2843 - Maduro og Rögnvaldsson

Það er svo sannarlega ekkert gamanmál ef stórt flugfélag fer á hausinn, en satt að segja finnst mér þetta WOW-mál vera orðið dálítið langdregið. Ég hef svosem ekkert gáfulegt til málanna að leggja hvað þetta snertir, enda er sérþekking mín á þessu sviði engin. Þetta yfirvofandi gjaldþrot er búið að tröllríða fjölmiðlum nokkuð lengi og mér finnst vera kominn tími til að fá einhvern botn í málið. Indigo og Icelandair voru ekki þeir botnar sem sumir bjuggust við.

Illa gengur að koma Maduro frá völdum í Venesúela, þó mikið hafi verið reynt. Enn er ég þeirrar skoðunar að mikil mistök hafi þar verið gerð við stjórn landsins. Mér finnst líklegast að um þrjár leiðir sé einkum að velja fyrir Venesúela-búa: 1) að koma Maduro frá völdum 2) að hann haldi völdum og bæti ráð sitt verulega. 3) borgarastyrjöld. Sú þriðja er langverst og kannski tekst að koma í veg fyrir hana. Stjórnarfar í öðrum löndum kemur okkur að sjálfsögðu ekkert við og ég man að ég var hálf-hissa á því að ESB skyldi taka afstöðu í þessu máli. Afstaða USA kom mér aftur á móti ekkert á óvart né afstaða Kína og Rússlands.

Þetta eru þau mál úr fréttum sem mér finnst skipta mestu máli: Verkföll og vinnudeilur hér innanlands held ég að leysist fljótlega. Jafnvel að loðnan komi í einhverjum mæli. Strompurinn hér á Akranesi er loksins farinn og í maí næstkomandi fer ég ásamt fleirum kannski til Ítalíu. Þó ekki með WOW.

Einhversstaðar las ég að byssueign í Bandaríkjum Norður-Ameríku væri u.þ.b. 120 stk. á hverja 100 í búa. Næst á eftir kæmi Jemen með svona 40 á hverja 100 íbúa. Litla Ísland er víst ofarlega á þessum lista með vel yfir 30 byssur á hverja 100 íbúa. Sennilega er það ekki byssufjöldinn sem mestu ræður um morð og þessháttar heldur vopnalöggjöf. Hér á landi er sennilega einkum um að ræða riffla, haglabyssur og gamlar kindabyssur, en skammbyssur og hernaðarvopn held ég að séu sjaldgæf mjög. Riffil átti ég eitt sinn en man satt að segja ekki hvað um hann varð. Hálfa Húskvarna haglabyssu átti ég líka eitt sinn. Það er að segja með öðrum. Kannski fór riffillinn þar.

Ekki þarf nú mikið til að maður komist í skrifgírinn. Nú er ég farinn að bloggi næstum daglega aftur. Ekki veit ég af hverju þetta stafar. Og ekki veit ég heldur af hverju það komu svona margir inn á bloggsíðuna mína um daginn þó ég hafi ekkert bloggað þá. Hingað til hef ég álitið að til þess að vera lesinn að einhverju ráði þurfi að skrifa eitthvað. Kannski hef ég rangt fyrir mér að þessu leyti.

Held að það hafi verið hann Eiríkur Röngvaldsson (bróðir hennar Nönnu) sem var að verja þágufallssýkina um daginn. Alveg er ég sammála honum þar. Ég tek varla eftir því þó sagnir séu látnar stýra röngu falli miðað við það sem manni var kennt í æsku. Svipað má segja um réttritun. Sjálfur hef ég hana nokkurn vegin á valdi mínu. Samt er það svo að sumar ypsilon-villur þykir mér ljótari en aðrar. Mismunandi merkingar í því sambandi trufla mig stundum og stundum ekki. Í heildina held ég að ég sé réttritunar og málfars-fasisti, en ég reyni samt oftast að láta augljósar villur i útbreiddum fjölmiðlum ekki fara um of í taugarnar á mér.

IMG 6979Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Með opinn gogg ég upp við dogg
álkulegur starði
Mynd af Tansy við Mogga blogg
mínum augum barði

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 26.3.2019 kl. 14:36

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hver er Tansy, Tóti minn?
Tátuna ekki þekki.
Kannski fluguflokkurinn
finni hennar bekki.

Sæmundur Bjarnason, 26.3.2019 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband