2846 - Sólveig Anna

„Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar.“ Þessi grein í kosningalögum lætur lítið yfir sér en hefur verið áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum; stýrt örlögum ríkisstjórna og valdið fjöldamótmælum.“

Þessa klásúlu tók ég uppúr bakþönkum Fréttablaðsins, sem yfirleitt eru ekki annað en einskonar blogginnlegg. Að vísu koma þeir fyrir augu margra og eru hugsanlega mikið lesnir. Ég breytti engu þarna og lagfærði ekki neitt nema ég aðlagaði fontinn svolítið.

En hvað er almenningsálit? Og hvað er svívirðilegt? Þarna virðist vera talsverður efi. Er það almenningsálit sem meirihluti kjósenda vill? Og hver mælir það? Er það kannski ríkisstjórnin, sem ræður því hvað er almenningsálit? Uppreist æra er greinilega nokkuð mikils virði. Ráðherrar og aðrir valdamenn umgangast þetta ákvæði samt af mikilli léttúð.

Kannski er ég ansi seinn á mér að ræða um uppreista æru. Mikið er búið að fjasa um hana og nú er Sigga þar að auki komin í skammarkrókinn.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar virðist mér að sé ansi ósátt við nýgerða kjarasaminga. Ég er það eiginlega líka. Þó hefur Sólveig ekki verið svo ósátt við þá að henni hafi fundist taka því að vera með mikil læti. Sífelldar seinkanir á blaðamannafundum hafa líklega verið henni að kenna. Af hverju það var álitið nauðsynlegt að ríkisstjórnin fengi að auglýsa sig í sambandi við lok kjarasamninganna, veit ég ekki.

Margt þykir mér nokkuð gott í tillögum ríkisstjórnarinnar, en ég man ekki betur en hún hafi verið talin hafa svikið allt sem lofað hafði verið. Annars er til siðs að skipta ört um ríkisstjórnir og hvað verður þá um loforðin. Hvernig eru uppsagnarákvæði þessa samnings? Hversvegna á að trúa ríkisstjórninni núna? Ég óttast satt að segja að hún túlki öll sín loforð eftir sínu höfði, en ekki höfðum annarra. Auk þess kemur margt af þessu sem lofað er ekki til framkvæmda fyrr en eftir næstum ár. Kannski verða aðstæður allt aðrar þá. Sólveig Anna talar um vopnahlé. Samkvæmt því gerir hún ráð fyrir því að verkalýður og valdsmenn séu óvinir. Hugsanlega er þetta dálítið langt vopnahlé.

Mér finnst fésbókin vera sífellt að versna. Ég er eiginlega næstum hættur að fara þangað. Kannski er það einkum vegna þess að ég er búinn að safna nærri 900 fésbókarvinum og það er greinilega alltof mikið. Ég reyni samt að fara þangað einu sinni eða jafnvel tvisvar á dag og á það til að óska þeim sem ég þekki vel til hamingju með afmælið ef þeir eru fésbókarvinir mínir. Undanfarnar vikur finnst mér bókarfjandinn hafa farið stórversnandi og allir virðast geta ruðst þar inn. Auglýsingafarganið og óskiljanleikinn er líka að aukast stórlega þar. Sennilega er best að halda sig sem mest við Moggabloggið það hentar mér greinilega betur. Þýðir samt ekki að áróður Sjálfstæðisflokksins hafi mikil áhrif á mig.

Fermingar og Páskar fara nú í hönd svo sennilega er best að vera sem jákvæðastur. Annars hefur mér fundist að óhófleg bjartsýni sé ekki hótinu skárri en hæfileg svartsýni.

IMG 6973Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það enga þarf andskotans snilli
svo almenningsálitið hönnum.
Þú mátt ekki vera á milli
munngarðs hjá ákveðnum mönnum.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.4.2019 kl. 18:55

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Almenningsálitið andskotans
er ekki með fullu viti.
Í ógnarklónum kommúnismans
kapítalismans flýr hiti.

Sæmundur Bjarnason, 6.4.2019 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband