2985 - Vangaveltur

Með hnitmiðaðri líkamsrækt má koma í veg fyrir hrönun líkamans. Ef vinnan þjálfar flesta vöðva líkamans þarf kannski lítið á því að halda. Þetta með líkamsræktina er hugsanlegt að flestir viti og þetta sé síst af öllu frumlegt og nýtt. Þó er það aldrei að vita. Fólk sem ekki veit þetta t.d. gæti vel vitað ýmislegt sem besservisserar eins og ég hafa ekki hugmynd um. Aldrei er hægt að vita með vissu hvað næsti maður veit eða hugsar. Stundum segja þeir minnst sem vita mest. Þó er allsekki hægt að ganga úr frá því. Sem betur fer er lífið talsvert flókið. Tæknin er ekki komin á það stig að tölvur geti lesið hugsanir fólks, hvað sem verður einhverntíma í framtíðinni. Nóg er samt að þær virðast vel geta fylgst með öllu sem við gerum eða segjum.

Eiginlega ætlaði ég að leggja á minnið mánuðina sem kórónuveiran herjaði á okkur. Ekki man ég þetta svo glöggt en finnst samt að mars, april og maí hafi verið undirlagðir af þessum ósköpum. Júní og júli hafi verið að mestu eðlilegir, en hinsvegar sæki hugsanlega í gamla farið aftur núna í ágúst. Að sumu leyti fyllist ég einhverri tegund af Þórðargleði yfir því að veðurspáin skuli vera slæm núna fyrir Verslunarmannahelgina. Áslaug ætlar held ég að opna málverkasýninguna þrátt fyrir allt núna um næstu helgi. Allir fjölmiðlar eru fullir af því að hér á Akranesi sé komin upp hópsmitun, en af einhverjum ástæðum get ég ekki fallist á það. Seinni bylgja farsóttarinnar er af mörgum talin vera að hefjast núna en ég er ekki þeirrar skoðunar samt sem áður.

Að allar fréttir og alltsaman skuli vera á þennan hátt undirlagðar af kórónuveirufréttum finnst mér vera til marks um að við Íslendingar séum að ná betri tökum á þessari veiruskömm en flestir aðrir. Maður ætti eiginlega að reyna að skrifa um eitthvað annað. En það er erfitt. Efnahagslegar afleiðingar þessa faraldurs eru seinni tíma mál, en munu samt verða mjög alvarlegar.

Ekki virðist það bera þann árangur að fleiri lesi bloggið mitt en áður, að ég skrifi meira um sjálfan mig og að þetta verði á þann hátt dagbókarlegra. Mér er reyndar alveg sama. Vinsældir eru ekki það sem ég sækist eftir. Finnst ekki að ég ætti að takmarka það hverjir geta lesið þetta. Allir eiga að geta það. Finnst mér allavega. Sjálfur les ég og skoða allan fjárann, læka samt fátt á fésbókinni þó ég skoði margt þar. Að mörgu leyti er ég fastur í fortíðinni, enda gamall nokkuð. Skyldu nokkrir lesa þetta eftir að ég er kominn undir græna torfu? Ég efast um það.

IMG 5723Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lofsverð öll sú líkamsrækt,
í lokrekkjunni bylgja,
og andans Sæma um fátækt,
enginn má nú dylgja.

Þorsteinn Briem, 29.7.2020 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband