2992 - Fuglar himinsins

Í baráttunni við Covid-19 veiruna legg ég til að knattspyrnu allri verði hætt með öllu. Öruggt er að þessu verður ekki farið eftir. Ríkisstjórnin og margir fleiri líta svo á að fótbolti sé mikilvægari en flest annað. Til vara legg ég til að túristaveiðar verði bannaðar. Þetta hefur þegar verið gert að nokkru og reynt er að gera ferðamönnum og allri túrhestaútgerð eins erfitt fyrir og mögulegt er. Til þrautavara, eins og lögfræðingar og dómarar segja, legg ég til að kindakjötsframleiðsla verði með öllu aflögð. Þetta væri hægt að gera með því að steinhætta að semja við þessa fáu bændur sem enn stunda þessa frístundaskemmtun. Útrýma þarf þeim alveg. Væntanlega eru þeir sárafáir sem stunda knattspyrnu og fást við túristaveiðar og kindakjötsframleiðslu jafnframt. Þessvegna ætti þetta að vera útlátalítið fyrir ríkisstjórnina.

Eiginlega finnst mér ekki hægt að fjalla um Covid-19 veiruna nema í svolitlum hálfkæringi og ég vona að engir taki þetta alvarlega. Vitanlega væri hægt að fjalla um þær efnahagslegu tillögur sem komið hafa fram á venjulegan rifrildislegan pólitískan hátt, en mér finnst ekki að slíkt eigi að gera í þessu tilfelli. Frekar ætti að reyna að auka samstarfið og samstöðuna eins og Víðir segir. Allt mitt vit um sóttvarnir hef ég úr hinum daglegu fréttaþáttum þríeykisins. Sumar gerðir sem farið hefur verið í mætti kannski gagnrýna, en það hefur aldrei gefist vel að skipta um hest í miðri á.

Um daginn var ég andvaka og kíkti á hve marga ég hefði fengið inná mitt blogg eftir miðnætti. Þeir voru 5. Nokkru seinna eftir að hafa bloggað um stund gáði ég aftur. Þá voru þeir 8. Sennilega hafa þá verið þrír andvaka eins og ég. Svo setti ég bloggið upp og athugaði enn og aftur. Þá voru þeir 13 eða 36 man ekki hvort. Svo fór ég í morgungönguna mína og var í henni næstum klukkutíma. (Að henni lokinni voru þeir sennilega 36) Um hádegið voru þeir orðnir 126. Þessar tölur hef ég skrifað á blað allar saman. Síðan hætti ég þessari naflaskoðun, þetta sýnir að nokkuð vinsælt, á minn mælikvarða, hefur þetta blogg verið.

Á morgungöngum mínum hef ég þráfaldlega orðið var við tvennskonar fuglahópa. Stundum blandast þeir saman og virðist vera ágætis samkomulag með þeim. Einhverskonar smádýr eða korn virðast þeir kroppa úr grasinu. Þegar þeir flúja upp halda tegundirnar saman. Þ.e. þó samkomulagið og samstarfið á jörðu niðri sé gott hópast tegundirar saman í flugi og stærð þeirra og flughæfni er líka ólík. Þeir stærri eru greinilega tjaldar, þó mér hafi í fyrstu fundist þeir full-litlir til þess. Ungfuglar hafa þetta sennilega verið og ég hef aldrei séð svona stóra hópa af þeim hér áður. Kannski hefur varpið bara tekist vel hjá þeim. Þeir minni eru sennilega starrar þó ég hafi ekki sýnst þeir vera með rauðan gogg. Það er samt ekki að marka því ég sé svo illa. Mávarnir hafa sennilega öðrum hnöppum að hneppa því þeir eru heldur fáir og krían er hugsanlega farin. A.m.k. sé ég ekkert af henni. Hrafna sé ég ekki heldur. Þá eru upptaldir þeir fuglar sem mikið er af hér um slóðir.

Fór áðan í morgungöngu þrátt fyrir rok og rigningu og segi kannski frá því í næsta bloggi og því sem ég hef verið að lesa að undanförnu.

IMG 5566Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ertu viss um að það séu ekki fuglaskammirnar sem bera vírusinn út um allt? Það kæmi mér ekki á óvart að fljótlega birtist frétt um að þessu hafi menn komist að á Akureyri, og krefjist banns við lausagöngu fugla, rétt eins og katta, húsflugna og utanbæjarmanna, að ekki sé talað um að loka höfninni fyrir tröllauknum og mjög hávaðasömum túbum í dulargervi seglbáta.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.8.2020 kl. 09:40

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Uppá Skaga furðufugl,
en fáséð er þar lóa,
sorglegt allt er Sæma rugl,
sýnist mörgum spóa.

Þorsteinn Briem, 13.8.2020 kl. 13:55

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Siglaugsson það verður ekki á Akureyringa logið. Lagnir eru þeir við að koma sér í almennar fréttir. Hef sjálfur orðið þar var við lausagöngu fugla og almenn undarlegheit. Vindgnauð og margt fleira.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2020 kl. 05:23

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Spóinn Steini spókar sig
spekingslegur varla.
Yrkir hann um auman mig
og undarlega karla.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2020 kl. 05:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband