12.7.2019 | 16:56
2863 - Jórunn og Rósa
Fram eftir öllum aldri var ég, eins og margir fleiri, sannfærður um að karlmenn réðu heiminum. Sú trú mín beið talsverðan hnekki þegar ég las um helstu kvenhetjur Íslendingasagnanna, eins og t.d. Hallgerði Langbrók og Guðrúnu Ósvífursdóttur. Endanlega urðu svo þær Golda Meir og Madelaine Albright til þess að sannfæra mig um að þessi skoðun mín um karlmennina væri alröng. Sterkar konur hafa alla tíð ráðið því sem þær vilja.
Þetta get ég sagt sem afkomandi Rósu á Bláfelli og Stóru-Jóku í Gvendarkoti. Jórunn missti unnusta sinn um tvítugt og tók saman við Guðlaug frá Látalátun á Landi, sem var um það bil tvöfalt eldri en hún. Þó Guðlaugur afi hafi eflaust ekki verið mikill fyrir mann að sjá (ég sá hann aldrei) og ekki hár í loftinu samanborið við Jórunni ömmu, hefur hann eflaust verið búinn að gera sér grein fyrir þessu með karlmennina og konurnar, áður en hann dó.
Jórunn amma er fyrir margra hluta sakir eftirminnileg. Hún náði háum aldri og féll að ég held aldrei verk úr hendi. Að vísu var hún að ýmsu leyti fulltrúi annars Íslands en ég þekkti best. Gamlar vísur, bænir og ýmislegt annað skipaði þar háan sess. Ingibjörg systir kann sumar vísurnar ennþá. Um móðir mína ræði ég ekki. Báðar þessar konur held ég að hafi verið trúaðar í bestu merkingu þess orðs. Sennilega þætti þeim lítið til þess Íslands koma sem blasa mundi við þeim núna.
Mengun sú og sýking sem kennd er við Suðurland og E-coli sýnir betur en margt annað hve vernd sú sem þjóðfélagið veitir okkur smælingjunum er lítils virði og þunn. Auðvitað má kenna mjög í brjósti um þau börn og fjölskyldur þeirra sem fyrir þessu urðu. Ekki síður má vorkenna þeim sem búsettir eru á bænum þar sem sýkingin kom upp eða vinna þar, vegna þess að vel er hugsanlegt að bærinn sá eða eigendur hans nái sér aldrei eftir þessa uppákomu. Á flestan hátt er þetta hið versta mál. Faraldrar af þessu tagi eru sem betur fyrr afar sjaldgæfir á Íslandi. En Ísland er nú svo lítið og fámennt að það er ekki að marka.
Ekki veit ég eftir hverju þeir eru að leita, sem lesa þetta blogg. Stundum skrifa ég um sjálfan mig og stundum ekki. Stundum fjargviðrast ég útaf hinu og þessu. Stundum ræði ég fram og aftur um minningar, pólitík eða eitthvað annað. Stundum þykist ég vera voða gáfaður, en er það kannski ekki. Hugsanelega ætti ég að reyna að sérhæfa mig meira í þessum bloggskrifum mínum.
Að mestu er ég hættur að skrifa um Trump Bandaríkjaforseta, enda er það að æra óstöðugan að tala um þann vingul. Sennilega er heimsfriðnum ekki hættara nú en oft áður. Þó Trump sé fremur óvinsæll í útlöndum (þ.e.a.s. utan Bandaríkjanna) er hann líklega ekki hættulegri en aðrir bandarískir forsetar. Að öll ríki USA skuli hafa sammælst um það að hafa einn forseta, sem greinilega ræður ýmsu í utanríkismálum er grunnurinn að veldi bandaríkjamanna og áhrifum. Þar kemur ekkert Brexit til greina. Að því kemur samt á endanum að veldi þeirra lýkur. Vitanlega verð ég þá ekki ofar moldu og mun engin áhrif hafa á það.
Kannski er það einmitt fjölbreytileikinn sem gerir þetta blogg vinsælt. Já, mér finnst það furðu vinsælt, þó ekki sé það í flokki með þeim vinsælustu. Auðvitað reyni ég oft að vanda mig í þessum skrifum, en aðallega eru þetta marklitlar hugleiðingar. Ekki hef ég aðgang að neinni fréttastofu eða neinu þessháttar og sérþekkingu hef ég enga og menntun litla. Reyni þó að láta ljós mitt skína.
Athugasemdir
Það er ekki ónýtt að vera ættaður frá bænum Látalátum.
Þorsteinn Briem, 12.7.2019 kl. 22:12
Nei, Steini minn. Þegar við höfum haldið ættarmót, sem alveg hefur komið fyrir, höfum við kennt það við Gvendarkot sem reyndar er búið að jafna við jörðu núna. Jörðin Látalæti heitir víst eitthvað annað nú um stundir, en þangað hef ég aldrei komið.
Sæmundur Bjarnason, 13.7.2019 kl. 09:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.