2831 - Þrælahald

Hvernig er þetta eiginlega með íslensku ánægjuvogina. Allir virðast vera bestir. Hvort sem það eru Byko, Sjóvá, Nettó eða Brúttó, jafnvel Róló og Nóló gengur vel þar. Kannski er það einmitt leyndardómurinn. Bara að vera nógu jákvæður. Allir geta unnið og allir eru bestir. Um að gera.

Verkföllin gætu breiðst út. Hver veit nema þau séu næsta tískubóla. Hver hermir eftir öðrum. Sums staðar rífast menn samt um eitthvað annað. En er ekki „eitthvað annað“ einmitt betra en ólukkans verkföllin. Þetta gæti alveg endað með verkbönnun eða einhverju álíka.

Annars finnst mér að verkföllin snúist ekki aðallega um krónur og aura heldur eitthvað mun mikilvægara. Kannski bara um sjálfan grundvöll réttarríkisins. Sú spilling og yfirgangur valdsins sem tíðkast hefur lengi hér á landi hlýtur að fara að breytast. Samanborið við milljónaþjóðirnar erum við eins og hvert annað ættarmót í undirbúningi. Satt að segja erum við Íslendingar svo fáir að við ættum alveg að geta losað okkur við sérgæðin sem víðast annarsstaðar eru greinilega undirstaða spillingarinnar.

Spillingin sem byrjar með valdinu, yfirganginum og sérgæðunum er óhjákvæmileg hjá fjölmennum þjóðum. Vissulega er reynt að hamla gegn henni, en hvergi gengur það vel. Litlar og fámennar þjóðir eins og við Íslendingar ættum að eiga auðveldara með að berjast gegn henni en flestar aðrar þjóðir. Jafnvel höfum við Íslendingar stundum látið eins of við trúum því sjálf að spilling sé hér minni en víðast hvar annarsstaðar. Svo er þó ekki. Hún er bara á svolítið öðru formi en víðast er.

Yfirvöldin eru alveg jafn yfirgangssöm og þau berjast alveg jafnhart fyrir því að halda völdunum. Bara á svolítið annan hátt. Þrjóskast lengur við að segja af sér t.d. Einnig er menntahrokinn landlægur hér. Kannski er það svipað annarsstaðar, ég bara þekki það ekki, því ég er svo ómenntaður. Það er nú eitt. Áður og fyrr þá voru utanfarir eingöngu á snærum þeirra ríku og valdamiklu. Svo er ekki lengur. Vinda þurfti samt bráðan bug að því að koma Wowair á hausinn því þar með var komið í veg fyrir að pöpullinn legðist í ferðalög. Látum vera þó túrhestar glápi á landann, það sakar ekki mikið. Verst hvað auðvelt er að tala við aðra. Hvernig er það annars. „Standa þeir sem eiga símafyrirtækin sig ekki í stykkinu?“

Já, það er allsstaðar hægt að finna sökudólga, ef sú er stefnan. Verum bara feitir þrælar, það er hampaminnst. Kannski hrökkvar einhverjir eigulegir molar af borðum þeirra ríku og voldugu. Best að vera tilbúinn.

Þetta er nú eiginlega bara fimbulfamb hjá mér. Svona gæti ég haldið áfram endalaust. Samsærissögur eru brauð og leikar hinna fátæku og snauðu. Allir geta búið til þessháttar. Um að gera að æfa sig í því. Falsfréttir eru sannleikur nútímans. Samsæri eru allt um kring. Ef ekki til þess að drepa þig, þá til þess að ræna frá þér því sem þú hefur nurlað saman á langri ævi. Göngum bara í sjóinn. Það er mesta vitið.

IMG 7088Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hirðir ei um like eða last,
lofnarkvak né bríma.
Við alla talað alltaf gast
afþví þú áttir síma.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.2.2019 kl. 13:13

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hirtir ei um læk eða last,
lofnarkvak né bríma.
Við alla talað alltaf gast,
af því þú áttir síma.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.2.2019 kl. 15:24

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Símakvak er símabull
síma alla hata.
Símatæknin fordómsfull
fær mig til að gata.

Sæmundur Bjarnason, 26.2.2019 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband