2825 - Um skordýr og fleira

Er ekki öll okkar þekking meira og minna brotakennd? Heyrði um daginn að svo og svo margir heimsæktu vísindavefinn á hverjum degi og hve mörg innleggin og spurningarnar væru. Ég á dálitið erfitt með að muna tölur (man þó símanúmer ótrúlega vel) en man þó að þessar tölur báðar voru mjög háar. Eru einhverjir sem lesa allt sem kemur inn á vísindavefinn, og skilja þeir fyllilega allt sem þar er sagt? Eru þeir sem það hafa gert, séu þeir einhverjir, þar með orðnir vísindamenn? Sennilega ekki. Allir fá líklega allskyns áreiti á heilann á hverjum degi og tengja það á sinn hátt við annað sem hefur komið annars staðar frá. Þannig held ég að þekking og trú hverrar mannveru sé einstök.

Fjölmiðlar hafa mikinn áhuga á könnunum hverskonar. Ég líka. Í einhverri könnun sem ég heyrði af fyrir stuttu kom fram að meirihluti fólks áleit sjálft sig mikið yfir meðallagi hvað snerti færni við bifreiðaakstur. Ekki kom mér það á óvart. Sennilega eru langflestir ökumenn langt yfir meðallagi hvað slíkt snertir. Á þetta ekki við um margt fleira en bílakstur? Mér hefur virst að sjálfsálit margra sé mjög mikið. Ekki er það nein furða. Ef maður hefur ekki álit á sjálfum sér, hver ætti þá að hafa það?

Nú er ég greinilega kominn í þann fasann að ég er farinn að blogga á hverjum degi. Að því leyti er hægt að segja að þetta sé einskonar dagbók. Ekki get ég þó státað af því að vera fyrstur með fréttirnar. Hvað þá að ég geti haldið því fram að ég geti eins og segir í aulýsingunni „verið með fréttirnar áður en þær gerast“ eða var það kannski jafnóðum sem sagt var. Man það ekki en það skiptir varla máli.

Hundasýningar eru merkilegar fyrir kattamenn eins og mig. Oft held ég að það sé svo, að ef sýnt er frá þessum sýningum í sjónvarpi, þá fylgist hinir venjulegu and-hundaeigendur  betur með hvernig mannverurnar hlaupa heldur en hundarnir. Vonandi eru það samt fleiri sem horfa á hundana en á mannfólkið. Samt er ég ekki viss. Fólkið sem hleypur með hundunum er samt að sýna sig. Ekki mundi ég taka í mál að hlaupa með hundi á slíkri sýningu.

Man vel eftir þessari fyrirsögn í dagblaði: „Hrun í geitungastofninum“. Eiginlega var ég bara feginn. Geitungar eru þær einu flugur sem ég ber óttablandna virðingu fyrir. Líka er ég óskaplega feginn því að hvorki kakkalakkar né moskítóflugur fái þrifist hér á Íslandi. Af einhverjum ástæðum er mér meinilla við þessi kvikindi. Samkvæmt nýjustu fregnum fer skordýrum mjög fækkandi í heiminum. Veit ekki hvort ég á að gleðjast eða hryggjast yfir því. Fólki er alltaf að fjölga í veröldinni og vegna fæðuöflunar meðal annars þarf það sífellt á auknu plássi að halda. Þar með minnkar það pláss sem aðrar dýrategundir hafa til ráðstöfunar. Skordýr eru þar ekki undanskilin. Þó ég sjái mjög fá skordýr eða kóngulær (kóngulær eru ekki skordýr) um þessar mundir þýðir það ekki endilega að þeim sé að fækka. Svo getur þó vel verið og kannski kemur það til með að hafa áhrif á okkur mannfólkið.

IMG 7135Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hirðir lítt um sorg og sút
sjálft þó lífið kraumi.
Þarna kemur kallinn út
með köttinn sinn í taumi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.2.2019 kl. 14:59

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kötturinn er kominn burt
komst í miklar nauðir.
Margir spyrja kannski kvurt
kettir fari dauðir.

Sæmundur Bjarnason, 12.2.2019 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband