9.2.2019 | 09:17
2822 - Kambsmálið (ekki Kambsránið)
Eins og flestir eða allir vita hefjast fyrstu þingfundir hvers dags á því að þingmenn fá tíma til að ræða um störf þingsins eða koma með óundirbúar fyrirspurnir, venjulega eru þær greinilega eitthvað undirbúnar, en vafalaust lítið. Held að það hafi verið Jónas heitinn Kristjánsson fyrrum ritsjóri sem fann uppá því að kalla þetta hálftíma hálfvitanna. Að mörgu leyti er það réttnefni því satt að segja eiga þingmenn það til að haga sér eins og hálfvitar í þessum undanfara alvarlegra þingfunda um löggjafarmálefni. Sjálfur lít ég a.m.k. á umræðurnar um störf þingsins eins og nokkurskonar videóblogg þingmanna, því þar geta þeir talað um hvaðeina sem þeim dettur í hug.
Hálfvitagangur þingmann birtist okkur fávísum áhorfendum einkum í því að sumir þeirra stunda það að nota í andsvörum þær mínútur sem þeir mögulega mega nota í stað þess á segja á 5 sekúndum eða svo það sem þeir meina. Annað tækifæri fá þingmenn til að láta í ljós hálfvitagang sinn er þegar þeir gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Stundum eru þó þessar athugasemdir réttmætar. Forseti þingsins er svo kapítuli útaf fyrir sig og ráðherrarnir líka. Núorðið er litið niður á þá þingmenn sem fara áberandi fullir í ræðustól. Jafnvel er drykkjuskapur litinn hornauga á vinnustaðnum. Gott ef þingmenn þurfa ekki að fara alla leið útá Klausturbar til að fá sér bjór.
Það eina sem mér þykir svolítið skrýtið í sambandi við Klaustursmálið er að Bára Halldórsdóttir skuli hafa ákveðið nokkrum dögum eftir drykkjurausið að koma fram undir nafni. Ég hefði haldið að hún hefði ekki þurft þess. Kannski sá hún ofsjónum yfir því að einhver nafnlaus mundi hljóta heiðurinn af öllu saman. Nú er það semsagt komið í ljós að Sjálfgræðisflokkurinn er eini stjórnmálaflokkurinn sem græðir á þessum Klausturósköpum.
Eru allar hugdettur allra jafgildar? Eru þær t.d. skáldskapur? Samanlagðar hugdettur á íslensku eru varla eins margar og á sumum öðrum þjóðtungum? Eru hugdettur kannski þjóðtungulausar, og þá kannski aldrei færðar í orð? Hvernig á þá að finna þær? Eru þær kannski endalausar mínus ein? Hvurslags endileysa er þetta? Mér væri sennilega nær að skrifa eitthvað um Kambsmálið.
Þann 4. júni 1953 mætti hreppstjóri Árneshrepps að bænum Kambi í sömu sveit til þess að bjóða upp dánarbú heimilisföðurins, sem látist hafði fyrr á árinu. Húsmóðirin var á berklahælinu á Vífilsstöðum en heima fyrir einungis börnin, átta talsins og á aldrinum 7 til 18 ára. Þegar búið var að selja hæstbjóðendum allt sem nýtilegt var af búsmunum, stóð til að ráðstafa barnaskaranum á heimili í sveitinni eftir fornum reglum um sveitarómaga. Þá gerist það að átján ára heimasæta stillir sér upp í útidyrum og fyrirbýður að nokkurt systkina hennar verði tekið í burtu af heimilinu. Eftir nokkurt stímabrak lúpast yfirvöld af bænum og skilja börnin eftir í reiðileysi.
Takið eftir því, kæru lesendur að þetta gerðist árið 1953, en ekki átjáhundruð og eitthvað, eða sautjánhundruð og súrkál. Nei þetta var árið 1953. Sjálfur hef ég verið orðinn tíu ára þegar þetta var. Kannski hefur höfundurinn fært þetta eitthvað í stílinn, en ekki er hægt að mótmæla því að þetta uppboð fór fram. Fyrir því eru óyggjandi sannanir. Líka er það staðreynd að hreppstjóratuskan hefur haft einhvern samviskusnepil. A.m.k. lúskraðist hann í burtu, án þess að koma fyrirætlun sinni að fullu í framkvæmd.
Athugasemdir
Með ósköpum og aðeins þá
endar þessi fjandi.
Fyrst ekki nokkur níðast má
á neinum í þessu landi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.2.2019 kl. 13:27
Eru menn víst alltaf hreint
á að níðast smáum.
Réttlæti er raungert seint,
ríkið hentar fáum.
Sæmundur Bjarnason, 9.2.2019 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.