2881 - Jón Gnarr

Las áðan frétt DV um fésbókargreinina hans Jóns Gnarr. Þar líkir hann loftslagsvánni við flugferð og gerir það af miklu listfengi, eftir því sem ég best fæ séð. Oft ratast kjöftugum satt á munn. Það er einmitt þetta sem ég átti við í síðasta bloggi þar sem ég var að tala um langar skáldsögur. Þessa samlíkingu við það sem er að gerast í heiminum í dag hefði verið hægt að segja í fáeinum setningum. Oft (jafnvel oftast) byggjast skáldsögur á ágætri hugmynd, en snilldin felst í því að draga allt á langinn og halda sem lengst áfram. Þetta á einkum og sér í lagi við um krimma. Þessari aðferð er líka beitt við bíómyndir. Þá er t.d. einhver hugmynd tekin og teygt úr henni eins og mögulegt er. Oftast er umgerðin höfð frekar vönduð og dýr. Þá er auðveldara að selja myndina og erfiðara að stæla hana.

Ég er ekki að segja að ég sé neitt betri. Stöku sinnum fæ ég ágæta hugmynd og ef ég hefði jafn mikla hæfileika til málalenginga og sumir aðrir mundi ég gjarnan vilja halda lengi áfram. Ég bara get það ekki. Verð að koma hugmyndinni frá mér. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr löngum greinum og löngum sögum. Ég hef bara ekki þennan hæfileika.

Oft er auðvelt að skrifa langt mál um lítið efni einsog sést t.d. oft á skrifum um íslensk mál. Yfirleitt er ég samt mjög sammála því að gagnrýna þá sem sífelldar aðfinnslur eru með í því sambandi. Eiríkur Rögnvaldsson virðist t.d. á margan hátt hafa sagt „málfarslöggum“ allra tíma stríð á hendur. Þar er ég sammála honum. Þær eru oftast hálfleiðinlegar. Ég sjálfur meðtalinn.

Samkvæmt nýjustu fréttum frá USA er hugsanlegt að Trump sigri í forsetakosningunum á næsta ári. Þ.e.a.s. ef núverandi atlaga demókrata og fulltrúadeildarinnar mistekst og fólk fær almennt leið á þessu eilífa þrasi milli þings og forseta og kýs bara eins og síðast. Pressan er alls ekki eins áhrifamikil og áður var. Samfélagsmiðlarnir hafa komið í staðinn og þó fólk láti illa af þeim í orði eru áhrif þeirra mikil þegar á reynir.

Guðmundar og Geirfinnsmálin halda áfram að flækjast fyrir mönnum. Þó líklegast sé að dómstólar muni á endanum skera úr um bótafjárhæð þar má búast við löngum og ströngum deilum um það atriði. Búið er að skera úr um sýkn saka hjá flestum þeirra og ekki er óeðlilegt að krafist sé bóta. Ef sáttanefnd svokölluð getur ekki leyst þetta mál og hefur takmarkað eða ekkert umboð til slíks er ekki hægt að leita annað finnst mér.

Þeir eru örugglega allmargir sem álíta, eins og ég, að kæra sú á Trump vegna viðtalsins við forseta Ukrainu, verði á endanum til þess að styrkja hann í kosningunum á næsta ári. Næsta víst er að hann verði sýknaður eins og Clinton á sínum tíma. Kannski vilja bandaríkjamenn bara hafa forseta á þessu tagi og ekki er hægt að neita þeim um það. Flestallir hafa forseta eða ráðamenn af því tagi sem þeir vilja og eiga skilið. Samt finnst manni að það ætti ekki að eiga við um stórveldin sjálf, Hver eru þau? Ekki er víst að öllum komi saman um svarið.

vegamótEinhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Æði vel sitt bera barr,
báða Guð mun dæma,
Jesús elskar Jón minn Gnarr,
og jafnvel líka Sæma.

Þorsteinn Briem, 2.10.2019 kl. 16:51

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Gæti best trúað að Trumpsi sjálfur sé litli símamaðurinn í þessu tilfelli og leikurinn til þess gerður að þjappa stuðningsmönnum hans saman.

Annars, talandi um kallinn, þá var ég í New York um helgina og einn daginn borðuðum við hádegismat á Trump Grill í Trump Tower. Mæli svo sannarlega með þeim stað, frábær matur á mjög góðu verði miðað við Manhattan. Og rauðvínið með steikinni, frá Trump Vineyard í Virginíu jafnaðist á við mun dýrari frönsk vín. Svo honum er ekki alls varnað, kallanganum.

Þorsteinn Siglaugsson, 3.10.2019 kl. 11:57

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini Briem er státinn kall
stórastur í fálmi.
Uppúr honum óðum vall
eitthvað líkast sálmi. 

Sæmundur Bjarnason, 14.10.2019 kl. 16:39

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini minn, ég tók bara ekki eftir þessari vísu fyrr en núna áðan.

Sæmundur Bjarnason, 14.10.2019 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband