2919 - Þú verður að vera í skóm í vinnunni

Held ég hafi einhverntíma sagt það í þessu bloggi að mitt aðaláhugamál nú um stundir séu bandarísk stjórnmál. Fyrirsagnirnar á msn.com lít ég yfirleitt á og netflakkið þar á eftir er ákaflega tilviljanakennt. Músarholusjónarmiðin sem fram koma í íslenskri stjórnmálabaráttu og fjölmiðlum sem um þau fjalla eru mér lítt að skapi, þó er íslenskt mál mér talsvert áhugamál. Hvorugu þessu sinni ég eins og vert væri enda er ég introvert og líður best í einrúmi.

Hvað um það. Greinilegt er á öllu að í bandarískum stjórnmálum er Bernie Sanders að ganga í endurnýjun lífdaga þó gamall sé. Hingað til hef ég verið hallari undir Elizabeth Warren en það er hugsanlega að breytast. Líklega er hún í þann veginn að tapa fyrir Sanders þó hún sé vissulega vinstri sinnuð líka. Demokrataflokkurinn mun þurfa að ákveða á næstunni hvort miðjustefna eða vinstri stefna er vænlegri til að sigra Trump. Hingað til hefur vinstri sinnuð stefna ekki verið vænleg til árangurs í Bandaríkjunum. Sjálfur man ég vel eftir Georg McGovern. Hann reyndist alltof vinstrisinnaður fyrir Bandaríkjamenn. Ef Sanders sigrar í forkosningunum, má búast við átakamiklum kosningum í haust. Bandarískt þjóðlíf er allsekki einsog það var á dögum McGoverns.

Það eru einkum þrjú mál sem fylgismenn Sanders benda á. Þau eru: 1) Ójöfn tekjuskipting, 2) Dýrt og óréttlátt heilbrigðiskerfi og 3) Loftslagsmál. Um öll þessi mál má margt segja og verður vafalaust gert á næstunni. Hin íhaldssama stefna sem Trump hefur starfað eftir getur leitt til mikillar einangrunarstefnu og veikt varanlega trú manna á forystu Bandaríkjanna í mörgum málum, en einkum þó í hernaðar- og öryggismálum.

Annars eru alheimsstjórnmál svo margflókin nú á dögum deyjandi kommúnisma að fáum eða jafnvel engum er ætlandi að hafa þann skilning sem til þarf á þeim málum. Að því leyti má segja að stjórnmál nútímans líkist trúmálum æ meira.

Eitthvað minnir mig að ég hafi verið ásamt einhverjum öðrum að ræða um sokka, Alþingi og Bjarna Benediktsson fyrir nokkru. Nú sé ég að Björn Leví hefur skrifað í Moggann grein sem hann nefnir „Þú verður að vera í skóm í vinnunni“. Gallinn við Moggasnepilinn er að hann er seldur og ég get ekki fengið mig til þess að vera áskrifandi að honum. Í framhaldi af spekúlasjónum varðandi fótabúnað Björns Leví hefði mig alveg langað til að lesa þessa grein en get það sennilega ekki. Þó hef ég kosið Píratana frá því ég fékk tækifæri til þess og mun sennilega halda því áfram þrátt fyrir þetta. Ekki geri ég ráð fyrir að Björn Leví leggist svo lágt að lesa þetta blogg og þessvegna er þetta jarm alveg marklaust hjá mér. Ekki finnst mér ég geta gengið lengra en að hafa fyrirsögnina um þetta.

IMG 6307Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bjössi Leví leiðan lóm
lemur daga alla
Í vinnu vill ei vera í skóm
"ef vinnu skyldi kalla" *

*Brynjar Nielsen hafði uppi efasemdir um málatilbúnað minnihlutans.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.2.2020 kl. 16:03

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Að yrkja um fótabúnað einhvers höfðar ekki til mín.

Stjörnumerking þin og athugasemdir um minni- og meirihluta finnst mér ekki koma málinu við.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2020 kl. 18:44

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Vísan er ágæt, en bloggari er greinilega í vondu skapi.

Þorsteinn Siglaugsson, 26.2.2020 kl. 19:48

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Rétt hjá þér, Þorsteinn. Og það var ég sem byrjaði að yrkja um pólitík. Menn eiga alveg að geta talað saman án þess að blanda stjórnmálum í það. Brynjar Nielsen hefur kannski þessi áhrif.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2020 kl. 21:19

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég sé að þér þykir vænt um Björn Leví. Hann er líka svolítið krúttlegur - meðan hann þegir amk. En bangsarnir eru samt krúttlegri, enda eru þeir ekki á sokkaleistunum. Hvort Brynjar sé krúttlegur læt ég þig um að dæma um...

Þorsteinn Siglaugsson, 26.2.2020 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband