2893 - Hong Kong

Svo virðist sem uppreisnarseggir og lýðræðissinnar ásamt unga fólkinu hafi unnið mikilvægan sigur í Hong Kong um helgina. Stjórnvöld hafa sennilega tapað eftirminnilega í einskonar borgarstjórnarkosningum sem ef til vill hafa einkum snúist um lögregluofbeldi. Eins og lýst hefur verið margoft í fréttum hefur mikil ókyrrð verið í Hong Kong í marga mánuði. Upphaflega var það einkum um helgar sem mótmælt var en undanfarið hafa mótmælin aukist. Í þeim kosningum sem fram fóru um helgina var þó allt fremur rólegt, og stjórnvöld virðast hafa beðið talsverðan hnekki.

Sannleikanum verður hver sárreiðastur, segir í gömlu íslensku orðtaki. Mörgum er í fersku minni hvernig Þorsteinn Már Balvinsson lét við Má seðlabankastjóra fyrir skemmstu. Nú bítur sú framkoma í rassinn á honum, því e.t.v. var það einmitt þetta sem nú er á milli tannanna á fólki sem seðlabankastjóri og fleiri voru að reyna að sanna. Annars er hugsanlega verið að flýta sér óhóflega að fella dóma í þessu máli þar sem aðeins önnur hliðin kemur fram. Það er samt áreiðanlega engin tilviljum hve Afríku hefur verið haldið niðri á undanförnum áratugum og öldum. Svipað hefur verið að gerast hér á Íslandi í skjóli útgerðarauðvaldsins. Kynþáttafordómar birtast með ýmsum hætti. Sumir kalla þá föðurlandsást.

Sumir, jafnvel margir, segja að loftlagsmál séu lang- langstærsta og merkilegasta mál okkar tíma. Og ef okkur tekst ekki að draga úr útblæstri bíla og breyta stórlega öllum okkar lífsháttum, á fáeinum árum, sé allt unnið fyrir gýg og mannkynið muni farast mjög fljótlega. Þessu er ég að mestu leyti ósammála og er kallaður afneitunarsinni fyrir vikið. Þessi trúarbrögð eru mjög útbreidd á Vesturlöndum um þessar mundir og þeir sem þessu mótmæla eru gjarnan úthrópaðir sem afneitunarsinnar.

Margt af því sem haldið er fram, er skynsamlegt í meira lagi, en að geta alls ekki fallist á að hlýnun og kólnun loftslags geti átt sér náttúrulegar orsakir er ekki skynsamlegt. Æstustu talsmenn hinna nýju trúarbragða halda því samt fram að öll breyting á loftslagi hljóti að vera af mannavöldum. Svo er þó ekki.   

Að mannkynið muni að lokum kafna í eigin skít er annars ekki með öllu útilokað. Fáum virðist detta í hug að grunnástæða alls þessa er óhófleg fjölgun mannkynsins. Misskipting auðæfa jarðarinnar mun einnig valda miklum hörmungum, en það á ekki mikið með loftslag að gera. Ef Jörðin vill losa sig við mannkynið gerir hún það. Kannski með heimshlýnun og kannski með einhverjum öðrum ráðum. Hver segir annars að maðurinn sé merkilegri en önnur dýr? Að vísu hefur honum tekist að forðast það náttúrulega, (eða réttara sagt náttúruöflin) að miklu leyti, en kannski getur hann það ekki endalaust.

IMG 6515Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Held nú að enginn haldi því fram að mannkynið muni farast í heilu lagi verði ekki tekið á loftslagsmálunum. Og enn hef ég heldur ekki séð neinn halda því fram að allar veðurfarsbreytingar séu af manna völdum.

En þessir tveir strámenn eru eflaust hentugir andstæðingar.

Þorsteinn Siglaugsson, 25.11.2019 kl. 10:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég held mig við það sem ég hef sagt.

Timasetningar eru líka mjög á reiki. Eðlilega, því spádómar eru þannig.

Auk þess er það ábyrgðarhluti að hræða krakka eins mikið og virðist vera gert.

Sæmundur Bjarnason, 25.11.2019 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband