2839 - Grindamígur og stakketpisser

Styrmir Gunnarsson fyrrum ritstjóri Moggans lætur ekki deigan síga.

Er nú ekki kominn tími til að þingmenn og ráðherrar horfist í augu við sjálfa sig og viðurkenni þau mistök sín að hafa ekki brugðizt við ákvörðunum Kjararáðs sumarið og haustið 2016 með því að afnema þær með lögum eins og tvö fordæmi voru fyrir? 

Þessa kveðju fengu alþingismenn frá honum alveg nýlega. Mér er ekki grunlaust um að hann og reyndar margir fleiri hafi ætlast til að Alþingi (með stórum staf í tilefni dagsins) brygðist við með öðrum hætti en þeim sem Katrín forsætisráðherra gumar sem mest af.

Og svo furðar þetta vesalings lið sig á því að virðingin minnki!!!!!  Það er hreint út sagt furðulegt að hún skuli ekki vera í algjöru núlli.

Einn af kostunum við að vera orðinn svo gamall, að einu tekjurnar sem maður hefur er það sem manni er skammtað af lífeyrissjóðum og öðrum opinberum aðilum, er sá að það er afar fljótlegt og auðvelt að gera skattframtalið. Nú er ég semsagt búinn að því og samþykkti allt sem þar var haldið fram af ríkisskattstjóra. Það er hampaminnst. Ekki þýðir að gera alltaf ráð fyrir að verið sé að svindla á manni. Þetta tók fljótt af og var alveg þrautalaust. Man að það var talsverður höfuðverkur hérna áður fyrr. Annars eru kostirnir fáir. Við að vera gamall altsvo. Meira að segja það að geta sofið út alla daga verður hversdagslegt með tímanum.

Kannski ég haldi bara áfram með sýslumannssögurnar mínar: Einhverntíma var sýslumaður á Húsavík. Kannski hét hann Júlíus Hafsteen. Í mínu minni var hann jafnframt kaupfélagsstjóri. Í kringum kaupfélagið var grindverk. Nauðsynlegt er að geta þessa útaf sögunni þó ekki tíðkist slík ósköp nú orðið. Bændur úr nágrenninu áttu það til að staupa sig svolítið þegar farið var í kaupstað. Bóndi einn sem sýslumaður kannaðist við þurfti að létta á sér uppvið grindverkið. Þá varð sýslumanni að orði:

„Jón grindamígur, bóka það.“

Nú líður og bíður unz bóndi þessi fær bréf frá kaupfélaginu. Um tilefnið veit ég ekki, en sendibréf voru sjaldgæf í þann tíð. Untanáskriftin var eftirfarandi:

Jón bóndi og grindamígur Jónsson
Efri-Brunná
Skefilsstaðahreppi

Bæjarnafnið og hreppurinn eru mín hugarsmíð og passar áreiðanlega ekki. Bóndi var að sjálfsögðu ekki par hrifinn af þessu uppnefni og óð inná skrifstofu kaupfélagsins öskureiður þegar hann átti næst erindi í kaupstaðinn.

Kaupfélagsstjóri og bóndi töluðu lengi saman inni á skrifstofu þess fyrrnefnda og þegar þeir komu þaðan út var bóndi mun hressari í bragði.

Þegar skrifari spurði hvort hann ætti að breyta þessu í bókum félagsins svaraði stjórinn:

„Já, okkur kom saman um að í stað orðsins grindamígur kæmi orðið stakketpisser.“

IMG 7009Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Styrmis röddin skelfur skræk
úr skaftinu er hrokkinn.
Og minnir svona helst á Svejk
að svíkja sig og Flokkinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.3.2019 kl. 23:32

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Styrmir er að svíkja sig
segist voða góður.
Með möntru sinni þroskar þig
og þykir býsna fróður.

Sæmundur Bjarnason, 10.3.2019 kl. 23:53

3 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Góðar fréttir Sæmundr. Stakkettið sem þú ritar um er varðveitt á Minjasafninu á Akureyri, þar sem það er kallað stakit upp á dönsku, enda danskan uppfundin á Akureyri. Enn er hægt að sjá sprænugulan og jafnvel hágrænan lit á hluta þess. Eitt sinn var af þessu bölvaður óþefur, en með tímanum og sérstaklega eftir að það fékk loks safnnúmer, hefur lyktin breyst í uuuuunaðslegan ilm, sem lokkar að sér ungar stúlkur, sem eftir þá reynslu leita sér lengi að ilmvatni í sama stíl. Stakkett þetta var upphaflega á Akureyri. Upp úr 1928 fóru kaupfélögin að rækta svokölluð Limgerði eða limgirðingar, sem tóku vel við hlandi. Sérstaklega var gljávíðirinn vinsæll og nógu þéttur til þess að hylja hlandsmenn svo fínar frúr í búðinni færu ekki hjá sér þegar þeir köstuðu af sér vatni.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 11.3.2019 kl. 07:31

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvað er þetta, Villi? Eru að eyðileggja góða sögu með einhverri vitleysu. Ég trúi engu af þessu. Þú ert eins og sumir aðrir. heitir ýmist þínu eigin nafni, Fornleifur, eða átt heima í Ísskápnum. Alltaf þekki ég þig samt.

Málshátturinn frægi: "Kært barn hefur mörg nöfn", er sennilega að trufla þig eitthvað. cool

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2019 kl. 08:34

5 Smámynd: Hörður Þormar

Júlíus Havsteen, sýslumaður á Húsavík, var mikið ljúfmenni og vildi gera gott úr öllu. Ekki vissi ég að hann hefði líka verið kaupfélagsstjóri, en þori ekkert um það að segja.

Í byrjun stríðsins gerðist sá atburður að bresk herflugvél nauðlenti við Kópasker, ef ég man rétt. Það var hringt í sýslumann, sem kom í skyndi og innsiglaði flugvélina. Fóru svo allir að sofa. En næsta morgun var flugvélin og áhöfn hennar á bak og burt, höfðu þeir rofið innsiglið og stungið af. Úr þessu varð milliríkjamál sem endaði með því að flugstjórinn var sendur aftur til Íslands og dvaldist sem stofufangi, að ég held, á Bessastöðum, þar til Bretar hernámu landið, 10. maí 1940.

Júlíus Havsteen tók að sér það skylduhlutverk fyrir Sjálfstæðisflokkinn að bjóða sig fram gegn Jónasi Jónssyni í S-Þingeyjarsýslu, sem var auðvitað vonlaust fyrirtæki.

Hörður Þormar, 11.3.2019 kl. 15:35

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Hörður. Sennilega er þetta alveg rétt hjá þér. Kannski hef ég bara einhvers staðar heyrt eða lesið þessa grindamígssögu. Einhvers staðar hef ég líka heyrt eða séð minnst á Júlíus Hafsteen. Forláttu.

Sæmundur Bjarnason, 11.3.2019 kl. 17:14

7 Smámynd: Hörður Þormar

Það eru til ýmsar sögur af Júlíusi Havsteen og ekki allar trúverðugar, t.d. sagan af því, þegar hann á að hafa setið uppi á bílpalli, á kassa fullum af landabruggi.

Jóhann Hafstein, forsætisráðherra, og Jakob Hafstein voru á meðal barna hans. Þau tóku sér Hafsteins nafnið, enda voru þau af þeirri ætt.

Hörður Þormar, 11.3.2019 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband