2820 - Íslendingabragur

Eitt allra frægasta og umtalaðasta kvæði sem ort hefur verið á íslenska tungu er án efa Íslendingabragur Jóns Ólafssonar ritstjóra skálds og síðar alþingismanns (1850-1916), sem birtist fyrst í tímaritinu Baldri þann 19. mars 1870 með nótnasetningu. Hægt var semsagt að syngja kvæðið og lagið er það sama og við franska þjóðsönginn – Marseillesinn - Höfundurinn var aðeins 19 ára gamall þegar kvæðið birtist. Þó var hann í raun ritstjóri Baldurs og hafði verið það í svona tvö ár. Ekki eru tök á því að birta allt kvæðið hér í örstuttu bloggi, enda er það næstum 150 ára gamalt og tungutak dálítið breytt. Ef til vill er þetta frægasti kafli þess:

En þeir fólar, sem frelsi vort svíkja
og flýja í lið með níðingafans,
sem af útlendum upphefð sér sníkja,
eru svívirða og pest föðurlands.
Bölvi þeim ættjörð á deyjanda degi,
daprasta formæling ýli þeim strá,
en brimrót, fossar, fjöllin há
veiti frið stundar-langan þeim eigi.
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.

Þetta kvæði varð samstundis frægt um allt land. Loks var hann svo auðvitað kærður af Hilmari Finsen stiftamtmanni og útgáfa Baldurs stöðvuð. Þó Jón væri sýknaður af alvarlegustu kröfunum hér á Íslandi, var málinu áfrýjað til Hæstaréttar í Kaupmannahöfn og hann þurfti að borga allan málskostnað og flýði í framhaldinu til Noregs þann 10. október 1870. Kvæðið kveðju til Íslands orti hann þá og það hefst þannig:

Íslands tindar sökkva í sjá
sjónum fyrir mínum.
Skyldi ég oftar Frón ei fá
faðmi að sveipast þínum?

Margar bækur mætti skrifa um Jón þennan Ólafsson. Hann var sannur ævintýramaður og flæktist víða um lönd. Fór meðal annars til Alaska og ferðaðist þar um. Kynntist þáverandi Bandaríkjaforseta Ulysses S. Grant, gerði samkomulag við hann eða stjórn hans um að Íslendingar flyttu til Kodiak-eyju undan Vesturströnd Ameríku, sem Banadríkjamenn réðu. Úr því varð þó ekki. Seinna kom hann svo aftur til Íslands og hafði afskipti af ýmsu. Stofnaði prentsmiðju, gaf út tímarit og margt fleira. Alkunnugt er ennþá a.m.k. eitt kvæði eftir hann og hefst það þannig: Máninn hátt á himni skín.

Það var Þorsteinn Thorarensen  sem skrifað dálítið (35 bls.) um Jón Ólafsson í bók sinni ELDUR Í ÆÐUM sem Fjölvi gaf út árið 1967. Ég studdist dálítið við þá frásögn við þetta blogg. Sennilega er ekki ástæða til að blogga meira að sinni.

IMG 7150Einhver mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Í deilum Jóns við Danaslegt
dómur upp var kveðinn.
Fyrir kvæðið fékk ei sekt
samt flýði óumbeðinn.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 4.2.2019 kl. 14:30

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jónsa kvæði jafnan góð
og jötna meður skafti.
Dani hann í djöfulmóð
dissaði af krafti.

Sæmundur Bjarnason, 4.2.2019 kl. 15:32

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Jón Ólafsson ritstjóri, skáld, alþingis- og ævintýramaður…

http://www.agust.net/wordpress/2016/11/20/jon-olafsson-ritstjori-skald-althingis-og-aevintyramadur/

Með góðri kveðju,


Ágúst


Ágúst H Bjarnason, 4.2.2019 kl. 15:35

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

 Eða hér:
https://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1032538/

Ágúst H Bjarnason, 4.2.2019 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband