2968 - Hægri og vinstri

Segway-hjólin svonefndu náðu ekki mikilli útbreiðslu, þrátt fyrir mikla fjölmiðaumfjöllun. Aftur á móti virðast rafknúnu hlaupahjólin ætla að gera það. A.m.k. hér á Íslandi. Kannski eru það einhvers konar einkaleyfi og verð sem ráða þessu. Ég er bara ekki kunnugur því. Ef þessi hlaupahjól ásamt reiðhjólum (hugsanlega rafknúnum) verða ráðandi á göngustígum og gangstéttum í nánustu framtíð gæti farið að verða hættulegt fyrir gangandi fólk (svo ég tali nú ekki um gamalt) að ferðast þar.

Einhver hélt því fram nýlega. Gott ef það var ekki sjálfur Franklín forsetaframbjóðandi (hvað eru mörg f í því?). Að 80% þjóðarinnar hafi verið fylgjandi orkupakkavitleysunni samkvæmt einhverri skoðanakönnum þó aðeins rúmlega 7 þúsund hafi verið tilbúin til að skrifa undir áskorun til forseta Íslands um að setja lög, sem um þennan orkupakka fjölluðu, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefði gaman af að fá að vita meira um þá skoðanakönnun. Já, ég er að hugsa um að kjósa Guðna og á ekki von á að einhver lesanda minna vilji eða geti svarað þessu.

Í mínum huga er aðalmunurinn á hægri og vinstri mismunandi skoðanir á því hve mikil eða lítil  ríkisafskipti eigi að vera. Þessi skipting getur stundum verið til góðs, þó hún sé um margt úrelt. Afstaðan til ESB, heimshlýnunar, rasisma og margs annars getur verið mismunandi óháð þessari skiptingu og auðvitað margt annað. Einnig getur skipt miklu í hvaða átt þróun virðist stefna. Um þetta get ég ekki mikið fullyrt því ég ákvað fyrir löngu að skipta mér sem minnst af stjórnmálum. Við þetta tel ég mig hafa staðið að mestu leyti.

Þó Moggabloggið birti bæði blogg eftir Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson er blogg þeirra ekki að finna í tölulegum upplýsingum Moggabloggsins. Ekki veit ég hvers vegna þetta er, en hef þá báða grunaðu um að vilja hafa þetta svona.

Ekkert heyrist frá Icelandair þessa dagana og er það dálítið skrítið miðað við þau læti sem þar voru til skamms tíma. Einhverjir koma til með að tapa verulegum peningum þar. Hvort það verða lífeyrissjóðirnir, starfsfólkið eða félagið sjálft liggur allsekki fyrir. Fréttastofur einbeita sér að fréttum um væntanlega skimun ferðalanga sem vissulega er flókið mál og fréttnæmt en fyrr má nú rota en dauðrota. Gott væri að vita hvernig allir þessir túristar verða fluttir til landsins ef engar flugvélar lenda á Keflavíkurflugvelli.

IMG 5809Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hjólastelpur hræddur við,
hættulegt er víða,
Sæma engin gefin grið,
graðhestunum ríða.

Þorsteinn Briem, 4.6.2020 kl. 16:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini sína stendur plikt
stökur góðar bíða.
Vísna stundar vonlaust fikt
það veldur honum kvíða.

Sæmundur Bjarnason, 5.6.2020 kl. 06:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband