2958 - Fésbókarvinir

Veirufaraldurinn er í lágmarki hér á Íslandi um þessar mundir. Réttast er aðvitað að reyna að notfæra sér það með einhverjum hætti. Verðbólgan gæti látið á sér kræla fljótlega og þá er best að vera búinn að eyða sínum peningum, ef einhverjir eru. Aldrei slíku vant er það kostur frekar en hitt að vera orðinn ellibelgur. Flugfélög og þessháttar óþarfi getur alveg farið á hausinn mín vegna. Atvinnuleysið sem af því gæti hlotist er þó vandamál. Miðað við erlenda umfjöllun er svo að skilja að andlitsgrímur eða andlitsgrímur ekki meðal almennings séu aðalatriðið í vírusvörnum. Eftir því sem Þórólfur segir skipta þær litlu og veita oft einungis falskt öryggi. Auk þess má segja að þær séu oftast illa gerðar og vitlaust notaðar. Mín skoðun er sú að margt eigi eftir að gerast í veirumálum meðal annars hér á Íslandi og þessvegna sé best að vera við öllu búinn. Veiran kemur aftur.

Faraldursfræðilega séð er veiruástandið í Bandaríkjunum ekki gott. Mest er það vegna þess að viðbrögð öll hafa þar orðið að pólitísku bitbeini. Þannig er það víða í heiminum. Þar sem viðbrögðin við kórónuveirunni hafa orðið stjórnmálunum að bráð hefur víða gengið illa að hemja útbreiðsluna. Í Bandaríkjunum eru það ríkisstjórarnir, sem eiga í orði kveðnu að ráða flestu sem þetta snertir, en alríkisstjórnin og Tromparinn sjálfur ráða að sjálfsögðu heilmiklu. Öll framkvæmd þessara mála er miklu flóknari hjá stórþjóðum en hjá þeim sem minni eru. Sennilega er það eitt það besta sem þessi ríkisstjórn okkar hefur gert, að láta þríeykið stjórna þessum veiruvörnum alfarið, en efnahagslegar afleiðingar eru á ríkisstjórnarinnar könnu og þar er rifist. Meðfærileiki og einsleitni þjóðarinnar hefur líka ráðið miklu.

Hjólafólkið er hættulegt. Fyrir okkur gamlingjana það er að segja. Sé skikkanlegum hraða haldið þarf það þó alls ekki svo að vera. Breidd gangstíga skiptir máli. Sömuleiðis veðrið. Allt skiptir máli. Bílaumferð á götum er einnig víða orðin svo mikil að til vandræða horfir. Um þetta mætti fjölyrða endalaust. Erum við lítil bílaþjóð í stóru landi?

Fésbókarvinir mínir eru alltof margir. Næstum þúsund. Hef ekkert við allt þetta að gera. Á tímabili sendi ég vinabeiðnir út um allt þar, en sé eftir því núna. Á örðu tímabili fékk ég heilmikið af vinabeiðnum frá útlendingum sem ég þekkt ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef þeir höfðu marga sameiginlega vini með mér og ég kannaðist við þá vini, samþykkti ég þessa nýliða. Vandasamt er að hætta vinskap, þó eru alltaf sumir að hóta því. Má maður ekki skoða árans bókina þó maður læki lítið sem ekkert og forðist þátttöku í umræðum? Oft eru þær ekki sérlega markverðar.

IMG 5913Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Suðurnesja vol og víl,
versnar dag frá degi,
frú ei hlær í betri bíl,
bóta margur þegi.

Þorsteinn Briem, 15.5.2020 kl. 13:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Margur er með vol og víl
vart er því að leyna.
En frúin hlær í betri bil
frá bílasölu Steina.

Sæmundur Bjarnason, 15.5.2020 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband