2926 - Ástin á tímum kólerunnar

Ég ætla að reyna að minnast ekki á Covin-19 veiruna eða nokkuð sem henni tengist. Ég veit að það verður erfitt og ég er viss um að einhverjir eru búnir að fá leið á slíkri umfjöllun og kannski eru ekki margir vinklar eftir sem vert væri að fjalla um. Vissulega verður þetta erfitt, en það má alltaf reyna. Sæmilega gekk þó að sneiða hjá farsóttarsögum í síðasta bloggi, þó það væri uppsett á sjálfan föstudaginn sem var hjá sumum a.m.k. aðaldagurinn.

Fésbókin heldur sínu striki og ekki er nein sérstök ástæða til að finna að því. Ef ekki væri fyrir hana og Netið yfirleitt væri sú sóttkví og sjúkdómahræðsla sem kvelur marga mun alvarlegri. Nú er strax farinn að koma dálítill vírus-svipur á þetta blogg svo sennilega væri betra að tala um eitthvað annað. Af nógu er að taka því lífið heldur áfram, hjá flestum a.m.k.

Stundum er ekki hægt að segja að tilteknar vísur taki sér bólfestu í hug mér. Það geta alveg eins verið bókarheiti. „Ástin á tímum kólerunnar“ minnir mig að bók ein eftir frægan útlending heiti. Gabríel Markes (sennilega röng stafsetning) minnir mig að höfundurinn heiti (eða hafi heitið). Ekki þarf að geta sér til hversvegna mér komi þetta í hug. Nú er ég farinn að nálgast Covid-19 óþægilega.

Á þessu bloggi var a.m.k. byrjað á alþjólega pi-deginum. Eins og allir hljóta að vita er hann að sjálfsögðu 14. mars. Af hverju 14. mars? Nú, auðvitað vegna þess að mars er þriðji mánuðurinn í árinu (a.m.k. hér á Vesturlöndum) og 3,14 er nokkurnvegin það sama og pi. Annars er líklega ekki rétt að fjölyrða mikið um það vegna þess að sá dagur er fullnærri föstudeginum þeim þrettánda

Stundum er talað um brandajól eða litlu brandajól og stórubrandajól. Nákvæm merking þessara orða er nokkuð á reiki. Í mínu ungdæmi, sem var um miðja síðustu öld, var oft minnst á „Stóru Brandajól“. Önnur brandajól minnist ég ekki að hafa heyrt um. En hvenær voru þessi stóru brandajól? Ég þykist muna eftir að það væri talið vera þegar aðfangadagur jóla væri á fimmtudegi. Á þessum degi voru jólin tvíheilög sem kallað var. Þ.e.a.s. ekki var þriðji í jólum álitinn neinn sérstakur helgidagur. Aðfangadagur var það eiginlega ekki heldur. T.d. var unnið næstum allsstaðar fram að hádegi þann dag og að því leyti var hann eins og venjulegur laugardagur. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur fjallað á mjög ítarlegan hátt um þetta mál í Almanaki þjóðvinafélagsins (eða Háskólans).

IMG 6256Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband