2967 - Lætin í USA

Sú reiði og sá uppreisnarhugur sem tröllriðið hefur Bandaríkjunum að undanförnu, er á flestan hátt afar skiljanlegur. Rasismi er þar landlægur og ekki hefur framkoma forsetans þar bætt ástandið. Vissulega hefur hann stuðlað að og reynt að auka þá gjá sem þar er á milli ríkra og snauðra. Einnig er þar mikill munur á milli hvítra og svartra. Svörtum í óhag. Í stað þess að leitast við að breiða yfir þessa gjá og sætta fólk, hefur Trump forseti leitast við að ala á sundrungu og dregið á alla hátt taum þeirra ríku og hvítu. Hvort um einhverja endingargóða lausn verður að ræða að þessu sinni er alveg óvíst. Einhverntíma hlýtur samt þessu ástandi að ljúka og ekki er gott að segja hvort Demókratar eða Repúblikanar græði meira á þessu.

Að bæði kórónuveiran og þessar óeirðir skuli eiga sér stað á kosningaári er til þess fallið að gera kosningarnar í Bandaríkjunum í haust enn meira spennandi en ella. Ef skoðanakannanir sýna Trump forseta fara halloka þegar nær líður kosningum, má búast við hverju sem er af honum. Hann mun einskis svífast til að reyna að halda völdum. Greinilega er hann eina von Repúblikanaflokksins og ekki er við því að búast að hann fái neitt marktækt mótframboð þar. Á sama hátt og forkosningar beggja flokkanna eru að mestu leyti búnar að vera lausar við alla spennu, má búast við að kosningarnar sjálfar í byrjun nóvember verði afar spennandi. Biden er kannski ekki sá sem vinstri menn hefðu óskað sér, en margt bendir samt til að þeir muni styðja hann. Gleymum því ekki að bandaríkjamenn eru jafnan fremur hægrisinnaðir samaborið við evrópubúa.  

Vel getur farið svo að ferðalög með flugvélum verði það sem mest breytist á næstunni. Hætt er við að það að vera lokaður inni í járnröri í marga klukkutíma höfði ekki til margra.. Búast má við að sumarleyfisferðlög verði mjög flókin í nánustu framtíð og þar að auki miklu dýrari en þau hafa verið. Flugfélög munu varla geta þjappað flugfarþegum eins mikið saman og gert hefur verið. Allskyns sóttvarnarbúnaður og þessháttar verður nauðsylegur í flugvélum o.s.frv.

Annars veit enginn með neinni vissu hvernig ferðalög muni þróast á næstunni ef kórónuveiran sleppir því kverkataki sem hún hefur haft á heimsbyggðinni. Kannski fer allt fljótlega í sama far og áður var og kannski minnkar flugumferð verulega. Loftslagsváin mun eflaust ógna flugfélögunum meira en mörgum örðum. Hvernig mengunvörnum verður viðkomið þar er allsekki ljóst. Kannski förum við meira og minna að ferðast með skipum aftur.

Líkur eru til að við Íslendingar munum ekki fljúga mikið í sumar. Flestir fara eflaust eftir ráðleggingum Þórólfs sóttvarnalæknis og ferðast innanlands í sumar ef þeir ferðast þá nokkuð. Unanlandsferðum kann að fækka verulega. Ekki er einu sinni öruggt að allt verði komið í lag næsta sumar.

IMG 5810Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Geysi svartsýnn gamall kall,
gapir uppá Skaga,
svakalegt það svartagall,
svarkur alla daga.

Þorsteinn Briem, 3.6.2020 kl. 09:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Aldur minn er ekkert grín
öllum leiði Steini.
Bölsót þitt og bræðin þín,
brátt þér verða að meini.

Sæmundur Bjarnason, 3.6.2020 kl. 10:48

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Rasismi er þar landlægur..."

Með öðrum orðum: Ranghugmyndir eru þar landlægar.

"Kynþættir" eru nefninlega ekki raunverulegt fyrirbæri.

Allt mannfólk er af sömu dýrategund.

Engin vísindi styðja aðra ályktun.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.6.2020 kl. 22:03

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hugtakið rasismi vísar til þess að til séu mismunandi kynþættir. En það hefur aldrei tekist almennilega að sýna fram á þetta. Kannski er kominn tími til að finna nýtt hugtak sem lýsir því betur sem yfirleitt er átt við. Það sem við köllum yfirleitt rasisma er í sjálfu sér ekkert annað en fordómar gagnvart þeim sem eru með einhverjum hætti öðruvísi og liggur í tilhneigingu manna til að skipa sér í hópa, hvort sem þeir hópar eru ættir, þorpsbúar, landsmenn, menninga- eða trúarhópar og þar fram eftir götunum.

Þorsteinn Siglaugsson, 4.6.2020 kl. 20:58

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það þarf ekkert að finna upp ný hugtök yfir fordóma og hatur, þessi hugtök eru rótgróin og ná alveg utan um þetta.

Sú málfarsmengun sem felst í því að nota enskuslettuna "rasismi" yfir hatur á einhverju ímynduðu sem er ekki til í raunveruleikanum, er orðin svo útbreidd að hún er farin að smitast yfir á allskonar aðra hluti sem eru raunverulegir. Sem dæmi hef ég að undanförnu orðið vitni að því að menn hafi verið úthrópaðir sem "rasistar" fyrir að tjá skoðanir sínar á íslam sem eru trúarbrögð en ekki "kynþáttur", eða útlendingum en þjóðerni er ekki það sama og "kynþáttur" og jafnvel þó við myndum kaupa þá hugmynd að kynþættir séu til þá eru langflestir útlendingar á Íslandi álíka hvítir á hörund eins og fyrstu landnámsmennirnir voru.

Hvað næst? Getur maður átt á hættu að vera úthrópaður með gervihugtakinu "rasisti" fyrir að tjá skoðanir sínar á kvenfólki? Eru konur þá orðnar sérstakur kynþáttur? Eða ef ég dirfist að kalla velmegandi miðaldra íslenska samkynhneigða karlmenn með áhuga á húsgagnahönnun "epalhomma" í saklausu gríni? Hvort eru það þá hommarnir orðnir sérstakur kynþáttur, eða fólk sem hefur áhuga á húsgagnahönnun, eða kannski bæði?

Þetta er augljóslega komið út í tóma vitleysu.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.6.2020 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband