2844 - 18 skott á einum hundi

Ef að sé og ef að mundi

átján skott á einum hundi.

Slysaðist inn á einhverja yfirheyslu þingmanna yfir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í sjónvarpinu um daginn. Þennan húsgang kannaðist hann við, þó hann sé ekki sérlega góður upplesari. Þegar ég kveikti á sjónvarpinu var hann að lesa uppúr einhverri skýrslu og rak í sífellu í vörðurnar. Svörin við spurningunum sem lagðar voru fyrir hann vöfðust líka svolítið fyrir honum og þingmönnunum virtist ekki þykja mikið til þeirra koma. Fréttir af þessu snerust mest um það sem gerðist eftir yfirheyrsluna en það sá ég ekki. Tilfærða vísubrotið fannst mér það merkilegasta sem hann sagði. Það stafar sennilega af skorti á hagfræði- og lögfræðilegum áhuga hjá mér. Kannski líka á pólitískum áhuga því allt stjórnast þetta af pólitík. Held jafnvel að búið sé að reka hann. Er samt ekki alveg viss.

Ekki veit ég af hverju ég er að þessu sífellda skrifelsi. Einhvers konar þerapía er það sennilega. Mér finnst oft eins og ég hafi eitthvað að segja. Svo finnst mér í annan tíma eins og þetta sé ósköp ómerklegt sem ég læt frá mér fara. Aðallega er þetta kannski einhvers konar elliærleiki hjá mér. Annars hef ég skrifað meira og minna frá því ég man eftir mér. Ágætt er að láta það á þennan hátt frá sér fara og þurfa svo ekki að hafa áhyggjur af því meira. Kannski kommenta einhverjir og þá þarf maður sennilega að svara því en að öðru leyti hef ég afar litlar áhyggjur af því sem ég skrifa. Dagbók er þetta ekki, nema að litlu leyti. Daglega og hrútleiðinlega atburði leiði ég hjá mér, en kommenta a.m.k. núorðið aðallega á fréttir, íslensku og þessháttar. Að sumu leyti er þetta einskonar dagbók hjá mér því a.m.k. er þetta einhverskonar samsafn þess sem mér dettur í hug að skrifar um.

Hjartalæknirinn minn, hann Þorbjörn sonur hans Gauja Stefáns sem ég kannaðist við á mínum yngri árum og kynntist svo lítilsháttar aftur í Borgarnesi seinna meir, en þar var hann að ég held forstjóri Sambands sveitarfélaga, sennilega á Vesturlandi, frekar en á öllu landinu. Annars man ég þetta ekki svo gjörla nema áðuráminnstur Þorbjörn segir að ég sé með gúlp á ósæðinni og vill ekki að blóðþrýstingurinn sé mjög hár. Blóþrýstingslækkandi lyf tek ég á hverjum degi í fjölbreyttu úrvali.

Á hverjum degi (eða næstum því) fer ég í all-langa gönguferð og segi fitbitinu mínu frá því og leyfi snjallsímanum að koma með. Meðfram öðru er það vegna innbyggðrar myndavélar í honum sem ég geri þetta. Fitbitið segir mér svo hve langt ég hef farið og hver meðalhraðinn er o.s.frv. Það er helst að mikil hálka, hellirigning, lasleiki og þess háttar haldi aftur af mér að fara í þessar daglegu gönguferðir mínar. Oftast fer ég allsnemma á morgnana og yfirleitt útað Elliheimilinu úti á Höfða og að sjálfsögðu til baka aftur. Best finnst mér að hugsa ekki neitt meðan á þessum klukkutíma löngu gönguferðum mínum stendur.

Eins og margir vita kostar að aka bíl í miðbæjum sumra stórborga. Man til dæmis ekki betur en eitthvað kosti að keyra um í London. Hingað til hafa bandaríkjamenn ekki viljað vita af þessari aðferð við að stýra umferð og ekki tíðkast hún þar. Nú hefur nýlega verið samþykkt að taka slíkt samt upp í New York. Fróðlegt verður að vita hvernig það gengur. Með nútímatækni og almennilegum myndavélum ætti það ekki að vera framkvæmdalegt vandamál. Spurning samt hugsanlega með greiðsluviljann. Verður þetta ekki aðallega leigubílaskattur?

Uppáhalds pistlahöfundur minn þessa dagana er Sif Sigmarsdóttir. Það er ekki nóg með að hún sé feministi fram í fingurgóma heldur kemst hún hvað eftir annað einstaklega vel að orði. Skoðanir hennar eru líka oftast þannig að vel er hægt að taka undir þær. Aftur á móti er ég fullur af fordómum í garð margra annarra kvenna sem skrifa reglulega í útbreidda fjölmiðla. Auðvitað hef ég líka allskonar fordóma í garð karlmanna, sem slíkt gera, einkum þó Páls Vilhjálmssonar, en það er önnur saga.

Scan96Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Oft það getur verið gott
hjá Google leita hófa.
Því hvenær kallast rófa, skott?
og hvenær hali, rófa?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 31.3.2019 kl. 20:45

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gúgli ekki getur neitt
er gríðarlega vitlaus.
það ekki þykir Laxdal leitt
en læst þó vera fattlaus.

Sæmundur Bjarnason, 31.3.2019 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband