaunaféð í heimsmeistaraeinvíginu eina og sanna, sem haldið var í Reykjavík árið 1972 sællar minningar, kemur aldrei aftur.

Brauð og leikar sögðu Rómverjar til forna að þyrfti til að hafa pöpulinn rólegan og leiðitaman. Í nútímanum mætti ef til vill segja að hægt væri að nota orðin matur og fótbolti til að ná svipuðum áhrifum.

Las í gær bók eftir Svetozar Gligoric þar sem hann fjallaði um Fischer Random Skák, sem reyndar heitir víst eitthvað annað núna. Þessi bók er skrifuð og gefin út að ég held í kringum síðustu aldamót. Þó klukkurnar með incrementinu sem kenndar eru við Fischer hafi náð mikilli útbreiðslu er ekki það sama hægt að segja um random skákina sem hann fann eigilega upp ásamt mörgum öðrum. Segja má að hann hafi a.m.k. á vissan hátt fullkomnað það skákafbrigði og Gligoric og aðrir barist fyrir því að það yrði tekið upp. Skiljanlegt er að þeir skákmenn sem eytt hafa miklum tíma í að fullkomna byrjanir sínar séu ekkert ginkeyptir fyrir því að taka þetta afbrigði upp í stað hefðbundinnar skákar. Eiginlega má segja að þetta afbrigði (FRC) líkist það mikið venjulegri skák að vel megi stunda það við hliðina á hinni klassísku skák. Úr því sem komið er getur varla orðið úr því að það taki yfir.

Ég sagði áðan að mistekist hafi að gera skákina nægilega sjónvarpsvæna. Hana vantar hraðann og snerpuna. Golfíþróttin, sem allsekki er sjónvarpsvæn í sjálfu sér, er orðin það núna fyrst og fremst vegna framfara í sjónvarpstækni, þó ég skilji allsekki hvað áhorfendur eru að gera á golfmótum. Kannski eru þeir bara að horfa á þessa frægu menn, sem bara eru frægir fyrir það hve margir vilja horfa á þá. Þar að auki er golfíþróttin mikið stunduð í heiminum. Sumir vilja halda því fram að skákin sé hinsvegar dauð. Eiginlega er hún það hvað útbreidda fjölmiðla snertir. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún nái sínum fyrri vinsældum aftur. Ég man vel þá tíð að skákfréttir voru forsíðuefni blaða. A.m.k. var svo hér á landi þegar Friðrik Ólafsson var og hét.

Á Amazon eru margar bækur um maura og að undanförnu hef ég verið að kynna mér þær svolítið. Ekki er því að neita að háttalag þeirra og iðni er mjög athyglisverð. Ekki er ég þó að mæla með því að menn fari almennt að kynna sér maurafræði. Margt er þar samt sem hægt væri að taka sér til fyrirmyndar. T.d. er lítill vafi á því að einstaklinshyggja fyrirfinnst ekki hjá þeim. Ef mannkynið deyr einhverntíma út, sem það auðvitað gerir áður en yfir lýkur, væru maurarnir vísir til að taka við. Til þess þyrfti þó einhver ættbálkur þeirra að ná völdum á kostnað annarra. Kannski yrðu heimsstyrjaldir ekkert sjaldgæfari þó svo yrði.

IMG 5560Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæmi karlinn sjónvarpsvænn,
sína telur aura,
í sumar varð hann vinstri grænn,
veit því margt um maura.

Þorsteinn Briem, 14.8.2020 kl. 09:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Af standpínunni stoltur mjög
er Steini Briem á kvöldin.
Steini hinn ´ann les vist lög
og langar mest í völdin.

Sæmundur Bjarnason, 15.8.2020 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband