2850 - Vaknað snemma og veðurlýsingar

Vaknaði um 5-leytið í morgun og skrifaði þá á bloggið mitt sem þeir sem þangað villast eru neyddir til að lesa. Fékk mér svo kaffi og fór aftur að sofa.

Mín reynsla er sú að ef maður fer að sofa ofaní kaffi þá dreymi mann einhverja vitleysu. Ekki brást sú trú að þessu sinni. Mig dreymdi að ég væri villtur í Hafnarfirði. Þangað hafði ég farið gangandi með band í eftirdragi. Svo var ég truflaður og týndi því. Fór með strætó, sem mér þótti furðu breiður, heim til Reykjavíkur. Við hliðina á mér sat landsþekktur húmoristi sem ég þekkti vel í sjón og reytti af sér brandarana, nema hvað þeir voru ekkert fyndnir. Svo lauk draumnum skyndilega.

Nú er klukkan að verða níu og ég er að hugsa um að fara út að ganga. Í dag er víst skírdagur. Þegar einfalt og tvöfalt i verða lögð að jöfnu verður þetta skyrdagur. Þá eiga allir á fá sér skyr.

Þetta gekk alveg bærilega. Nú er klukkan að verða tíu. Best að hlusta á fréttirnar.

Hlustaði á þær en varð lítið fróðari við það. Sennilega er það ofætlum hjá mér að ég geti skrifað tvö blogg sama daginn. Þó minnir mig að ég hafi gert það. Því ekki að reyna?

Líklega verð ég að hafa þetta blogg í styttra lagi svo þetta takist. Hef samt langa reynslu  í að skrifa langt mál um lítið efni.

Um síðustu helgi fórum við norður á Akureyri í fermingarveislu. Undir Hafnarfjalli var nokkuð hvasst, en við vorum með Þór í jeppanum hans og höfðum ekki miklar áhyggjur af því. Á leiðinni sáum við að rúta hafði fokið utaf veginum, en þar sem nokkrir flutningabílar voru þar hjá stoppuðum við ekkert og fljólega batnaði veðrið. Á Akureyri var sól og blíða eins og innbyggjarar þar segja að sé alltaf. Eina nótt gistum við á Akureyri. Fengum lánaða íbúðina hjá Rakel en þau voru í fermingarveislu fyrir sunnan og við öfunduðum þau ekki. A.m.k. ekki útaf veðrinu.

Hvergi örlar á snjó hér á Akranesi en á Akureyri var nokkur snjór. T.d. á svölunum hjá Rakel. Götur voru þó auðar. Á heimleiðinni þaðan flýttum við okkur svolítið til að vera á undan lægðinni sem væntanlega var. Það gekk bærilega.

IMG 6947Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Fram í eldhús áðan gékk 
ár skal daginn lofa.
En einhvern fyrirboða fékk
og fór því strax að sofa.


Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.4.2019 kl. 14:00

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Árla hann í eldhús fór
yfir gólfið klofar.
Fékk sér þar einn beiskan bjór
sem betri tíð þó lofar.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2019 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband