2835 - Er dugnaður dyggð?

Það er einhver fjöldi sem les reglulega bloggin mín. Hvernig sem á því stendur. Áður held ég að ég hafi sagt frá því að ég verð fyrir hálfgerðum vonbrigðum ef ég skrifa blogg og set það upp og fyrsta daginn á eftir reynast gestir samkvæmt Moggabloggstalningu ekki a.m.k. talsvert á annað hundraðið. Stundum verða gestirnir talsvert mörg hundruð en aldrei skipta þeir þúsundum. Sem betur fer liggur mér við að segja þó segja megi að spakmælið „mikill vill  meira“ eigi sæmilega við þarna. Yfirleitt eru kommentin samt ekki ýkja mörg, en nú orðið oftast einhver. Vissulega hef ég bloggað mjög lengi og bloggin mín þekkjast alltaf á númerunum. Lítill vandi er fyrir þá sem kunna sæmilega á Google að leita að ýmsum hlutum í bloggunum mínum. Ekki nenni ég því.

Heyrði ávæning af athyglisverðu útvarpsefni um daginn. Þar minnir mig að spurt hafi verið hvort dugnaður væri dyggð. Um það má að mörgu leyti efast. Þjóðskipulagið á Vesturlöndum og reyndar miklu víðar er samt sem áður einkum grundvallað á þessari spurningu. Letin er kannski alveg eins eftirsóknarverð ef grannt er skoðað. Nú um stundir virðist ekki vera mikill vandi að framfleyta fólki og þessvegna má alveg spyrja hvort ekki sé eins gott fyrir ríkisvaldið að borga öllum lágmarkslaun fyrir það eitt að vera til. Ríkið þykist hvort eð er eiga þegnana. En hvernig verður ríkið til? Það gæti svosem verið næsta spurning.

A.m.k. hér á Íslandi komast menn í þá aðstöðu að fá greitt fyrir að vera til eftir að hafa þrælað fyrir ríkið og þá ríku í vissan árafjölda. Vitanlega má deila um upphæð borgaralauna og eftirlauna og annað þessháttar og ekki ætla ég að halda fram neinum algildum sannleika þar.

Kannski eru þetta of heimspekilegar spurningar til þess að vera settar fram í vesælu bloggi, en mér dettur ekkert annað í hug. Ætlaði samt að segja frá því hér að ég þykist vera brot af sérfræðingi þegar kemur að Trump bandaríkjaforseta. Eikum er mér umhugað um samband hans eða sambandsleysi við fjölmiðla þar vestan hafs. Yfirleitt gagnrýna þeir hann harkalegar en stundum er ástæða til. Les oftast það sem helstu fjölmiðlar þar vestra hafa um Trump að segja. Virðist sem Washington Post fari stundum offari í andúð sinni á honum en að New York Times vilji gjarnan vera yfir aðra hafið. Um íslenska fjölmiðla ræði ég ekki.

Þetta er að verða nóg að þessu sinni. Gleymdi að geta þess áðan að nú þegar ég er farinn að blogga næstum daglega er það m.a. til þess að gestatalningarlistinn hækki svolítið. Samt er ég hugsanlega ekki eins vinsældaháður og sumir aðrir sem hvað Moggabloggsæði snertir eru á svipuðu stigi og ég.

IMG 7040Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það sem ekki er heiglum hent
helst ég met til kosta.
Einum kennt og öðrum bent
engan beiti rosta

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.3.2019 kl. 14:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekkert kostar ekki neitt
ekki er það til bóta.
Ekki vildi ganga greitt
að gera vísu ljóta.

Sæmundur Bjarnason, 4.3.2019 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband