2882 - Papparass

Ég heiti Papparass. Illar tungur segja að ég sé bara páfagaukur, en það er allsekki rétt. Ég er af ætt geirfugla og dúdúfugla og get meira að segja flogið, ef mikið liggur við. Og ekki orð um það meir. Ástæðan fyrir því að ég skrifa hérna er sú að Sæmundur frændi minn hefur leyft mér að nota bloggið sitt til þess að koma speki minni til skila. Hún er reyndar mikil og ég held að ég muni þurfa að koma öðru hvoru hér við svo ég geti spúð speki minni yfir alheim.

Eða eins og séra Helgi Sveinsson orti fyrir langalöngu:

Kolbrún yfir orku býr
aldrei þarf að pústa.
Þegar hún sinni speki spýr
sprautast yfir Gústa.

En eins og allir vita var séra Helgi óviðjafnanlegur.

Þessi vísa er ekki nema smásýnishorn af því sem hann orti. Þetta er um Kollu í Álfafelli og Gústa bróður hennar Kamillu, sem var sko engin vindmylla en förum ekki nánar útí það.

Nú. Eiginlega ætlaði ég að láta bara vita af mér í þessari færslu, en kannski ég setji hérna smásögu sem ég samdi um daginn.

Einar Hallvarðsson var með stórt nef. Eginlega var það svo stórt að það olli honum talsverðum vandræðum. Þegar hann sat í uppáhaldsstólnum sínum og las í einhverri bókasafnsbók sem hann hafði fengið lánaða í Bókasafni Akraness, þá þurfti hann að leggja það varlega á borðið við hliðina á sér. Stundum þegar hann var úti að ganga flæktist það líka í fótunum á honum. Það seig nefnilega undan eigin þyng, en stóð ekki beint fram eða seig svolítið niður fyrir munninn eins og á flestum. Auðvitað þurfti hann alltaf að halla undir flatt þegar hann borðaði.

Þessi nefstærð hans stafaði meðal annars af því að hann var allra karla elstur. Eins og kunnugt er þá heldur nefið á manni áfram að stækka alla æfi. Nú var engar upplýsingar um Einar að finna í kirkjubókum og hann vildi aldrei segja hve gamall hann var í raun og veru. Væri hann spurður að því svaraði hann venjulega með einhverjum afgæðingi og ómögulegt var að fá alvörusvar uppúr honum. Sé dæmt eftir nefinu einu var Einar að minnsta kosti nokkur hundruð ára gamall. Svo er líka alveg mögulegt að þetta langa nef hans hafi stafað af einhverjum sjúkdómi. Aldrei hafði hann leitað til lækna út af þessum óstjórnlega nefvexti sínum.

Allt í einu fór hann að lesa þjóðsögur og ævintýri. Þar rakst hann meðal annars á söguna sem kölluð er „Neyttu á með að nefinu stendur“. Þetta fannst honum afar merkilega saga og hann hefði svo sannarlega viljað hafa heldur bjúga en þetta stóra nef. Mikið reyndi hann til þess að fá tækifæri til að prófa þetta. Gallinn var bara sá að hann trúði ekki á galdra.

Svo las hann frásögnina af Þórarni Nefjólfssyni og þá datt nefið af honum. Svo það er eiginlega ómögulegt að halda þessari sögu áfram. Sæmi frændi er ekkert með sérlega stórt nef þó hann sé svolítið farinn að eldast.

IMG 6597Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband