2963 - Svandís og Kári

Svandís Svavarsdóttir ráðherra er á móti öllum einkarekstri í heilbrigðisgeiranum og hefur líklega ætlað sér að kenna Kára Stefánssyni og Íslenskri Erfðagreiningu lexíu í síðasta skemmtiþættinum hjá Víði, Þórólfi og Ölmu, sem hún fékk óvænt að taka þátt í.

Þetta gerði hún með því að minnast ekki á hann í þakkarræðu sinni og vekja þannig upp villidýrið í honum. Einnig sagðist hún reikna með því að hann og fyrirtæki hans hjálpaði til við skimunina sem áformað er að fara í án þess að tala við hann. Þannig mistókst henni hrapallega að kenna honum og þetta gæti jafnvel kostað hana vinnuna.

Ekki eykur hún vinsældir ríkisstjórnarinnar með þessu, en þríeykið blómstrar sem aldrei fyrr. Kári fór næstum því framúr sjálfum sér í kastljósþætti gærkvöldsins með því að neita með öllu að taka þátt í opnuninni á Keflavíkurflugvelli eða undirbúningi að því verkefni.

Íslenska sjónvarpið er á góðri leið með að leggja sjálft sig undir íþróttirnar aftur. Að viðhalda íþróttaþætti í fréttunum án þess að nokkrar íþróttir væri eiginlega um að ræða er sennilega einhvers konar met. Að sýna líka eldgamla íþróttakappleiki sem einu sinni voru í beinni útsendingu er ekkert annað en hrein snilld. Kannski hafa einhver íþróttafrík horft á þetta. Mest er ég hissa á að þetta efni skuli hafa verið geymt. Jæja, vídeóspólur eru víst orðnar svo ódýrar núna.

Alveg á eftir að sjá hve margir túristar láta sig hafa það að koma til Íslands að veirufaraldrinum loknum. Einhverjum verður sjálfsagt orðið svo brátt í brók að komast í flugferð að hugsanlega fær BB að blæða svona 50 til 60 milljónum á dag í tóma vitleysu. Áreiðanlega veifa flestir flugfarþegar einhverjum vottorðum við komuna, en vonandi verður ekkert mark tekið á slíkum pappírum.

Spacex Drekinn sem átti að fara með tvo geimfara í alþjóðlegu geimstöðina komst ekki á loft í gærkvöldi eins og til stóð. Reynt verður aftur á laugardaginn. Kannski að nú sé að renna upp nýtt skeið geimferða sem gaman verður að fylgjast með. Tunglferðirnar eru orðnar að svolítið gömlum sögum, þó ég muni vel eftir þeim. Kannski ég sé að verða gamall sjálfur. Ehemm.

IMG 5887Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sæma er hér moð og maus,
við marga fjöl er felldur,
mikið karlsins raup og raus,
reykur en enginn eldur.

Þorsteinn Briem, 28.5.2020 kl. 09:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Alltaf Steini ýfir sig
út um grundir þýtur.
Mælir bæði mig og þig
marga skeinu hlýtur.

Sæmundur Bjarnason, 28.5.2020 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband