2988 - Kanarí-Hundaeyjar segja sumir

Öllu mögulegu er nú frestað eða það fellt niður vegna Covid-19. Ekki sýnist mér að ég fari á mis við neitt þó svo sé gert. Kannski ber það þess vott að ég eða réttara sagt við hjónin förum ekki margt og skemmtum okkur lítið. Samt er þessi veira hundleiðinleg. Allt er gert til að létta ferðaiðnaðinum róðurinn. Og er það e.t.v. að vonum. Þessvegna kemur það svolítið á óvart að innan við 10 hafa sótt um lán hjá Ferðaábyrgðasjóði eftir því sem sagt er í Fréttablaðinu. Kannski er þetta vegna þess að stjórnvöld hafa gætt þess að hafa þessi lán ekki mjög aðgengileg. Hinn möguleikinn er sá að ferðamannaiðnaðurinn eða lundaveislan sé ekki eins illa á vegi stödd og stundum er látið í veðri vaka. Hugsanlega er ástæðan blanda af þessu og mörgu öðru.

Eitt er það sem ég ætti hugsanlega að gera meira af. Það er að lúslesa mbl.is, linka í það og leggja eitthvað útaf því í blogginu minu. Þetta gera sumir og þó ég hafi eitt sinn stundað það að linka í fréttir á mbl.is sótti ég mér aldrei hugmyndir þangað. Reyndi frekar að finna eitthvað sem passaði sæmilega við eitthvað af því sem ég skrifaði. Úr því að ég er að blogga á Moggablogginu á annað borð, væri kannski réttast að sækja sér hugmyndir þangað og leggja útaf ýmsu sem þar er sagt. T.d. til þess að sýnast voða gáfaður eða að reyna að vera ógeðslega fyndinn með því að vera nógu orðljótur og klámfenginn. „Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð“, var einu sinni sagt. Vel getur verið að með því mætti auka vinsældir míns bloggs, en svo er líka á það að líta að vel er hugsanlegt að ávinningur af auknum vinsældum sé enginn.

Í Covid-19 fréttum er það einna helst að stjórnvöld á Kanaríeyjum hafa lýst því yfir að allir túristar þar verði tryggðir fyrir kostnaði vegna veirusýkingarinnar Covid-19. Ekki held ég að þeir sem drepast úr þessari veiki fái lífið aftur, en allan kostnað vegna þessa ættu þeir að geta fengið endurgreiddan. Kanaríeyjar, Gran Canary, Tenerife og fleiri eyjar, eru hluti af Spáni og ferðamálayfirvöld þar eru afskaplega ósátt við þá ákvörðum Breta að setja alla sem þaðan koma í tveggja vikna sóttkví. Hvernig gengur að fá þennan kostnað endurgreiddan á Kanaríeyjum veit ég ekkert um. Tryggingarskilmálarnir eru vafalaust flóknir.

IMG 5708Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mikið sukk og svínarí,
Sæma uppá Skaga,
ef karlinn fer til Kanarí,
kannski má það laga.

Þorsteinn Briem, 6.8.2020 kl. 10:44

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Kanaríeyjar eru ídeal fyrir mörlenska "hillbillies", til að mynda Miðflokkinn. cool

Öðru máli gegnir um gamlar evrópskar borgir, til dæmis Rúðu í Frans, og hvergi í heiminum hefur undirritaður verið í skemmtilegra og menningarlegra brúðkaupi en þegar þar voru gefin saman franskur vinur minn og stelpa frá Akranesi.

Brúðkaupsveislan endaði með systur brúðarinnar og bróður brúðgumans undir langborðinu en faðir brúðarinnar ráfaði um, sauðdrukkinn, og kvikmyndaði öll herlegheitin. cool

Þorsteinn Briem, 6.8.2020 kl. 12:31

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Lagar Steini eflaust allt
engu þarf að kvíða.
Fær sér bara meira malt
því mjög leiðist að bíða.

Sæmundur Bjarnason, 6.8.2020 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband