2827 - Trúgirni fjölmiðla

Eitt er það mál sem mér finnst hafa upplýst vel hvernig túlkanir á rannsóknum eru meðhöndlaðar á fjölmiðlum. Það kom fram í fjölmiðlum nýlega að samkvæmt einhverri rannsókn hefði skordýrum lílega fækkað á undanförnum árum. Fjölmiðlar voru fljótir að reikna áfram og samkvæmt þeim benti þetta til þess að skordýr fyrirfyndust ekki á jörðinni eftir svo og svo mörg ár. Auðvitað er þetta tóm tjara. Skordýr munu a.m.k. lifa manninn og jafnvel leggja undir sig jörðina í fyllingu tímans. Ekkert fær komið í veg fyrir það og þetta hefur lengi verið vitað.

Fjölmiðlar (a.m.k. flestir) stunda það að flytja falsfréttir. Hugsun þeirra er eingöngu að græða sem mesta peninga. Þó blaða- og fréttamenn séu óvitlausir verða þeir að gegna sínum yfirmönnum og skrifa eins og fyrir þá er lagt. Annars missa þeir vinnuna. Fréttastjóri ræður að öllu leyti hvaða fréttir eru birtar. Yfirleitt eru það einkum þær fréttir sem koma eigendum fjölmiðilsins best. Enda er eins gott fyrir fréttamenn að sleikja sig upp við þá. Sumar fréttir verður þó að birta án tillits til þessarar sjálfsögðu og eðlilegu kröfu. Valdastéttin verður t.d. umfram allt að halda sínum völdum. Og allt er leyfilegt til að tryggja það. Ekki síst útúrsnúningar og hálfkveðnar vísur.

Hver er munurinn á dystópíu og útópíu? Sumir mundu eflaust segja að útópía sé þjóðfélag þar sem allir séu hamingjusamir og hafi það gott, en dystópía sé þjóðfélag þar sem allt er að fara til fjandans. Menn drepi hvern annan og hópar allskonar illvirkja vaði uppi. Bækur og skáldverk sem fjalla um dystópíu eru miklu algengari en þau sem um útópíu fjalla. Ef alvarlegir og skelfilegir aðburðir gerast hvort er skelin sem verndar þegnana þykkari hjá svokölluðum lýðræðisríkjum eða þar sem einræði þrífst? Hvort eru stór eða smá þjóðfélög útsettari fyrir kaos af þessu tagi? Þetta finnst mér skipta miklu máli. Annað sem mér finnst skipta talsverðu máli eru sívaxandi tök alþjóðlegra stórfyrirtækja á smærri ríkjum. Ísland er líklega svo lítið að þau hafa ekki áhuga á því ríki. Því hefur verið haldið fram að spákaupmenn af minna taginu hafi of mikil áhrif hérlendis t.d á gengisskráningu o.fl. Vitanlega er ýmislegt fleira sem skiptir máli og hver og einn hlýtur að hafa sínar ástæður fyrir afstöðu sinni.

Á sínum tíma þegar Bandaríkin o.fl. réðust inn í Írak fannst mér þurfa ótrúlega litið til svo þjóðfélagið hryndi. Þeir sem réðust þar inn virtust heldur ekki hafa gert ráð fyrir þessu og ráðstafanir til úrbóta. Þó stefnufesta geti í sjálfu sér verið ágæt er augljóst að hún hefur orðið mjög til trafala í Sýrlandi og sama má sennilega segja um deilur Palestínumanna og Ísraela. Annars eiga deilur í Austurlöndum nær sér svo langa sögu að varla er hægt að ímynda sér að ég hafi yfir lausn á þeim að ráða.

Mér finnst áhersla sú sem þjóðir á Vesturlöndum leggja á mannréttindi og einkarétt vera það sem skilur einkum á milli okkar og þjóða í mið-austur Asíu. Þar skilst mér að víða sé lögð meiri áhersla á samstarf og samvinnu en hér á Vesturlöndum. Þeir ásar sem alþjóðleg stjórnmál munu einkum snúast um á næstu áratugum held ég að séu: Bandaríkin, EBE, Rússland og Kína. Smærri þjóðir munu væntanlega fylgja einhverju ofantalinna stórvelda. Kjarnorkuríkin verða samt hugsanlega svolítið sér á parti.

IMG 7116Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Lífið byggjum bæði á
bölsýni og hlýju.
Distópíu drögum frá
draumi um Útópíu.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 16.2.2019 kl. 14:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Distopían drepur allt
dregin er frá píu.
Ekki er það eitursnjallt
en það skapar glýju.

Sæmundur Bjarnason, 16.2.2019 kl. 18:23

3 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Ég er nú ekki hagmæltur eins og þið, en vona að ég geti samt sem áður lagt hér eitthvað til máls. Ein ástæða þess að ég hef verið að blogga er einmitt sú að ég hef litið á þetta sem þjálfun í rituðu máli, sem mig vantar sárlega, en þó er ég að hugsa um það alvarlega að hætta þessu, enda ekki vel séð það sem ég hef verið að skrifa og flestir ósammála mér í flestum málum, þannig að ekki hafa vinsældir mínar verið að aukast við þetta og hefur komið fyrir, t.d. í þorrablóti nýverið, að ég hef hreinlega verið tekinn fyrir af gestum vegna þess sem ég hef verið að skrifa.

Þetta með fækkun skordýra er töluvert áhyggjumál að mínu mati og ekki til að hafa í flimtingum, en ég held að þetta sé vegna skordýraeiturs sem notað er í miklu magni sum staðar og hafa verið fréttir af því að sumir akrar séu úðaðir jafnvel oftar en einu sinni á dag. Það segir sig sjálft að þetta hefur gríðarleg áhrif á lífríkið.

En þakka þennan fróðleik varðandi dystópíu og útópíu, ég hafði ekki velt þessu fyrir mér með þessum hætti sérstaklega varðandi bækur og skáldverk.

Sveinn R. Pálsson, 17.2.2019 kl. 13:20

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er nú þannig Sveinn að ég hef ekki lesið bloggið þitt hingað til. Kannski geri ég það samt héðan í frá. Hagmælskan (svokallaða) er nú ekki sérlega merkileg. Held að við Jóhannes gerum þetta aðallega okkur til skemmtunar. 

Það er þetta með skordýrin. Ég er ekkert að grínast með það að ég held að þau séu stórmerkileg. Aftur á móti held ég að þessi svokallaða könnun sé óttaleg vitleysa. Enn held ég að búsvæði þeirra séu mikil og stór. Auðvitað minnka þau, en ég held að skordýrin svari því á einhvern hátt sjálf. T.d með því að verða ónæm fyrir skordýraeitri. Tel þau alveg fær um það. 

Gaman að þú skulir athugasemdast hér en ekki skrifa á fésbókina. Það gera flestir. Nenni ekki að skrifa meira núna.

Sæmundur Bjarnason, 17.2.2019 kl. 21:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband